Íslensk heimildarmynd um Spænsku veikina í smíðum Fylgst með Svalbarða ELÍN Hirst fréttamaður er byrjuð að vinna að handriti að um fimmtíu mínútna langri heimildarmynd um Spænsku veikina, skæða inflúensu sem herjaði á Íslendinga í þremur bylgjum frá árinu...

Íslensk heimildarmynd um Spænsku veikina í smíðum Fylgst með Svalbarða

ELÍN Hirst fréttamaður er byrjuð að vinna að handriti að um fimmtíu mínútna langri heimildarmynd um Spænsku veikina, skæða inflúensu sem herjaði á Íslendinga í þremur bylgjum frá árinu 1918 til 1919 og dró um 200 til 300 manns til dauða í Reykjavík. En talið er að inflúensan hafi borist til Norður-Evrópu frá Spáni.

Jafnframt því að segja frá áhrifum þessa faraldurs hér á landi hyggst Elín fylgjast með og segja frá rannsókn kanadískra vísindamanna sem hafa fengið leyfi norskra stjórnvalda til að opna grafir sjö manna á Svalbarða sem dóu úr Spænsku veikinni árið 1920. En eins og kom fram í frétt Morgunblaðsins í gær er vonast til að hægt verði að finna vírusinn sem olli Spænsku veikinni í líkum sjömenninganna.

Auk þess mun Elín flétta aðra viðburðaríka atburði ársins 1918 saman við frásögnina um Spænsku veikina, en það ár var með eindæmum erfitt, til dæmis miklar frosthörkur og Kötlugos. "Þá var seinni heimsstyrjöldin á enda og fullveldisdagurinn haldinn hátíðlegur þann 1. desember," segir hún og bætir því við að óhjákvæmilega hafi þessir atburðir áhrif á umfjöllunina um þennan skæða faraldur.

Að sögn Elínar mun heimildarmyndin að mestu verða byggð á sögulegum staðreyndum og viðtölum við menn sem upplifðu Spænsku veikina og lýsir hún hér með eftir því fólki sem hafi annaðhvort fengið veikina og/eða verið á heimili þar sem hún geisaði.

Elín hefur nýlokið gerð annarrar heimildarmyndar um fangana á Mön og mun hún verða sýnd í Ríkissjónvarpinu föstudaginn langa, 28. mars nk.