Aldarafmæli Gunnars Gunnarssonar: Árnagarður sýnir handrit að verkum skáldsins Í Árnagarði hefur verið opnuð sýning í tilefni aldarafmælis Gunnars Gunnarssonar skálds, en í dag eru liðin 100 ár frá fæðingu hans.

Aldarafmæli Gunnars Gunnarssonar: Árnagarður sýnir handrit að verkum skáldsins Í Árnagarði hefur verið opnuð sýning í tilefni aldarafmælis Gunnars Gunnarssonar skálds, en í dag eru liðin 100 ár frá fæðingu hans. Á sýningunni eru handrit að verkum Gunnars frá ýmsum tímum ævi hans og útgáfur verkanna á fjölmörgum tungumálum.

Sýningin á þannig að varpa ljósi á vinnubrögð skáldsins og bera vitni um vinsældir hans víðs vegar um heim. Þá hafa ættingjar Gunnars lánað til sýningarinnar myndir af honum og fjölskyldu hans og sitthvað fleira sem tengist ævi hans og störfum. Sérstaklega má nefna úrval myndskreytinga sem sonur hans og alnafni gerði við Aðventu og Fjallkirkjuna, en Gunnar yngri hefði orðið 75 ára í þessum mánuði, ef hann hefði lifað. Einnig er á sýningunni hin nýja ljósprentun, sem bókaforlagið Vaka-Helgafell hefur gert á "sonnettukransi" sem Gunnar orti til Franzisku konu sinnar og skrautritaði sjálfur, en Gunnar yngri myndskreytti.

Eftir lát Gunnars Gunnarssonar 1975 ákvað fjölskylda hans að ráðstafa til Árnastofnunar handritum hans og þorra prentaðra bóka. "Þessi ákvörðun var tekin vegna þeirrar virðingar og kærleika, sem Gunnar bar til stofnunarinnar og þess sem þar er geymt. Árnastofnun vill með sýningunni votta hinu mikla skáldi virðingu sína og þakklæti," segir í frétt frá stofnuninni.

Jónas Kristjánsson, forstöðumaður Árnagarðs, sagði m.a. við opnun sýningarinnar að skipta mætti ávöxtinum af elju skáldsins í tvo meginþætti. Annars vegar hefði hann með verkum sínum og þýðingum stuðlað að merkilegri kynningu á Íslandi erlendis svo og íslenskri menningu, þjóð og sögu. Hins vegar væri listagildi verka Gunnars Gunnarssonar, sem íslensk þjóð ætti eftir að njóta um ókomin ár og sækja til þeirra fróðleik og yndi.

Vegna fyrirhugaðrar handrita sýningar í Árnagarði í sumar er aðeins unnt að hafa Gunnarssýn inguna opna í fáeina daga. Hún verður opin daglega frá kl. 13.00 til 20.00 fram til næsta sunnudags, 21. maí.

Morgunblaðið/Árni Sæberg

Jónas Kristjánsson, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar, opnaði sýninguna í gær.