Kröfum andófsmanna vex ásmegin í Kína: Milljón manns á götum Peking krefst lýðræðis Gorbatsjov hvetur fólk til að sýna þolinmæði og rasa ekki um ráð fram Peking. Reuter. Daily Telegraph.

Kröfum andófsmanna vex ásmegin í Kína: Milljón manns á götum Peking krefst lýðræðis Gorbatsjov hvetur fólk til að sýna þolinmæði og rasa ekki um ráð fram Peking. Reuter. Daily Telegraph.

MILLJÓNIR manna í 20 af 27 héruðum Kína tóku í gær undir kröfur stúdenta um tafarlausar lýðræðisumbætur og afsögn æðstu ráðamanna, þ.á m. Deng Ziaopings, valdamesta manns landsins. Um hann var sagt á kröfuspjaldi "Það er kominn tími til að þú hittir Marx", og á öðru stóð "Kínverska þjóðin hefur risið upp". Lögreglumennsjást varla á götum Peking og miðborgin er í reynd í höndum andófsmanna. Fréttastofan Nýja Kína segir að þrýstingur aukist stöðugt á æðstu ráðamenn um að ræða við stúdenta. Enn sem komið er bendir ekkert til að gripið verði til valdbeitingar og stúdentar segja að stjórnendur setuliðs í nánd við Peking hafi heitið því að beita sér ekki gegn andófsmönnum. Míkhaíl Gorbatsjov Sovétleiðtogi hrósaði í gærstúdentum fyrir vinarþel í garð Sovétríkjanna en gaf jafnframt óbeint í skyn að þeir yrðu að gæta þess að stilla kröfum sínum í hóf.

Atvinnulíf lá að mestu niðri í höfuðborginni Peking þar sem samanlagt milljón manns var á götum úti í gær. 3.000 stúdentar eru enn í hungurverkfalli á Torgi hins himneska friðar. Þeir segjast ekki munu gefast upp fyrr en samþykktur verði viðræðufundur stúdenta og æðstu valdamanna um lýðræðiskröfurnar og honum sjónvarpað um allt landið. Sumir stúdentanna hafa fastað í nokkra daga og nokkrir hafa jafnvel ekki drukkið vatn í sólarhring. Læknar sáust stumra grátandi yfir þeim en einn þeirra sagði þó fréttamönnum að stúdentarnir væru ekki í lífshættu.

Um er að ræða alvarlegustu mótmæli frá því að kommúnistar tóku völdin í Kína fyrir 40 árum en aðgerðirnar í Peking einkennast samt af fögnuði og bjartsýni. Foreldrar taka börn sín með á torgið og lögreglumenn reyna ekki lengur að dreifa fjöldanum. Fólk af öllum stéttum tekur undir kröfur stúdentanna um lýðræðisumbætur og upprætingu spillingar af ýmsu tagi. Í því sambandi er einkum sagt að ráðamenn hygli eigin börnum og ættingjum og aki um í glæsibifreiðum á meðan alþýða manna lepji dauðann úr skel í 30% verðbólgu. Á kröfuspjaldi, sem borið var af starfsmönnum á skrifstofum borgaryfirvalda í Peking, stóð: "Niður með skrifkeraveldið!"

Gorbatsjov Sovétleiðtogi var væntanlegur til Shanghai í gærkvöldi en þar voru einnig fjölmennar mótmælaaðgerðir. Opinberri heimsókn hans lýkur í dag, fimmtudag, en hún hefur að verulegu leyti fallið í skuggann af mótmælunum. Í ræðu sem hann hélt í gær lagði hann til að allt herlið yrði dregið frá sameiginlegum landamærum ríkjanna. Sovéska sjónvarpið hefur sýnt myndir frá heimsókn leiðtogans en engar af andófsmönnunum og ekkert minnst á ókyrrðina í Kína.

Gorbatsjov forðaðist að nefna beinlínis mótmælaaðgerðirnar í Kína en sagðist skilja vel óskir margra Sovétmanna sem vildu sjá áþreifanlegan árangur af umbótastefnunni, perestrojku. "Við reynum eins og okkur framast er unnt að hraða umbótum í stjórnkerfi og í málefnum almennings. En við við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að þjóðfélagsbreytingar, rétt eins og þróun í náttúrunni, taka sinn tíma."

Sjá ennfremur frétt á bls. 22: "Þögn Dengs ..."

Reuter

Hundruð þúsunda mótmælenda á Torgi hins himneska friðar í Peking. Verkamenn hafa nú sameinast stúdentum er krefjast lýðræðisumbóta í landinu og funda með leiðtogum landsins. Talið er að valdaskeið Deng Xiaopings, sem verið hefur helsti valdamaður landsins í áratug, sé nú senn á enda.