Strandapósturinn Bókmenntir Erlendur Jónsson STRANDAPÓSTURINN. XXII. 140 bls. Útg. Átthagaf. Strandamanna. 1988. Strandapósturinn hefst á ljóði eftir Ingólf Jónsson frá Prestsbakka sem hann nefnir Heim.

Strandapósturinn Bókmenntir Erlendur Jónsson

STRANDAPÓSTURINN. XXII. 140 bls. Útg. Átthagaf. Strandamanna. 1988.

Strandapósturinn hefst á ljóði eftir Ingólf Jónsson frá Prestsbakka sem hann nefnir Heim. Það má vera lýsandi fyrir ritið og félagið sem að baki því stendur. Átthagafélag er samtök brottfluttra sem hugsa heim. Og fáar sýslur munu hafa orðið að sjá á bak fleirum en Strandasýsla. Íbúar eru þar um ellefu hundruð og fer fækkandi ef eitthvað er. Ef til vill eru brottfluttir litlu færri, flestir líkast til búsettir í Reykjavík og nágrenni.

Að venju er í riti þessu blandað efni: kveðskapur og fróðleikur af ýmsu tagi. Höfundar eru fólk á efra aldri. Og bernskuminningar setja svip á ritið. Meðal þeirra sem hverfa þannig aftur til liðnu áranna er Böðvar Guðlaugsson. Hann hefur sent frá sér ljóðabækur og er skáld gott þó nafni hans hafi sjaldan verið á loft haldið; kannski vegna þessað hann er góður hagyrðingur, en hagmælska telst ekki sem fyrrum nauðsynlegur undanfari skáldskapar, jafnvel þvert á móti! Skopkvæði Böðvars eru sum bæði beinskeitt og gagnorð. Bernskuminningar frá Kolbeinsá heitir þáttur Böðvars; stuttur; mætti vera lengri; gæti verið inngangur að lengri frásögn.

Þorsteinn Matthíasson, sem kunnur er af bókum sínum og útvarpserindum, segir í þættinum Hann er góður greyið, ég gef honum fjóra, frá því hvernig það atvikaðist að hann gerðist kennari. Markverð er sú saga fyrir ýmissa hluta sakir. Sveitaskólarnir á fyrstu áratugum aldarinnar eru merkilegur kapítuli í skólasögunni. Fólk vissi að menntunin kostaði sitt en var þá líka reiðubúið að greiða fyrir hana og hvetja unga menn til kennaranáms. Þannig varð það fyrir annarra áeggjan að Þorsteinn gerðist kennari.

Þeir, sem skrifa í Strandapóstinn, munu fæstir hafa stundað ritstörf um ævina. En til er fólk sem virðist svo áskapað að orða hugsun sína í rituðu máli að engu er líkara en það hafi ekki gert annað um ævina. Svo er um Jónu Vigfúsdóttur frá Stóru-Hvalsá sem segir frá sjóróðrum á Hrútafirði í ungdæmi sínu. Sjálfsagt þótti þá að stúlkur réru til fiskjar ef þær höfðu til þess löngun og þor. En Jóna er ekki aðeins að lýsa gömlum atvinnuháttum; hún vekur líka upp andblæ liðna tímans með sinni dulmögnuðu tilfinningu þar sem fólk bætti sér upp fábreytileik hins dagsdaglega með því að gefa ímyndunaraflinu því lausari tauminn.

Því þá var sú tíð ekki liðin er hið dulda blómstraði í vitundinni og brá lit yfir hversdagsleikann sem ella hefði orðið bæði grárri og fábreyttari. Dulræn lífsatvik er fyrirsögn nokkurra stuttra þátta eftir Guðrúnu Jónsdóttur frá Kjós. Guðrún er nýlega látin. Í inngangi segir að lífsleið Guðrúnar hafi verið oft mjög erfið og þyrnum stráð og mun það vera orð að sönnu. Eigi að síður hefur Guðrún verið bæði dreymin og draumspök og þá líka gefið sér tíma til að skrásetja það sem fyrir hana bar og henni þótti í frásögur færandi. Guðrún var hálfsystir þess mæta manns, Símonar Jóh. Ágústssonar.

En þeir Strandapóstsmenn kafa líka lengra aftur í fortíðina. Tómas Einarsson skrifar Um Hallvarð Hallsson frá Horni sem uppi var á seinni hluta 18. aldar, og Guðmundur G. Jónsson hefur sett saman þáttinn Málaferli út af feitmeti en þau drógu slóða til skipsstrands er varð árið 1866. Það var á allra síðustu árum hýðinga og ríkisdala og þótti þá yfirvöldum henta að taka húð fyrir gjald þar eð margur átti smátt af hinu síðar talda. En því horfa fræðimenn gjarnan til sakamála af þessu tagi að um þau eru til skjalfestar heimildir. Yfirheyrslur gefa oft furðuglögga hugmyndum kjör fólks fyrr á tímum; og reyndar lífshætti yfirhöfuð.

Fleira er í þessum Strandapósti. Það, sem hér hefur verið nefnt, má þó gefa glögga hugmynd um efni ritsins, ekki aðeins nú heldur árin í gegnum. Það er í sjálfu sér ærið verk að halda úti slíku riti á þriðja tug ára og láta ekki deigan síga. Margt hvað, sem birst hefur í ritinu, hefur almennt þjóðfræðiog menningarsögugildi fyrir utanað þeir Strandamenn hafa dyggilega haldið í heiðri sögu síns héraðs.

Ingólfur Jónsson frá Prestsbakka.