Innanlandsflug Flugleiða verður sameinað Flugfélagi Norðurlands undir nafninu Flugfélag Íslands hf.

Innanlandsflug Flugleiða verður sameinað Flugfélagi Norðurlands undir nafninu Flugfélag Íslands hf. Aukinn sveigjanleiki og bætt nýting Áætluð velta félagsins er um 1,8 milljarðar á ári og gert er ráð fyrir að flytja 286 þúsund farþega innanlands á ári hverju og 14 þúsund farþega í millilandaflugi eða samtals 300 þúsund farþega.

FLUGFÉLAG Norðurlands hf. mun taka við starfsemi innanlandsflugs Flugleiða frá og með 1. júní næstkomandi og verður nafni félagsins um leið breytt í Flugfélag Íslands hf. Flugleiðir, sem nú eiga 35% í Flugfélagi Norðurlands, munu auka sinn hlut í 65%. Fimm Akureyringar, þeir Jóhannes Fossdal, Jón Emil Karlsson, Sigurður Aðalsteinsson, Skarphéðinn Magnússon og Torfi B. Gunnlaugsson munu eiga 35%.

Starfsmönnum innanlandsflugs Flugleiða hafa verið boðin störf hjá Flugfélagi Íslands frá og með 1. júní og halda þeir allir sínum kjörum og hlunnindum. Þeir flugmenn Fokker 50-véla sem nú starfa hjá Flugleiðum halda þó stöðum sínum hjá félaginu, en starfsvettvangur þeirra verður hjá Flugfélagi Íslands. Mun félagið gera verktakasamning um það við Flugleiðir. Flugmenn hjá Flugfélagi Norðurlands verða hins vegar starfsmenn Flugfélags Íslands ásamt nýjum flugmönnum innanlandsflugs.

Gert er ráð fyrir að félagið kaupi ýmsa þjónustu af Flugleiðum, t.d. vegna viðhalds, bókhalds og áhafnaskráningar. Það er þó með óbundnar hendur í þeim efnum og getur leitað annað ef það reynist hagkvæmara.

Mun ráða til sín flugfreyjur

Hið nýja flugfélag mun ráða til sín flugfreyjur og flugþjóna til starfa um borð, þannig að núverandi flugfreyjur og flugþjónar Flugleiða munu alfarið starfa um borð í millilandavélum. Framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands verður Páll Halldórsson sem verið hefur forstöðumaður innanlandsflugs Flugleiða, en Sigurður Aðalsteinsson sem verið hefur framkvæmdastjóri Flugfélags Norðurlands mun taka við starfi flugrekstrarstjóra.

Meginstarfsemi Flugfélags Íslands verður á Reykjavíkurflugvelli, en starfsemin á Akureyri verður svipuð og nú er þar samanlagt hjá Flugfélagi Norðurlands og Flugleiðum. Heimili og varnarþing Flugfélagsins verður á Akureyri, en svo vill til að þann 3. júní nk. eru 60 ár liðin frá því Flugfélag Akureyrar var stofnað. Nafni þess var síðar breytt í Flugfélag Íslands sem aftur myndaði Flugleiðir ásamt Loftleiðum. Merki hins nýja Flugfélags Íslands verður hið sama og notað var fram til sameiningar félaganna 1973.

Fjórar stærstu áætlunarleiðir innanlandsflugs Flugleiða hafa verið frá Reykjavík til Akureyrar, Ísafjarðar, Egilsstaða og Vestmannaeyja. Þá hefur félagið sinnt reglubundnu leiguflugi til Grænlands yfir sumartímann og áætlunarflugi til Færeyja. Flugfélag Norðurlands hefur aftur á móti flogið frá Akureyri til Ísafjarðar, Egilsstaða og nokkurra minni staða á landsbyggðinni, en jafnframt hefur það sérleyfið í áætlunarflugi til Grænlands. Flugfélag Íslands mun að öllu leyti sinna núverandi áfangastöðum, bæði út frá Reykjavík og Akureyri. Einnig verður bæði áætlunar- og leiguflug til Grænlands, til Færeyja og milli Færeyja og Glasgow, en helstu sóknarfæri félagsins eru talin í flugi til Grænlands.

