9. febrúar 1997 | Sunnudagsblað | 2389 orð

Gleggsta gestsaugað Í haust stendur til að frásögn hins þýzka fræðimanns og

Gleggsta gestsaugað Í haust stendur til að frásögn hins þýzka fræðimanns og Íslandsvinar, Konrads Maurers, af ferðum hans um Ísland árið 1858 verði gefin út fyrsta sinni, tveimur mannsöldrum eftir að ferðin var farin sem lýst er.

Gleggsta gestsaugað Í haust stendur til að frásögn hins þýzka fræðimanns og Íslandsvinar, Konrads Maurers, af ferðum hans um Ísland árið 1858 verði gefin út fyrsta sinni, tveimur mannsöldrum eftir að ferðin var farin sem lýst er. Með útgáfunni er þess minnzt, að Ferðafélag Íslands hefur í ár starfað í einn mannsaldur, eða 70 ár. Auðunn Arnórsson fræddist um útgáfuna og lýsingar einhvers gleggsta gestsaugans, sem heimsótt hefur Ísland. KOMANDI hausti kemur út í íslenzkri þýðingu ferðalýsing Konrads Maurers, sem þessi merki þýzki fræðimaður og einlægi Íslandsvinur skráði eftir fyrstu og einu Íslandsför sína árið 1858. Þetta verður í fyrsta sinn sem þessi frásögn kemur út á prenti, en hún sker sig að ýmsu leyti úr Íslandsferðalýsingum annarra erlendra manna, sem hingað lögðu leið sína á 19. öld. Útgáfa bókarinnar verður meðal viðburða sem marka 70 ára afmæli Ferðafélags Íslands.

Konrad Maurer er mörgum Íslendingum kunnur, en hann gerðist sérfræðingur í íslenzkri réttarsögu og bókmenntum og markaði spor í Íslandssöguna m.a. með innleggi sínu í baráttu Íslendinga fyrir stjórnarfarsúrbótum á 19. öld með greinaskrifum í þýzk, dönsk og íslenzk blöð og tímarit, en ekki sízt með því að vera meðal helztu ráðgjafa Jóns Sigurðssonar í sjálfstæðisbaráttunni. Vinátta þeirra Jóns, sem hófst 1855, entist þeim út ævina.

Maurer hafði verið prófessor í réttarsögu við háskólann í M¨unchen um 11 ára skeið þegar hann kom hingað í apríl 1858, og hélt þeirri stöðu út starfsævina, sem var óvenju afkastarík. Maurer lézt árið 1902.

Sérstaða Maurers

Ferðalýsing Maurers sker sig á margan hátt úr öðrum, sem kunnar eru frá öldinni sem leið. Vitneskju okkar um íslenzkt þjóðfélag síðustu aldar eigum við ekki sízt að þakka erlendum ferðamönnum sem skrifuðu síðan ferðabækur, sem oft voru myndskreyttar með teikningum og koparstungum, gerðar af úrvalsteiknurum. Myndir Englendingsins Collingwoods eru sennilega bezt þekktar.

Algengast er þó að augu gestanna, sem voru nær undantekningarlaust menntaðir fyrirmenn frá þróuðustu þjóðfélögum Evrópu ­ oft náttúrufræðingar ­ beindust einkum að hinum einstöku íslenzku náttúrufyrirbærum. Minna fer í mörgum ferðafrásögnum fyrir lýsingum á fólkinu í landinu og menningu þess, enda stóðu tungumálaerfiðleikar erlendu gestunum iðulega fyrir þrifum í því efni.

Hjá Konrad Maurer horfði þetta öðruvísi við. Leiða má líkum að því, að hann sé eini ferðabókarhöfundurinn erlendur, sem ekki aðeins gat lesið íslenzku, heldur talaði málið, jafnframt því að hafa lesið mestan hluta miðaldabókmenntanna íslenzku áður en hann lagði leið sína hingað. Þessi þýzki háskólaprófessor kom fram við Íslendinga eins og jafningja sína og fjallar um þá sem slíka í skrifum sínum. Hann sýndi mikinn áhuga á atvinnuháttum landsmanna, kjörum þjóðarinnar og hann mat samtímamenningu hennar mikils. Það má því leiða að því rök, að gestsauga hans hafi verið gleggra en önnur.

