Hlutafjársjóður: Hlutdeildarbréf boðin til greiðslu á skuldum Fiskveiðasjóður metur stöðu hvers fyrirtækis fyrir sig STJÓRN Hlutafjársjóðs hefur beint því til þeirra sjóða og lánastofnana, sem eru helztu lánardrottnar fyrirtækja í sjávarútvegi, að þeir...

Hlutafjársjóður: Hlutdeildarbréf boðin til greiðslu á skuldum Fiskveiðasjóður metur stöðu hvers fyrirtækis fyrir sig

STJÓRN Hlutafjársjóðs hefur beint því til þeirra sjóða og lánastofnana, sem eru helztu lánardrottnar fyrirtækja í sjávarútvegi, að þeir taki svokölluð hlutdeildarbréf (skuldabréf) sem greiðslu á skuldum þeirra fyrirtækja, sem Hlutafjársjóður tekur til. Ákveðin svör hafa ekki borizt sjóðsstjórninni, en líklegt er að lánardrottnarnir meti stöðu hvers fyrirtækis fyrir sig og fari fram á viðunandi tryggingu að baki hlutdeildarbréfanna.

Hlutafjársjóður hefur enn ekki tekið ákvörðun um hvort hann taki þátt í fjárhagslegri endurskipulagningu þeirra fyrirtækja, sem um það hafa sótt, en þau eru 20, flest úr sjávarútvegi.

Sjóðurinn mun starfa þannig, að hann gefur út svokölluð hlutdeildarbréf til greiðslu ákveðins hluta skulda viðkomandi fyrirtækja hjá helztu lánardrottnunum, en fær á móti hlutabréf í fyrirtækjunum.

Hlutdeildarbréfin eru með tvennum hætti, a- og b-bréf og njóta a-bréfin ríkisábyrgðar. Sjóðnum er ætlað að taka til þeirra fyrirtækja, sem verst eru sett og fengu ekki afgreiðslu hjá Atvinnutryggingasjóði útflutningsgreina.

Már Elísson, forstjóri Fiskveiðasjóðs, sagði í samtali við Morgunblaðið, að stjórn sjóðsins hefði ákveðið að ræða við stjórn Hlutafjársjóðs, en án allra skuldbindinga.

Stjórnin vildi skoða hvert fyrirtæki fyrir sig og meta stöðu þess áður en ákveðið væri hvort hlut deildarbréfin yrðu tekin sem greiðsla á skuldum og yrði það þannig metið hverju sinni út frá hagsmunum Fiskveiðasjóðs.

"Við munum ekki taka við neinum skuldabréfum nema þau séu vandlega tryggð og veð verði ekki síðri en við höfum að jafnaði," sagði Már Elísson.