2. febrúar 1997 | Ferðalög | 686 orð

Carving er tískuorðið í skíðabransanum í vetur Skíðaleigur ryðja sér til rúms

Carving er tískuorðið í skíðabransanum í vetur Skíðaleigur ryðja sér til rúms CARVING er tískuorðið í skíðabransanum í vetur.

Carving er tískuorðið í skíðabransanum í vetur Skíðaleigur ryðja sér til rúms

CARVING er tískuorðið í skíðabransanum í vetur. Sígildir skíðaframleiðendur misstu af snjóbrettaæðinu þegar nýir framleiðendur ruddust inn á vetraríþróttamarkaðinn með nýja vöru. Þeir urðu urðu að láta sér detta eitthvað nýtt í hug. Skíðasala hafði staðnað og stefndi niður á við. Lausnin var Carver-skíði. Þau eru ekki mjög ólík venjulegum skíðum en munurinn er þó nógu mikill til þess að þeir sem vilja fylgjast með þurfa að fá sér ný skíði.

Meirihluti skíðamanna í Bandaríkjunum renna sér nú á Carver-skíðum. Það eru þrjár gerðir af þeim, venjuleg Carver-skíði, Carver keppnisskíði Carver og Carver skemmtiskíði.

Carver-skíði eru mjórri í miðjunni en að framan og aftan, það má segja að þau séu með mitti undir bindingunni. Skíði hafa alltaf verið aðeins breiðari að framan og aftan en munurinn er orðinn meiri. Þetta nýja snið auðveldar skíðamönnum að taka beygjur, beygjurnar verða stærri og rúnaðri og skíðamaðurinn fær meiri svif-tilfinningu. Skíðakennari í Schruns í Austurríki sagði að 70% skíðamanna hefðu ekki fullt vald á skíðunum, þeir næðu að renna á þeim, en stýrðu þeim ekki fullkomlega. Carver-skíði breyta þessu. Það er auðveldara að læra á þau og skíðafólk fær meiri ánægju út úr skíðafríunum.

Snjóbretti, Carver skemmtiskíði, risa löpp . . .

Carver skemmtiskíði eru mun styttri en Carver-skíði. Þau eru líka breiðari, 12,5 cm, að framan og aftan samanborið við venjuleg Carver sem eru 10 cm breið. Allar Carver tegundirnar eru 8,2 cm undir bindingunni. Skíðin sem ég prófaði náðu mér ekki nema upp að höku.

Skíðastafir eru ekki notaðir með Carver skemmtiskíðum. Það á að halla sér inn í beygjurnar og þeir flinkustu snerta jörðina með puttunum í hverri beygju. Skíðin grípa vel og það þarf ekki mikla kúnst til að hafa gaman af að renna sér á þeim. Það er dálítið skrýtið að fara aftur á venjulegu skíðin, en það venst fljótt.

Skíðaskólar í Ölpunum bjóða nú upp á tíma í Carving tækni. Vanir skíðamenn ná henni á skömmum tíma. Nokkur skíðasvæði, eins og til dæmis Andermatt í Sviss, hafa tekið frá brekku fyrir Carver skemmtiskíðin. Hugmyndin er að allir fari sömu beygjurnar í þessari brekku, hver á eftir öðrum eins og í rennibraut.

Það er gaman að prófa Carving skemmtiskíðin. Þau eru tilbreyting frá venjulegum skíðum eins og snjóbretti, risa löpp (breið skíði sem eru ekki nema um 60 cm á lengd), sleði eða snjóþrúgur eru. Það er auðvitað af og frá að fólk kaupi allar þessar tegundir af snjógræjum. Það er auðveldast að leigja. Ferðamálastjórinn í Schruns, sem fer upp í brekku eins oft og hann getur, hefur til dæmis ekki átt skíði í nokkur ár. Hann leigir þau við lyftuna og getur valið hvaða bretti sem hann vill.

Skíðaleiga í anda McDonalds

Ferðamálastjórinn notar NTC-þjónustuna. Það er hugmynd eins úr þorpinu sem vill koma upp skyndi-skíðaleigum við sem flestar lyftur. NTC er skammstöfun á New Technology Center eða Nýja Tæknisetrið. Það á að gera fólki mögulegt að ganga inn af götunni og leigja allt sem til þarf til að fara á skíði, allt frá húfu ofan í skó, á örskömmum tíma. Persónu-upplýsingar eru settar inn á tölvu, kúnninn fær plastkort og næst þegar hann kemur veit tölvan hvaða stærðir og stillingu hann þarf.

NTC-skíðaleigurnar verða alls staðar eins, ef þær ná útbreiðslu. Það er þegar ein í Laax í Sviss og forstjórinn var í kynningarför í Bandaríkjunum fyrir jól. Skíðaskórnir eru sótthreinsaðir á hverju kvöldi og skíðin eru skerpt. Viðskiptavinir eiga að geta verið vissir um að þeir fái alltaf bestu græjur. Þeir losna við að ferðast með mikinn farangur og geta prófað mismunandi bretti án þess að það kosti mikið.

Anna Bjarnadóttir

Morgunblaðið/Anna Bjarnadóttir

SÍGILT snjóbretti með bindingu þar sem fæturnir eru hlið við hlið, nýtt bretti með bindingu þar sem annar fóturinn er fyrir framan hinn, risa löpp, og svo skemmti Carver.

SKEMMTI Carver skíðin eru 4 cm breiðari að framan og aftan en í miðjunni.

ÞAÐ á að taka örskamma stund að leigja skíðaútbúnað í tölvuvæddu NTC skíðaleigunum.

ÞAÐ þarf ekki skíðastafi með skemmti Carver. Þeir bestu snerta snjóinn með fingrunum í hverri beygju.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.