Stjórn Sambandsins: Hlutafé í Álafossi aukið um 90 milljónir króna Tap SÍS á fyrsta ársfjórðungi minna en í fyrra STJÓRN Sambands íslenzkra samvinnufélaga ákvað á fundi sínum á þriðjudag að auka hlutafé Sambandsins í Álafossi um 90 milljónir króna.

Stjórn Sambandsins: Hlutafé í Álafossi aukið um 90 milljónir króna Tap SÍS á fyrsta ársfjórðungi minna en í fyrra

STJÓRN Sambands íslenzkra samvinnufélaga ákvað á fundi sínum á þriðjudag að auka hlutafé Sambandsins í Álafossi um 90 milljónir króna. Að sögn Ólafs Sverrissonar, stjórnarformanns SÍS, voru stjórnarmenn ekki ánægðir yfir því að þurfa að auka hlutafé á sama tíma og Sambandið þyrfti að selja eignir, en það hefði verið gert að skilyrði fyrir lánafyrirgreiðslu við Álafoss að Sambandið ætti áfram helming í fyrirtækinu á móti Framkvæmdasjóði. Sambandið hefði því orðið að auka við hlut sinn, ella hefði fyrirtækið lent uppi á skeri. Framkvæmdasjóður leggur til aðrar 90 milljónir í hlutafé.

Umfangsmikil endurskipulagning hefur farið fram að undanförnu á fjárhag Álafoss. Fyrirtækið hefur staðið í samningum við banka og sjóði um skuldbreytingar og lánafyrirgreiðslu svo nemur hundruðum milljóna. Sala á eignum og hagræðing í rekstri er einnig í gangi, og stefnt hefur verið að því að minnka skuldir fyrirtækisins í 1.100 milljónir króna. Álafoss hefur meðal annars fengið vilyrði fyrir 200 milljóna skuld breytingaláni úr Atvinnutryggingasjóði og sótt um 100 milljónir til Hlutafjársjóðs.

"Það er búið að skrapa saman fjármuni upp á mörg hundruð milljónir til að bæta hag fyrirtækisins og við erum heldur bjartsýnir um að salan sé á uppleið," sagði Ólafur Sverrisson í samtali við Morgunblaðið. "Við höfum vonum viðbótarsamning við Rússa og okkur gengur betur á vestrænum mörkuðum en undanfarna mánuði. Með hóflegri bjartsýni vonum við að þetta hafist."

Ólafur sagði að á stjórnarfundi SÍS hefði Guðjón B. Ólafsson forstjóri lagt fram skrifleg svör við bréfi Ólafs frá fyrra mánuði, þarsem Guðjón var krafinn nákvæmra svara um það, hvernig hann hygðist rétta af rekstur Sambandsins. "Sum svörin voru góð, og önnur lakari. Stjórnarmenn fengu þau í hendur ásamt bréfi mínu og hafa þá tímann fyrir sér að setja sig betur inn í málin en ella hefði verið," sagði Ólafur. Hann vildi hins vegar ekki gefa upp efni svaranna.

Ólafur sagði að stjórnarmenn hefðu farið ofan í rekstrarreikning SÍS og rætt um ástand og horfur, en sú umræða héldi áfram á næsta stjórnarfundi um mánaðamótin. Hvað afkomu SÍS á fyrsta fjórðungi þessa árs varðaði sagði Ólafur að hún væri skárri en á sama tíma í fyrra. Tap væri enn á rekstrinum, en væri líklega um þriðjungur af því, sem verið hefði í fyrra.