Samherji hf.: Nýsmíðamálið loks í höfn FISKVEIÐISJÓÐUR samþykkti á fundi sínum í fyrradag lánveitingu til handa Samherja hf. á Akureyri vegna smíði á nýjum togara fyrir fyrirtækið.

Samherji hf.: Nýsmíðamálið loks í höfn

FISKVEIÐISJÓÐUR samþykkti á fundi sínum í fyrradag lánveitingu til handa Samherja hf. á Akureyri vegna smíði á nýjum togara fyrir fyrirtækið. Skipið verður smíðað í Vigo á Spáni, það verður um 60 metra langt eða svipað að stærð og Akureyrin.

Samherjamenn hafa lengi beðið samþykkis Fiskveiðasjóðs vegna nýsmíðinnar, en málið er nú loks í höfn. Að samþykki sjóðsins fengnu eru önnur mál er þessu tengjast einnig komin á hreint, eins og úthlutun veiðileyfis fyrir togarann. Þorsteinn Már Baldvinsson framkvæmdastjóri Samherja sagði að skipið yrði byggt sem frystiskip og reiknað væri með að smíðin taki um eitt og hálft ár. Skipið ætti að koma fullbúið til Akureyrar í byrjun árs 1991.

Tvö skipa Samherja hf. Þorsteinn EA og Már EA, áður Þorlákur Helgi, verða sett í úreldingu frá þeim tíma er nýja skipið verður komið í rekstur.

Þorsteinn Már sagði að kostnaður vegna nýsmíðinnar væri í kringum 400 milljónir og á næstunni yrði farið að huga að fjármögnun vegna kaupanna.

Samherji hf. keypti fyrir skömmu Álftafellið SU, sem nú heitir Hjalteyrin og er von á því úr slipp fljótlega.