Lágu lengi í gleymsku

Útgáfa ferðadagbóka Maurers á sér langan aðdraganda. Tilvist þeirra lá lengi í gleymskunnar dái. Það var ekki fyrr en þýzk kona, Kládía Róbertsdóttir Wiebel, fór fyrir um aldarfjórðungi að glugga í bréf frá Maurer, sem varðveitt eru í Landsbókasafni Íslands. Í ljós kom að Maurer minnist á ferðasöguna í bréfunum. Þóttust menn því hafa vissu fyrir að hún hefði verið skrifuð og að handritið væri hugsanlega til ennþá.

Það var síðan árið 1974, að samstarf Kládíu og Kurts Schiers prófessors í M¨unchen leiddi til þess að handritið komst loks í leitirnar. Það fannst ásamt öðrum handritum Maurers í rykföllnum skókössum í kjallara sonarsonar Maurers í Augsburg, þar sem hann starfaði sem lögfræðingur.

Handritið er skrifað á 99 bækur, eða brotnar arkir, samtals 394 skrifaðar síður, en vélrituð er ferðasagan um 800 síður. Ekki var auðhlaupið að því að lesa handritið, því Maurer hafði af einhverri ástæðu þann hátt á að skrifa örsmátt; svo smátt, segir Kurt Schier, að línuhæðin með línubili er vart meiri en 2 millimetrar. Eftir því sem á líður verkið hefur skriftin orðið smærri.

Schier vann að hreinritun ferðasögunnar í mörg ár samhliða starfi sínu sem prófessor í norrænum fræðum við háskólann í M¨unchen, en hann er nýlega farinn á eftirlaun og einbeitir sér nú að útgáfumálum. Undir ritstjórn hans vinnur um þessar mundir Diederichs-bókaútgáfan í M¨unchen að útgáfu ritraðarinnar "SAGA", sem er umfangsmesta útgáfa á íslenzkum fornritum á þýzku, sem ráðizt hefur verið í, þrátt fyrir að njóta engra opinberra styrkveitinga. Alls eiga 30 bindi að koma út í ritröðinni, og munu allir helztu norrænufræðingar Þýzkalands leggja hönd á plóginn. Í fyrrahaust komu fyrstu tvö bindin út, en það voru annars vegar úrval íslenzkra fornaldarsagna og ný þýðing Kurts Schiers á Egils sögu.

Íslenzkir áhugamenn taka til við undirbúning

Hér á landi gengu áhugamenn um verk og minningu Konrads Maurers í það að þýða ferðasöguna í hreinriti Kurts Schiers með birtingu hennar að markmiði. Jóhann J. Ólafsson, stórkaupmaður, Sigurður Líndal, prófessor, og Þorvarður Alfonsson hagfræðingur stofnuðu fyrstu undirbúningsnefnd útgáfunnar, en frá því í júnímánuði 1995 hefur fimm manna nefnd unnið markvisst að undirbúningnum með mánaðarlegum fundum. Í henni eiga sæti Jóhann J. Ólafsson, Árni Björnsson, þjóðháttafræðingur, Tómas Einarsson, kennari, Páll Sigurðsson, formaður Ferðafélags Íslands, og Baldur Hafstað, málfræðingur, en hann hefur þýtt alla söguna.

Baldur er nú að vinna að gerð heimilda- og atriðisorðaskrár. Að sögn Jóhanns J. Ólafssonar er búið að safna ljósmyndum af 60 mönnum sem getið er í sögunni og teikna 20­30 myndir sem skreyta eiga bókina. Ennfremur mun vera ætlunin að láta teikningar úr ferðabók Wilhelms Winklers skreyta bókina, en hann var samferðamaður og landi Maurers. Hans verður nánar getið síðar.

