Þorsteinn Pálsson: Útboð nær stefnu NATO en einokun ÞORSTEINN Pálsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segist telja það vera mikinn misskilning að halda því fram að valkostirnir varðandi framkvæmdir á vegum varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli séu aðeins á...

Þorsteinn Pálsson: Útboð nær stefnu NATO en einokun

ÞORSTEINN Pálsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segist telja það vera mikinn misskilning að halda því fram að valkostirnir varðandi framkvæmdir á vegum varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli séu aðeins á milli útboða í öllum NATO-löndunum annars vegar og einokunar á Íslandi hins vegar. "Ætli útboð á Íslandi sé ekki eðlilegurmeðalvegur og nær meginstefnu Mannvirkjasjóðs NATO, en einokun á Íslandi," sagði Þorsteinn í samtali við Morgunblaðið í gær, er hann varspurður hvort hann teldi að að annað hvort yrðu framkvæmdir á vegum Mannvirkjasjóðsins boðnar út í öllum NATO-löndunum, eða að þær væru í höndum eins verktaka á Íslandi. Um þetta atriði var m.a. fjallað í viðtali blaðsins við Thor Ó. Thors, forstjóra Íslenskra aðalverktaka, í gær.

"Mér finnst afar hyggileg og skynsamleg afstaða sem fram kemur í þessu viðtali við forstjóra Íslenskra aðalverktaka, þar sem hann segirað hann líti ekki á það sem hlutverk sitt að gera athugasemdir við það sem forystumenn í þjóðmálum hafa fram að færa í þessum efnum," sagði Þorsteinn.

"Ég hef margsinnis lýst því að mín skoðun er sú, að þessar framkvæmdir eigi að fara fram eins og aðrar framkvæmdir, sem að mestum hluta til fara fram á grundvelli útboða," sagði Þorsteinn. Hann sagði að það væru hvorki viðskiptalegar né siðferðilegar forsendur fyrir þvíað starfsemi verktaka fyrir varnarliðið gæfi meira af sér en vel rekin fyrirtæki hér á landi fengju út úr útboðum. "Fyrirtæki eiga að skila hagnaði, en ef einhver heldur að varnarliðið á Keflavíkurflugvelli sé auðlind, þá hefur viðkomandi ekki mikinn skilning á grundvallarviðhorfum Sjálfstæðisflokksins til varnarmála. Sá hinn sami ætti að koma og kynna sér stefnu Sjálfstæðisflokksins í varnar- og öryggismálum í fjóra áratugi. Hún grundvallast á öryggis- og varnarhagsmunum Íslendinga og skyldum okkar við aðrar lýðræðisþjóðir, og sjálfstæðismönnum hefur aldrei, hvorki fyrr né síðar, komið til hugar að gera varnarmálin að útvegi. Þá værum við ekki að tala um varnir Íslands," sagði Þorsteinn.

"Ég get ekki skilið að það sé erfiðara að fá undanþágu hjá Mannvirkjasjóði NATO, frá meginreglunni um útboð í öllum NATO-löndunum, til þess að hafa útboð á íslenskum verktakamarkaði, en að viðhalda þeirri einokun sem nú er við lýði. Ég er mjög jákvæður fyrir hugmynd Thors Ó. Thors um að breyta Íslenskum aðalverktökum í almenningshlutafélag. Hún er skynsamlegt innlegg í þessa umræðu," sagði Þorsteinn.