Gatnagerðaráætlun samþykkt: Rúmar 60 milljónir til gatnagerðar Fyrsta hringtorgið gert í sumar GATNAGERÐARÁÆTLUN fyrir árið 1989 var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Akureyrar á þriðjudag.

Gatnagerðaráætlun samþykkt: Rúmar 60 milljónir til gatnagerðar Fyrsta hringtorgið gert í sumar

GATNAGERÐARÁÆTLUN fyrir árið 1989 var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Akureyrar á þriðjudag. Samtals er áætlað að verja 42 milljónum króna til ný- og endurbyggingar gatna, malbikunar, gangstéttagerð ar og ýmissa annarra verka. Til viðhalds verður varið 19,5 milljónum króna.

Guðmundur Guðlaugsson yfirverkfræðingur hjá Akureyrarbæ sagði að í sumar yrði stærsta verkefnið varðandi endurbyggingu gerð bílastæða austan Skipagötu og gerður yrði stígur með hitalögnum frá göngugötu og að Skipagötu. Nýbyggingar gatna verða í Búðarfjöru, á Norðurtanga, sem er á hafnarsvæðinu, og verða ýmsar götur í Síðuhverfi teknar fyrir.

Í malbikun gatna er gert ráð fyrir 12 milljónum króna, en m.a. verður malbikað á Vestursíðu, það sem eftir er af Múlasíðu og Þórunnarstræti frá Mímisbraut og suður að kirkjugarði. Lokið verður við gerð gangstétta í Hlíðarhverfi, einnig verður unnið við gangstéttir í Gerðahverfi II og göngustíg eftir Hlíðarbrautinni. Til gangstéttagerðar verður varið 10,6 milljónum króna og til ýmissa verka 5,5 milljónum, en þar er stærsti liðurinn gerð göngubrúar yfir Glerá í framhaldi af göngustíg við Hlíðarbraut. Brúin verður 16 metra löng og þriggja metra breið.

Fyrsta hringtorgið á Akureyri verður gert í sumar og sagði Guðmundur að hafist yrði handa viðgerð þess um leið og sumarfólkið yrði komið til starfa og vetur sleppti tökunum. Hringtorgið verður á mótum Hörgárbrautar og Undirhlíðar. Kostnaður við gerð hringtorgsins er áætlaður 5,4 milljónir króna. Guðmundur sagði í athugun hvort annað hringtorg yrði gert í bænum, en það yrði þá á mótum Súluvegar og Hlíðarbrautar.