Hæstiréttur: Frávísunarúrskurður felldur úr gildi HÆSTIRÉTTUR hefur fellt úr gildi frávísunarúrskurð borgardóms Reykjavíkur í máli Jafnréttisráðs, fyrir hönd Helgu Kress, gegn menntamálaráðherra og fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs.

Hæstiréttur: Frávísunarúrskurður felldur úr gildi

HÆSTIRÉTTUR hefur fellt úr gildi frávísunarúrskurð borgardóms Reykjavíkur í máli Jafnréttisráðs, fyrir hönd Helgu Kress, gegn menntamálaráðherra og fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs. Þarmeð er borgardómara gert að taka afstöðu til þess hvort menntamálaráðherra hafi brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna með því að veita Matthíasi Viðari Sæmundssyni stöðu lektors við heimspekideild í desember 1985.

Af sex umsækjendum um stöðuna voru Matthías Viðar og Helga talin hæfust en dómnefnd mælti með Helgu, sem hefði víðtækari reynslu. Hún fékk einnig flest atkvæði á deildarfundi og taldi, þegar ráðherra skipaði Matthías í stöðuna, rétt sinn samkvæmt fyrrgreindum lögum brotinn. Jafnréttisráð stefndi ráðherrum fyrir dóm fyrir hönd Helgu en borgardómari vísaði málinu frá og taldi galla á málatilbúnaði. Hæstaréttardómararnir Þór Vilhjálmsson, Bjarni K. Bjarnason og Arnljótur Björnsson, settur dómari, töldu hins vegar að dómkröfur Jafnréttisráðs hafi rúmast innan málshöfðunarheimildar laga um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna og felldu fráví sunarúrskurðinn úr gildi.