Næturfundur hjá BHMR og ríkinu: Vonir bundnar við að samningar takist í þessari lotu Framhaldsskólanemar neita að sækja próf í sumar VIÐRÆÐUR Bandalags háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna og stjórnvalda um nýjan kjarasamning voru í fullum gangi á miðnætti í...

Næturfundur hjá BHMR og ríkinu: Vonir bundnar við að samningar takist í þessari lotu Framhaldsskólanemar neita að sækja próf í sumar

VIÐRÆÐUR Bandalags háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna og stjórnvalda um nýjan kjarasamning voru í fullum gangi á miðnætti í nótt. Reiknað var með aðekki yrði staðið upp frá samningaborðinu fyrr en niðurstaða væri fengin. Fáein atriði en mikilvæg voru ófrágengin og brugðið gat til beggja vona, þó aðilar ættu síður von á því.

Viðræðurnar seinnipartinn í gær og í gærkvöldi snerust meðal annars um að skýra frekar ákvæði um endurskoðun á launakerfi háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna sem hefði að markmiði að samræma kjör þeirra kjörum háskólamanna á almennum markaði, þar sem segir að þess skuli gætt að umræddar breytingar valdi ekki röskun á hinu almenna launakerfi í landinu. Þá vildu háskólamenn að samningurinn yrði uppsegjanlegur haustið 1990 í stað 1. júlí 1991 eða að öðrum kosti að endurskoðunarákvæðið í samningnum yrði gert afdráttarlausara. Þá var ófrágengið hvernig gengið yrði frá greiðslum fyrir vinnu og bakvaktir í verkfalli, en rætt um eingreiðslu í því sambandi. Einnig var ófrágengið hvernig staðið yrði að skólalokum og sérstakur viðræðuhópur skipaður fulltrúum HÍK, menntamálaráðuneytisins og skólameisturum fjallaði um það. Kennarar gera kröfu umað ekki verði slakað á faglegum kröfum við útskrift nemenda og að yfirvinna verði greidd fyrir frágang skólaársins. Talið var að erfitt gæti orðið að finna lausn á þessu máli, en fulltrúar nemenda afhentu í gær deiluaðilum harðort bréf, þar sem segir að kennsla yfir sumarmánuðina þýði aðeins hærri laun handa kennurum en lægri handa nemendum. Nemendur krefjast þess að allar hugmyndir um frekari skólasetu þeirra verði að engu gerðar og að kennarar veiti þeim umbun erfiðis síns á þeim forsendum, sem þegar liggja fyrir, eins og það er orðað.

"Ég held að það sé margt sem bendir til þess að úr þessu gæti orðið samningur. Það eru eitt eða tvö atriði sem eftir er að ganga frá og ekki hefur verið komist að efnislegu samkomulagi um," sagði Wincie Jóhannsdóttir, formaður Hins íslenska kennarafélags og varaformaður BHMR skömmu fyrir miðnættið í nótt. Hún sagði að ekki yrði hægt að ræða um framkvæmd skólaloka í hverjum skóla fyrir sig, fyrr en ákvörðun um frestun verkfalls hefði verið tekin. Skólameistarar ætla að boða til kennarafunda strax í dag, ef verkfallið leysist. Í framhaldi af þeim fundum munu þeir ræða við nemendur. Að sögn Þóris Auðólfs sonar, eins af fulltrúum nemenda, kemur ekki til greina af margra hálfu að sitja í skóla framyfir mánaðamót, þar sem flestir hafi ráðið sig í vinnu og í mörgum skólum séu útskriftarnemar á leið í löngu undirbúnar utanlandsferðir á allra næstu dögum.

"Mér finnst endastöðin vera að nálgast. Þetta er að vísu búin að vera mjög löng lota og flókin vinna frá því snemma í morgun," sagði Ólafur Ragnar Grímsson, fjármálaráðherra, skömmu fyrir miðnættið. Hann sagði að sá tímapunktur væri að nálgast að menn þyrftu að hrökkva eða stökkva. Hann gæti ekki fullyrt hvort samningar tækjust eða ekki. Sér hefði fundist vinnan ganga eðlilega fyrir sig og hannværi sannfærður um að hjá miklum fjölda aðildarfélaga BHMR væri mikill áhugi á að ljúka þessu, en kannski væri það eitthvað mismunandi.