Þorsteinn Ingólfsson: "Torsóttara að semja um sérstakt fyrirkomulag" ÞAÐ er mat Þorsteins Ingólfssonar, skrifstofustjóra varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, að það yrði torsóttara og þyngra í vöfum að semja við Bandaríkjamenn um sérstakt...

Þorsteinn Ingólfsson: "Torsóttara að semja um sérstakt fyrirkomulag"

ÞAÐ er mat Þorsteins Ingólfssonar, skrifstofustjóra varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, að það yrði torsóttara og þyngra í vöfum að semja við Bandaríkjamenn um sérstakt fyrirkomulag fyrir framkvæmdir á vegum varnarliðsins hér á landi nú, en hafi verið þegar upphaflegir samningar voru gerðir. Þetta sagði Þorsteinn þegar Morgunblaðið spurði hann hvort það væri ótvírætt, að framkvæmdir á vegum varnarliðsins yrðu boðnar út á opnum markaði í öllum NATOlöndunum ef einkaleyfi Íslenskra aðalverktaka yrði afnumið.

"Það er alveg ljóst að það fyrirkomulag sem hér er á framkvæmdum fyrir varnarliðið er afbrigðilegt og undantekning frá almennum reglum sem gilda um framkvæmdir sem kostaðar eru af Mannvirkjasjóði NATO," sagði Þorsteinn í samtali við Morgunblaðið í gær.

Þorsteinn sagði að stærstu framkvæmdir fyrir varnarliðið væru kostaðar af Mannvirkjasjóðnum. "Hvort hægt er að semja um eitthvað annað fyrirkomulag, það vil ég ekki fullyrða. Mitt mat er það, að það væri torsótt og þyngra í vöfum að semja um sérstakt fyrirkomulag fyrir framkvæmdir á Íslandi í dag, heldur en var þegar upphaflega var samið um þessa hluti," sagði Þorsteinn.

Þorsteinn sagði að vegna þess hversu miklar framkvæmdir hefðu verið hér á landi undanfarin ár væru þær og yrðu alltaf undir smásjá af hagsmunaaðilum í öðrum ríkjum Atlantshafsbandalagsins.