Kurts þáttur Schiers

Kurt Schier mun rita hluta inngangsins að hinni íslenzku útgáfu ferðasögunnar. Hann segist munu minnast þar á nokkur atriði úr aðdraganda útgáfunnar, sem hefur að mestu verið rakinn hér, en hann hafi í hyggju að bæta þar nokkru við þá vitneskju, sem þegar er til staðar um ferðir og störf Maurers.

"Þess vegna leitaði ég nánar í skjalasöfnum í þeirri von að finna eitthvað meira um Maurer," segir Schier í samtali við Morgunblaðið. Þó nokkrum mikilvægum spurningum í tengslum við ferð Maurers til Íslands sé enn ósvarað, segir hann. Ein þeirra sé spurningin um hver hafi borið kostnaðinn af ferðinni. "En ég veit það ekki enn, það finnst ekki neitt," segir Schier á lýtalausri íslenzku. Eyðileggingar stríðsins hafi tekið sinn toll af hugsanlegum heimildum. Hann hefur þó sínar tilgátur um þetta atriði. Segist þó hafa von um að finna staðfestingar á tilgátum sínum: "Ég held að konungurinn sjálfur hafi borgað," segir Schier. "Ég hef fengið leyfi til að skoða það sem er í svokölluðu "geheimes Hausarchiv" [einkaskjalasafni konungsfjölskyldunnar í Bæjaralandi]." Þar vonast hann til að finna staðfestingu á tilgátum sínum.

Fundur dagbókarhandrits

Við leitina að gömlum skjölum sem tengdust Maurer, segist Schier hafa snúið sér aftur að háskólabókasafninu í M¨unchen, þar sem hann þó hafði gert ítarlega leit mörgum árum áður og verið sagt að ekkert meira væri að finna. "Nú er það hins vegar komið í ljós, að þar leyndust ýmis verk Maurers," segir Schier. "Meðal annars ýmis prenthandrit, til dæmis af "Isl¨andische Volkssagen der Gegenwart"," en það er þýðing Maurers á safni íslenzkra þjóðsagna.

Það sem Maurer-áhugamönnum þykir þó hvað mestur fengurinn í á meðal þess, sem Schier fann í myrkum geymslum háskólabókasafnsins í M¨unchen, er handskrifuð dagbók Maurers. Ástæða þess er sú, að ferðadagbókin endar 10. september 1858, þó að menn hafi vitað að Maurer yfirgaf ekki landið fyrr en um miðjan október. Dagbókin lokar þessu tilfinnanlega gati á vitneskju manna um athafnir Maurers hérlendis. "Það voru því mikil gleðitíðindi, þegar Kurt Schier tjáði mér í nóvember síðastliðnum, að hann hefði fundið dagbækurnar," segir Jóhann J. Ólafsson í útgáfunefndinni.

Dagbókin er lítið bókarkorn, sem Maurer bar með sér hvert sem hann fór. Hann fyllti um 40 blaðsíður í bókinni með örsmárri skrift, rétt eins og þeirri sem kunn er úr handritum hans. Hann skráði þar nöfn þeirra manna sem hann hitti, og helztu atburði sem á daga hans dreif á ferðalaginu. "Í upphafi, og sérstaklega við lok dagbókarinnar skrifaði hann oftast bara nöfn. En á milli er dálítið meira," segir Schier.

Skal hér niðurlag ferðasögunnar rakið, í þýðingu Baldurs Hafstað, og stiklað eftir það á stóru yfir það sem á daga Maurers dreif síðustu vikur Íslandsdvalarinnar samkvæmt því sem frá er greint í dagbókinni.

