Þögn Dengs gerist æ háværari Peking. Reuter. FRÉTTASKÝRENDUR eru sammála um að kínversk stjórnvöld geti ekki setið aðgerðarlaus öllu lengur og horft á stúdentaóeirðirnar magnast.

Þögn Dengs gerist æ háværari Peking. Reuter.

FRÉTTASKÝRENDUR eru sammála um að kínversk stjórnvöld geti ekki setið aðgerðarlaus öllu lengur og horft á stúdentaóeirðirnar magnast. Annað hvort þurfa valdhafar að koma til móts við kröfur námsmanna eða beita valdi eigi mótmælin ekki að breytast í þjóðaruppreisn. Stúdentar krefjast lýðræðis og frelsis og njótavaxandi stuðnings almennings og fjölmiðla. Þeir setja einnig kröfuna um opinskáar viðræður við yfirvöld á oddinn. Andspænis henni er þögn Dengs Xiaopings, hins 84 ára gamla leiðtoga Kína, þrúgandi og vekur spurningar um stöðu hans og heilsu. Deng er enn opinber leiðtogi Kína en hefur ekkert embætti með höndum nema formennsku í hermálanefnd kommúnistaflokksins.

Ritsjóri Kínverska dagblaðsins hefur brotið af sér hlekki ritskoðunar að undanförnu í krafti stúden tauppreisnarinnar og tekið afstöðu með námsmönnum. Í gær reyndi hann að ráða í fund sem Míkhaíl Gorbatsjov, Sovétleiðtogi, átti með Zhao Ziyang, formanni kommúnistaflokksins og helsta umbóta sinnanum meðal valdhafa í Kína. Í viðræðunum skýrði Ziyang hver væri staða Dengs en menn hafa velt henni fyrir sér að undanförnu vegna þess að ekkert hefur heyrst frá leiðtoganum. Ziyang á að hafa sagt að fyrir tveimur árum hefði forysta flokksins ákveðið að ráðfæra sig við Deng um öll meiriháttar mál og var þessu slegið uppí blaðinu með fyrirsögninni: "Deng enn stýrimaður þjóðarinnar!". Rit sjórinn taldi búa undir orðum Ziyangs að ábyrgðin á ástandinu í landinu lægi á herðum Dengs.

Deng hefur ekki tjáð sig opinberlega um óeirðirnar síðan þær hófust, það hefur komið í hlut Ziyangs að reyna að sefa námsmenn ýmist með hótunum eða blíðmælum. Hins vegar er talið nokkuð víst að harkaleg yfirlýsing kommúnistaflokksins frá 26. apríl sérunnin undan rifjum Dengs. Hún olli stúdentum mikilli bræði og kynti undir mótmælin.

Ziyang, sem er 69 ára gamall, hefur árangurslaust reynt að vinna pólitískum umbótum fylgi á æðstu valdastöðum. Í gær gekk hann lengra en nokkru sinni fyrr í tilboði sem hann gerði námsmönnum. Þar hét flokksformaðurinn því að námsmenn í mótmælasvelti yrðu ekki teknir til bæna ef þeir hættu aðgerðunum, flokkurinn myndi móta raunhæfar aðgerðir til að renna stoðum undir lýðræði og þegnréttindi og vinna á spillingu. Endurbætt landsstjórn yrði reist á heiðarleika og óflekkaðri fortíð og myndi hún hlúa að opinskárri umræðu í þjóðfélaginu.

Námsmenn höfnuðu þessu tilboði með þeim orðum að þar væri t.d. ekki að finna svar við kröfu þeirra um viðræður sem sjónvarpað yrði beint. Auk þess væri yfirlýsingin frá 26. apríl ekki dregin tilbaka. Af slagorðum á mótmælaspjöldum á Torgi hins himneska friðar má ráða að leiðtogar flokksins séu búnir að missa allt traust almennings. Í fyrstu beindust spjótin einkum að Deng en nú er enginn málsmetandi ráðamaður undanskilinn gagnrýni. Úr því sem komið er virðist sem róttækar mannabreytingar í forystu kommúnistaflokksins og áþreifanleg loforð um umbætur séu eina leiðin til að stöðva mótmælin með friðsamlegum hætti.

Reuter

Deng Xiaoping fær það óþvegið á mótmælaspjöldum námsmanna á Torgi hins himneska friðar. Á spjaldinu vinstra megin er vitnað í geymd en ekki gleymd ummæli Dengs þegar hann sagði að gamla kynslóðin ætti að víkja. Hægra megin má sjá almenning sem bókstaflega þyrstir í lýðræði.