Fiskeldi Fjórðungur af útfluttum laxi fluttur ferskur til Japan Íslendingar þurfa að geta flutt 750­825 tonn af laxi með Flying Tigers í ár Á AÐALFUNDI Útflutningsráðs Íslands sem haldinn var nýlega kom fram að á þessu ári þurfa Íslendingar að geta flutt...

Fiskeldi Fjórðungur af útfluttum laxi fluttur ferskur til Japan Íslendingar þurfa að geta flutt 750­825 tonn af laxi með Flying Tigers í ár

Á AÐALFUNDI Útflutningsráðs Íslands sem haldinn var nýlega kom fram að á þessu ári þurfa Íslendingar að geta flutt út um fjórðung af framleiðslu á eldislaxi til Japan með vélum Flying Tigers. Það magn er á bilinu 750-825 tonn og gæti skilað um 225-250 milljónum króna. Benedikt Höskuldsson, markaðsstjóri matvæla hjá Útflutningsráði sagði þetta ljóst þar sem flutningsmöguleikar á ferskum fiski væru þegar fullnýttir og ekki fyrirsjáanlegar neinar stórvægilegar breytingar í auknu leiguflugi með fragt.

Benedikt fjallaði í erindi sínu nokkuð um markað fyrir lax í Japan. Hann sagði að á síðasta ári hefðu verið flutt inn 121 þúsund tonn af laxi fyrir um 1.076 milljónir dollara en af því væri ferskur lax aðeins um 3.817 tonn. Fastlega mætti gera ráð fyrir að mest af þeim laxi sem seldur væri frá Íslandi færi inn á þann hluta markaðarins þ.e. ferskfiskmarkaðinn. Þá sagði Benedikt að af tæpum 4.000 tonnum sem flutt væru inn væri hlutdeild Norðmanna langmest eða 2.114 tonn. En auk þess hefðu þeir flutt inn 842 tonn af frystum laxi. Kvaðst hann draga þá ályktun af þessu að samkeppnin fyrir íslenska laxinn myndi fyrst og fremst verða við norskan eldislax. Samkeppnin við Skota og Íra yrði í mun minna mæli en samkeppnin við Norðmenn, þótt hún yrði engu að síður fyrir hendi.

Benedikt sagði hins vegar að eitt af því sem vekti áhyggjur í sambandi við innflutningsmarkaðinn á laxi í Japan væri sú staðreynd að einungis örlítið brot væri lax af Atlandshafsstofni. Vegna þess að Kyrrahafslaxinn væri mun rauðari þá gæti reynst erfitt að ná festu á markaðnum þannig að um verulegt magn yrði að ræða í framtíðinni. Japanskir neytendur vilja einfaldlega lax sem er dökkrauður á holdið og þrátt fyrir nokkuð öfluga litar gjöf í fóðrun í dag þá er íslenskur eldislax nokkur langt frá því að vera á litinn á holdið eins og japanskir neytendur kjósa og eru vanir," sagði Benedikt.

Hann kvaðst telja að einn möguleiki fyrir íslensk fyrirtæki sem væri fyrir hendi væri sá að vinna markaðshlutdeild á meðal fyrirtækja sem sérhæfðu sig í reykingu á laxi og fyrirtækja sem keyptu lax til frekari vinnslu. Slíkir kaupendur þyrftu nefnilega stærri fisk en Kyrrahafslaxinn og þar lægi án efa samkeppnisstyrkur framleiðenda á Atlandshafslax í Japan.

Benedikt benti á nokkur atriði sem Íslendingar þyrftu að varast við útflutning á laxi til Japan. Þannig áætluðu t.a.m. Norðmenn að flytja út 10 þúsund tonn af laxi til Japan á þessu ári og áformuðu að eyða 8 milljónum dollara í markaðs- og söluhvetjandi aðgerðir. Þyrftu menn að vera meðvitaðir um allar svona aðgerðir samkeppnisaðila til þess að geta brugðist við þeim á réttan hátt.

Morgunblaðið/Árni Sæberg

ÚTFLUTNINGSRÁÐ - Svipmynd frá aðalfundi Útflutningsráðs. Þar kom m.a. fram að Íslendingar þyrftu að vera meðvitaðir um aðgerðir Norðmanna í sölu á laxi á japanska markaðnum. Norðmenn hyggjast flytja út 10 þúsund tonn af ferskum á þessu ári til Japan og eyða 8 milljónum dollara í söluátak.