Á slóðum Kjalnesingasögu

Er hingað er komið sögu er Maurer að koma úr miklu ferðalagi um landið. Áttunda september kemur hann ásamt ferðafélögum að Mosfelli. Fimmtudaginn 9. september skrifar Maurer: "Segja má að ferð okkar hafi lokið á Mosfelli. Bærinn er ekki lengra en svo frá Reykjavík að þangað má komast á þremur tímum. Leiðin þangað er þægileg og svæðið þegar orðið okkur kunnugt. Winkler fór strax um hádegi til að komast í þægilegri húsakynni, enda löngu búinn að fá nóg af ferðalaginu. En ég hafði ástæðu til að komast út á Kjalarnes til að athuga sögufræga staði og einnig til að geta verið lengur með séra Magnúsi [á Mosfelli] sem bjó yfir mikilli þekkingu um íslenskar þjóðsögur. Það var því um það samið að Ólafur [Ólafsson fagri] færi með alla klyfjahestana til Reykjavíkur því ég átti von á að þar biði mín póstur að heiman. (. . .) Um kvöldið birtist Pétur með bréfaböggulinn minn og sat ég yfir honum um nóttina."

Winkler sá sem hér er nefndur var þýzkur jarðfræðingur, sem ferðaðist með Maurer. Eftir hann liggja teikningar og koparstungur frá ferðalaginu. Ólafur Ólafsson, sem hafði viðurnefnið fagri, var Húnvetningur og fenginn til að vera fylgdarmaður Maurers á ferðum hans. Þeir urðu miklir vinir. Ólafur átti síðar son, sem hann nefndi eftir Maurer. Kom þetta síðar þeim kvitti á kreik, að Maurer hefði getið launson á ferð sinni hérlendis.

Föstudaginn 10. september reið Maurer í fylgd séra Magnúsar út á Kjalarnes.

"Fyrst var farið að nágrannabýlinu Hrísbrú (. . .). Athyglisverður persónuleiki var bóndinn á Hrísbrú, Símon Jónsson. Eins og svo margir íslenskir bændur sinnti hann fræðistörfum þótt aldrei hefði hann setið á skólabekk. Það var einkum stærðfræði sem hann hafði einbeitt sér að og var talinn mestur stærðfræðingur á Íslandi ólærðra manna þegar undan er skilinn Jón Bjarnason í Húnavatnssýslu sem fyrr er nefndur. Oft kom hann til Reykjavíkur til að leita ráða hjá hinum lærða Birni Gunnlaugssyni, og hjá honum lærði hann m.a. meðferð lógariþma. Við fórum síðan framhjá Leiruvogi og héldum aftur yfir Leirvogsá og að bænum Varmadal. Erfitt er að komast þar að því bærinn er umkringdur fenjum; þar var enginn heima þegar til átti að taka, en bóndann Jón Jónsson, virtan dugnaðarbónda, hittum við þar sem hann var við heyskap. Andlit hans var dæmigert búmannsandlit eins og maður þekkir frá Þýskalandi. (. . .) Þegar komið er dálítið lengra benti Eiríkur [bóndi í Kollafirði, sem slegizt hafði í för] okkur á Leiðvöll, gamlan dómsstað eins og nafnið bendir til, og rétt þar hjá var gálgi. Er hann í djúpri klettaskoru við sjóinn. Þvert yfir hana liggja gífurlegar hellur. Við þær var áður snaran fest. Enn var haldið áfram fyrst að Móum þar sem séra Sveinbjörn Guðmundsson bjó, prestur í Kjalarnesþingi. Hann tók okkur vel og veitti okkur súkkulaði en lét síðan söðla hest til að geta fylgt okkur áfram, en Eiríkur sneri til baka. En áður en lengra er haldið er nauðsynlegt að varpa dálitlu ljósi á sögu þessa svæðis."

Hér lýkur ferðasögunni. Hið skammorða minnispár Maurers í hinni nýfundnu dagbók kemur heim og saman við ferðabókarlýsinguna, en fræðir lesendur ennfremur um, að hann hafi þennan sama dag, 10. september, riðið hjá Klébergi og Hofi, heilsað upp á frú Sigríði Stephensen að Esjubergi og séð Búahelli. Punktar síðan hjá sér: "Gist að Móum." Þaðan heldur hann daginn eftir aftur að Mosfelli. Áður en þeir séra Sveinbjörn skilja segir hann Maurer margar sögur og gefur honum bækur. Maurer lýsir Sveinbirni svo í dagbók sinni: "Fyrirtaksprestur. Drekkur ekki."

