1.800 atvinnulausir í apríl 39 þúsund atvinnuleysisdagar voru skráðir á landinu öllu í aprílmánuði síðastliðnum, 21 þúsund hjá konum og 18 þúsund hjá körlum. Atvinnuleysisdögum hefur fækkað um 15 þúsund frá mánuðinum á undan, eða um 27%.

1.800 atvinnulausir í apríl

39 þúsund atvinnuleysisdagar voru skráðir á landinu öllu í aprílmánuði síðastliðnum, 21 þúsund hjá konum og 18 þúsund hjá körlum. Atvinnuleysisdögum hefur fækkað um 15 þúsund frá mánuðinum á undan, eða um 27%. Þetta samsvarar því að 1.800 manns hafi að meðaltali verið á atvinnuleysisskrá í mánuðinum, eða sem svarar til 1,4% af mannafla. Þetta kemur fram í frétt frá Vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins.

Í fréttinni segir, að enda þótt atvinnuleysisdögum hafi fækkað frá mánuðinum á undan, sé ástandið mun verra en í aprílmánuði undanfarin ár. Meðaltal skráðra atvinnuleysisdaga undanfarin þrjú ár, í aprílmánuði, var 15 þúsund dagar, eða 0,5% af mannafla, en 18 þúsund dagar, eða 0,7% af mannafla, síðustu fimm ár.

Sá bati sem nú hefur átt sér stað varð að þremur fjórðu hlutum utan höfuðborgarsvæðisins og gætir þar einkum áhrifa frá aflasælli vertíð. Á sama tíma gætti samdráttar í þjónustugreinum á höfuðborgarsvæðinu. Í fréttinni kemur fram að hjá Ráðningarskrifstofu Reykjavíkurborgar eru umsækjendur um sumarvinnu, það er skólafólk, nú þrefalt fleiri en á sama tíma í fyrra og hjá Vinnumiðlun námsmanna eru fimm umsækjendur um hvert starf sem í boði er. Þá er óvissa um sumarvinnu skólafólks víða annars staðar á landinu.