Pólland: Sögulegar sættir milli ríkisins og kirkjunnar Varsjá. Reuter. SAMÞYKKT voru á pólska þinginu í gær lög sem heimila í fyrsta sinn frá valdatöku kommúnista árið 1944 starfsemi rómversk-kaþólsku kirkjunnar í Póllandi.

Pólland: Sögulegar sættir milli ríkisins og kirkjunnar Varsjá. Reuter.

SAMÞYKKT voru á pólska þinginu í gær lög sem heimila í fyrsta sinn frá valdatöku kommúnista árið 1944 starfsemi rómversk-kaþólsku kirkjunnar í Póllandi. Þar með hafa pólsk stjórnvöld fyrst austur-evrópskra ríkisstjórna komið á formlegum sáttum við kaþólsku kirkjuna. Allt bendir til þess að Pólland verði innan fárra mánaða fyrstaAustantjalds ríkið sem sem tekur upp fullt stjórnmálasamband við Páfagarð.

Wojciech Jaruzelski, leiðtogi pólska kommúnistaflokksins, var einn hinna 306 þingfulltrúa sem greiddu atkvæði með lagasetningunni en 12 þingfulltrúar greiddu atkvæði gegn henni. Á þinginu voru jafnframt samþykkt tvenn önnur lög sem snerta pólsku kirkjuna. Annarsvegar lög um trúfrelsi og hins vegar lög um að pólskir prestar, sem taldir eru vera hátt í 65.000 talsins, hafi jafnan aðgang á við aðra borgara að félagslegum stofnunum ríkisins.

Ríkið og kirkjan lögðu blessun sína yfir lögin skömmu eftir að ríkisstjórnin og stjórnarandstaðan undirrituðu umbótasáttmála 5. apríl síðastliðinn, sem er liður í þjóðarsátt og lýðræðisviðleitni í Póllandi.

Í nýju lögunum er kveðið á um rétt kirkjunnar til að stofna og reka kaþólska skóla, byggja kirkjur og halda uppi kristnifræðikennslu. Í lögunum er einnig kveðið á um að eignum kirkjunnar verði skilað, þar á meðal byggingum, sjúkrahúsum og jörðum, sem ríkið sló eign sinni á eftir valdatöku kommúnista.

Þá er kirkjunni heimilt að sjónvarpa og útvarpa sunnudagsguð þjónustum, stofna sjónvarps- og útvarpsstöðvar og gefa út bækur og dagblöð.

Reuter

Wojciech Jaruzelski, leiðtogi pólska kommúnistaflokksins greiðir atkvæði með lögleiðingu rómversk-kaþólsku kirkjunnar í Póllandi á þinginu í gær.