Árni Benediktsson: Athugasemd við grein Geirs Magnússonar MORGUNBLAÐINU barst í gær eftirfarandi athugasemd Árna Benediktssonar, framkvæmdastjóra Félags Sambandsfiskframleiðenda, vegna viðtals við Geir Magnússon, fyrrum aðstoðarframkvæmdastjóra Iceland...

Árni Benediktsson: Athugasemd við grein Geirs Magnússonar

MORGUNBLAÐINU barst í gær eftirfarandi athugasemd Árna Benediktssonar, framkvæmdastjóra Félags Sambandsfiskframleiðenda, vegna viðtals við Geir Magnússon, fyrrum aðstoðarframkvæmdastjóra Iceland Seafood Corporation, sem birtist í blaðinu í gær:

Ég get ekki látið hjá líða að gera athugasemd við "viðtal" Geirs Magnússonar fyrrv. aðstoðarframkvæmdastjóra Iceland Seafood Corporation í Morgunblaðinu í dag, miðvikudaginn 17. maí. Ég geri ekki athugasemd við skoðanir hans. Þær eru hans mál. Hins vegar er þannig sagt frá atburðum að ekki verður hjá því komist að gera athugasemd.

1. "Ástæða brottrekstrar okkar er eins konar erfðastríð. Guðjón vildi að sonur sinn tæki við fyrirtækinu," segir Geir. Þetta er að sjálfsögðu alrangt. Það kom aldrei til tals að sonur Guðjóns B. Ólafssonar tæki við Iceland Seafood Corporation. Geir gerir í grein sinni mikið úr einræðistilhneigingum Guðjóns og hvernig hann hafi leikið með menn. Væri eitthvað hæft í því hefði honum væntanlega ekki orðið skotaskuld úr því að láta son sinn taka við fyrirtækinu. Þannig rekst nú margt hvað á annars horn.

2. "Það fóru mikil verðmæti í súginn vegna tilraunar til smásölu, sem sonur Guðjóns, Guðjón Jens Ólafsson, fékk að gera. Sú tilraun varð mér einnig að falli, því að ég gagnrýndi hana," segir Geir. Hann segir ennfremur: "Þessi tilraun til framleiðslu í smásölupakkningar hefði vafalaust aldrei verið gerð, hefði hún ekki verið hugarfóstur sonar Guðjóns."

Markaðsstarf er þannig að jafnan þarf að huga að nýjum leiðum til þess að daga ekki uppi á síbreytilegum markaði. Miklu fé hefur jafnan verið varið til þess að fylgjast með markaðnum og til þess að vera viðbúinn breytingum á honum. Þetta er nauðsynlegt að gera. Sumar mark aðstilraunir skila árangri, aðrar ekki. Þannig hefur það verið og þannig verður það vafalaust. Í einu tilliti greinist bandarískur fiskmarkaður í tvennt, annars vegar í stofnana markað, hins vegar smásölumarkað. Fram að þessu hefur stofnanamark aðurinn yfirleitt verið okkur Íslendingum hagstæðari, enda höfum við kosið að vinna á þeim vettvangi. Það breytir ekki því að nauðsynlegt hefur verið að fylgjast með smásölumarkaðnum, því að svo kann að fara að hann verði hagstæðari. Umræður og athuganir á smásölumarkaðnum hafa því staðið yfir með hléum að minnsta kosti í aldarfjórðung. Það er því ekki nýtt að fylgst sé með smásölumarkaðnum. Um þetta hefur verið full samstaða framleiðenda hér heima og sölufyrirtækjanna erlendis og raunar stöðug hvatning héðan að heiman. Slíkar athuganir hafa nú leitt til hagstæðrar sölu smásölupakkninga til Marks