Opinber heimsókn sænska forsætisráðherrans: Náttúrufegurð Þingvalla heillaði gestina ÞINGVELLIR skörtuðu sínu fegursta þegar sænsku forsætisráðherrahjónin, Ingvar og Ingrid Carlsson, komu þangað í gærmorgun. Sr.

Opinber heimsókn sænska forsætisráðherrans: Náttúrufegurð Þingvalla heillaði gestina

ÞINGVELLIR skörtuðu sínu fegursta þegar sænsku forsætisráðherrahjónin, Ingvar og Ingrid Carlsson, komu þangað í gærmorgun. Sr. Heimir Steinsson þjóðgarðsvörður tók á móti gestunum og sagði þeim sögu Þingvalla og fræddi þá um jarðfræði og önnur sérkenni svæðisins. Gestirnir hrifust af fegurð hins forna sögustaðar og létu ekki á sig fá þótt nístingskalt væri í lofti, enda veður mjögbjart og kyrrt.

Í fylgd með sænsku forsætisráðherrahjónunum voru Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra og kona hans, Edda Guðmundsdóttir. Steingrímur tók að sér hlutverk leiðsögumannsins þegar komið var við á Nesjavöllum og fræddi hina sænsku gesti um orkuveituna, sem þar er í byggingu.

Að lokinni ferðinni til Þingvalla buðu borgarstjórinn í Reykjavík, Davíð Oddsson og kona hans, Ástríður Thorarensen, til miðdags verðar í Viðeyjarstofu. Sr. Þórir Stephensen staðarhaldari í Viðey sýndi gestunum byggingarnar og sýningu á munum, sem fundist hafa í fornleifagreftri í eynni og komið hefur verið fyrir í kjallara Viðeyjarstofu.

Að lokinni Viðeyjarferinni þágu gestirnir kaffiveitingar í Höfða og að því loknu átti Ingvar Carlsson fund með íslenskum Jafnaðarmönnum.

Í dag heimsækir sænski forsætisráðherrann Höfn í Hornafirði, þar verður meðal annars skoðað frystihús og þegnar veitingar sveitarstjórnar. Ingvar Carlsson og föruneyti hans fara utan til Svíþjóðar síðdegis í dag.

Morgunblaðið/Bjarni

Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra greinir sænskum starfsbróður sínum, Ingvari Carlssyni, frá orkuveitunni á Nesjavöllum. Frá vinstri Ingrid og Ingvar Carlsson, Steingrímur og Edda Guðmundsdóttir. Gufan sem þarna brýst fram er sótt niður á rúmlega tvö þúsund metra dýpi.