Noriega hvikar ekki Washington, París. Reuter.

Noriega hvikar ekki Washington, París. Reuter. Stjórnarerindrekar frá Rómönsku-Ameríku sögðust í gær ætla að beita sér fyrir því að Manuel Noriega, æðsti valdamaður Panama, yrði harðlega fordæmdur á skyndifundi Samtaka Ameríkuríkja (OAS), sem hófst í Washington í gær. Noriega hafnaði í gærkvöldi kröfum Bandaríkjamanna um að hann segði af sér.

Julio Londono, utanríkisráðherra Kólumbíu, sagði að fulltrúum Ekvador, Perú, Costa Rica og Jamaíka hefði verið falið að leggja drög að yfirlýsingu ríkja Rómönsku-Ameríku áður en fundurinn hófst. "Þetta verður harðorð fordæming á stjórninni í Panama og Noriega einræðisherra," sagði Londono.

Noriega, sem enga yfirlýsingu hefur gefið frá sér síðan í kosningabaráttunni, rauf þögnina í gær og lýsti því yfir að hann myndi ekki verða við kröfum Bandaríkjamanna um að hann segði af sér. "Við getum ekki fallist á kröfu heimsvalda sinnanna, sem fara þess á leit við Panamamenn að þeir geri uppreisn rétt eins og þeir væru þrælar," sagði Noriega í viðtali, sem sjónvarpað varí Frakklandi.

Reuter