Áætluð velta um 1,8 milljarðar

Flugfélag Íslands mun hafa á að skipa flugflota með bæði stórum og litlum flugvélum. Þannig munu fjórar 50 sæta Fokker 50-flugvélar, sem smíðaðar voru árið 1992, þjóna á öllum stærstu leiðum milli Reykjavíkur og staða á landsbyggðinni og verða þær staðsettar í Reykjavík. Flugleiðir hafa þessar vélar á kaupleigu, en gert er ráð fyrir að einni þeirra verði skilað til eiganda hennar í vor og önnur sömu gerðar tekin á leigu yfir sumartímann. Félagið hefur rétt til að skila hinum þremur Fokker-vélunum árið 2002. Þrjár Metro 19 sæta flugvélar verða staðsettar á Akureyri og í Reykjavík, tvær Twin Otter 19 sæta vélar verða staðsettar á Akureyri og sömuleiðis tvær Chieftain 9 sæta fluvélar.

Áætluð velta félagsins er um 1,8 milljarðar á ári og gert er ráð fyrir að flytja 286 þúsund farþega innanlands á ári hverju og 14 þúsund farþega í millilandaflugi eða samtals 300 þúsund farþega.

Afnám sérleyfa 1. júlí

Bæði Flugleiðir og Flugfélag Norðurlands stóðu frammi fyrir harðnandi samkeppni í innanlandsflugi, þar sem öll sérleyfi munu falla niður frá og með 1. júlí nk. Ennfremur hafa stjórnendur Flugleiða um langt árabil leitað leiða til að bæta afkomuna í þessum rekstri.

Sigurður Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Norðurlands sagði í samtali við Morgunblaðið að það hefði verið talið skynsamlegra fyrir félagið að hefja samvinnu við Flugleiðir í nýju fyrirtæki fremur en að ráðast í fjárfestingar til að mæta samkeppninni. Að öllu óbreyttu hefðu þrír aðilar verið í samkeppni í innanlandsflugi og hugsanlega fleiri. Þá nefndi Sigurður að félögin hefðu átt í samstarfi, þar sem Flugfélag Norðurlands hefði tekið við farþegum Flugleiða á Akureyri og flutt þá áfram til annarra áfangastaða. Félögin hefðu einungis verið í samkeppni á leiðinni milli Húsavíkur og Reykjavíkur.

Um afkomuna af rekstri Flugfélags Norðurlands á síðasta ári sagði Sigurður að niðurstaðan lægi ekki endanlega fyrir, en ljóst væri að hagnaður hefði orðið hjá félaginu og afkoman verið þokkaleg.

Íslandsflug var um tíma þátttakandi í viðræðum um uppstokkun í innanlandsfluginu, en Sigurður sagði greinilegt að forsvarsmenn félagsins hefðu metið það svo að vænlegra væri að halda áfram sínum rekstri en að sameinast á þessum grundvelli.

Afkoman batnaði um rúmar 100 milljónir

Páll Halldórsson segir að Flugleiðir hafi ekki talið sér fært að takast nægilega vel á við væntanlega samkeppni innanlands á árinu 1997 með núverandi fyrirkomulagi. Þörf væri á meiri sveigjanleika. "Við þurfum minni vélar til að sinna minni stöðunum og þurfum að ná betri nýtingu á stærri vélunum í flugi til stærri staðanna. Minni vélar eru auðvitað mun ódýrari rekstrareining á minni staðina. Að vetri til nýtist 19 sæta vél mjög vel í flugi til Hornafjarðar. Á sumrin er hins vegar mjög mikið af 15-30 manna hópum á leið á jökul og þá þurfum við stærri vélar."

Undanfarna 18 mánuði hefur innanlandsflug Flugleiða verið starfrækt sem algerlega sjálfstæð eining innan félagsins og hefur það fyrirkomulag gefist vel og leitt til betri afkomu. Páll segir aðspurður um afkomuna að áætlað sé að hún hafi batnað um rúmar 100 milljónir á síðasta ári miðað við árið 1995. "Reksturinn hefur orðið skilvirkari með því að gera innanlandsflugið sjálfstæðara. Við höfum tekið yfir ákveðna hluti og gert þá ódýrari, en aðallega er þó um tekjuaukningu að ræða. Á árinu voru fluttir 281 þúsund farþegar sem er met, en samhliða höfum við náð að halda svipuðu meðalfargjaldi."

Áætlanir um afkomu Flugfélags Íslands gera ráð fyrir að hagnaður verði á fyrsta heila starfsárinu sem nemur einhverjum tugum milljóna. Eigið fé félagsins verður í upphafi 400 milljónir króna.

Morgunblaðið/Þorkell

ÞEIR Sigurður Helgason, forstjóri Flugleiða, Sigurður Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Norðurlands og Páll Halldórsson, forstöðumaður innanlandsflugs Flugleiða kynntu í gær breytingarnar í innanlandsfluginu.