Í Reykjavík

Sunnudaginn 12. september ríður Maurer til Reykjavíkur. Þar býður landshöfðinginn Trampe greifi honum til kvöldverðar ásamt Winkler ferðafélaga hans, tveimur Englendingum, og nokkrum íslenzkum mektarmönnum. Maurer punktar hjá sér: "Setið lengi að drykkju." Umræður manna snerust greinilega að mestu um fjárkláða, sem olli Íslendingum miklum búsifjum um þessar mundir.

Næstu dögum ver Maurer mestmegnis í heimsóknir og bréfaskriftir, og skráir hjá sér nöfn allra þeirra sem hann hittir að máli. Kvöldinu 15. september eyðir hann hjá Jóni Árnasyni, og eiga þeir "ríkulegt spjall" um þjóðsögur. Næstu daga ver hann þónokkrum tíma í uppskrift á þjóðsögum. Maurer safnaði og þýddi sjálfur margar íslenzkar þjóðsögur, sem hann gaf út á bók í Þýzkalandi 1862.

Fimmtudaginn 16. september pantar hann heimfarið með gufuskipinu og les "Pilt og stúlku". Um helgina tekur hann meðal annars þátt í viðræðum ­ við Bjarna Jónsson, Halldór Friðriksson og fleiri ­ um "stjórnarfar í landinu".

Sögulok

Síðustu daga Íslandsdvalarinnar fór tími Maurers mestmegnis í kveðjur. Föstudaginn 15. október nýtur hann aðstoðar aðstoðarmanns síns við að pakka saman föggum sínum og hittir fjölmarga vini og velgjörðarmenn hérlenda, sem margir hverjir gefa honum gjafir að skilnaði.

Laugardaginn 16. október ríður Maurer "í köldu en fögru veðri," um Kópavog, Arnarnes, Bessastaði og Garða. Þar hittir hann séra Helga Hálfdánarson og "hinn drukkna Árna Helgason, skipsprófast". Um kvöldið kemur hann til Hafnarfjarðar.

Um hádegisbil sunnudaginn 17. október stígur Maurer á skipsfjöl, sem tveimur stundum síðar hóf að fjarlægjast Íslandsstrendur.

Skömmu eftir heimkomu sína til Þýzkalands, kvæntist Maurer unnustu sinni, Walerie von Faulhaber, en henni skrifaði ferðalangurinn án afláts á meðan á ferðalagi hans um byggðir og óbyggðir eldfjallaeyjunnar stóð. Það er haft til marks um dálæti Maurers á öllu íslenzku, að hann hafði með sér íslenzkan kvenbúning úr Íslandsförinni, sem sagt er að Walerie hafi skartað við brúðkaupið.

NORSKI listmálarinn Knud Bergslien málaði þessa mynd af Konrad Maurer um miðjan áttunda áratug nítjándu aldar, þegar Maurer var um fimmtugt. Málverkið var fært Óslóarháskóla að gjöf árið 1876 og hefur hangið þar síðan. Þess má geta, að bróðir listmálarans var myndhöggvari, sem gerði brjóstmynd af Jóni Sigurðssyni, nánum vini Maurers, sem nú stendur í Alþingishúsinu.

DAGBÓK Maurers, sem hann hafði með sér í Íslandsferðinni 1858. Hún kom fyrst í leitirnar á síðastliðnu hausti. Eins og sjá má, skráði Maurer dagleg afdrif sín með örsmáu letri.

Þrír Maurer-menn

KURT Schier, prófessor í M¨unchen, fann handrit ferðasögu Konrads Maurers fyrir rúmum 20 árum og dagbók hans úr Íslandsförinni á síðastliðnu hausti. Jóhann J. Ólafsson, stórkaupmaður í Reykjavík, hefur unnið ötullega að undirbúningi útgáfunnar hérlendis, og Baldur Hafstað, málfræðingur, hefur þýtt alla söguna.

Ýmis verk Maurers fundust fyrst haustið 1996

Handrit ferðasögunnar um 800 vélritaðar blaðsíður

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.