EB-markaður Viljum hafa áhrif á þróunina í Evrópu ­ segir Jón Sigurðsson, formaður norrænu ráðherranefndarinnar RÆTT var um starfsáætlun ráðherranefndar Norðurlandaráðs vegna aðlögunar Norðurlanda að þróuninni í Evrópu á fundi samstarfsráðherra...

EB-markaður Viljum hafa áhrif á þróunina í Evrópu ­ segir Jón Sigurðsson, formaður norrænu ráðherranefndarinnar

RÆTT var um starfsáætlun ráðherranefndar Norðurlandaráðs vegna aðlögunar Norðurlanda að þróuninni í Evrópu á fundi samstarfsráðherra Norðurlanda, sem fram fór í Viðey í síðustu viku . Einkum var fjallað um þrjú svið; umhverfisvernd, vinnuvernd og neytendavernd, en á þeim sviðum hafa Norðurlönd víða gengið lengra og sett strangari reglur en flest aðildarríki EB.

Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, stýrði fundinum í Viðey, en hann er samstarfsráðherra Norðurlanda á Íslandi og formaður norrænu ráðherranefndarinnar. Í samtali við Morgunblaðið um niðurstöður fundarins sagði Jón að á vettvangi EB færi fram mikil samræmingarvinna í neytendavernd, umhverfisvernd og vinnuvernd í undirbúningi fyrir stofnun sameiginlegs markaðar EB-landa 1992. Norðurlönd tækju þegar þáttí evrópsku samstarfi um þessi mál í svokölluðum staðlastofnunum, sem starfa að samræmingu staðla og reglna í ýmsum málum.

"Það er meiningin að stilla saman stefnu landanna í þessum málum, með það fyrir huga að hafa áhrif á þróunina í Evrópu en ekki bara að taka því sem þar gerist," sagði Jón. "Þetta eru þau svið, sem þar eru valin, vegna þess að Norðurlöndin standa framarlega á þeim."

Jón sagði að á fundi ráðherranna hefði verið fjallað um aðra þætti Norðurlandasamstarfsins, sem sneru að Evrópubandalaginu, en væru þegar til umfjöllunar, til að mynda afnám viðskiptaþvingana milli Norðurlandanna. Við undirbúning Efnahagsáætlun Norðurlanda 1989-1992 gerði ríkisstjórn Íslands sérstakan fyrirvara um frjálst fjármagnsflæði milli landa vegna sérstöðu íslenzks hagkerfis. Er Jón var spurður hvaða áhrif hann teldi þennan fyrirvara hafa á þátttöku Íslendinga í samræming arstarfi Norðurlandanna, sagðist hann ekki telja að þau yrðu mikil. "Ég held að fyrirvarinn lýsi fyrst og fremst varkárni af hálfu Íslendinga, sem er sameiginleg með öllum stjórnmálaflokkum á Íslandi," sagði Jón. Hann sagði að aukinheldur væru fyrirvarar í áætluninni sjálfri, ekki sízt á fjármagnsmarkaðssvið inu. "Ég tel að við séum að finna okkar eigin leið í þessum málum, sem getur fallið að Norðurlandasamstarfinu. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að dragast ekki afturúr í því, vegna þess að við höfum ekki starfskrafta til að vinna einir öll þau verkefni, sem framkvæmd eru í norrænu samstarfi," sagði Jón. Hann sagðist telja að Norðurlandasamstarfið myndi því flýta aðlögun Íslendinga að Evrópumarkaðnum.

"Það er enginn vafi á því að tengsl Norðurlanda við Evrópu hafa á ýmsan hátt hvatt menn til dáða í Norðurlandasamstarfinu. Það er meiri alvara í samstarfinu og það er knúð á um spurningar um það hvernig þetta samstarf er skipulagt og hversu skilvirkt það er. Það verður líka að koma því þannig fyrir að Norðurlandasamstarfið geti skilað árangri, þótt samstarfið innan EFTA gangi ekki eins vel og menn vonuðu," sagði Jón.

Á fundinum undirrituðu ráðherrarnir nýjan samning um almannaskráningu á Norðurlöndum, sem helzt felur það í sér, að dveljist menn um einhvern tíma á einhverju hinna Norðurlandanna vaknar skráningarskylda ekki fyrr en eftir sex mánuði.