Flutningar Um 3,2 milljónir lesta fóru um Reykjavíkurhöfn í fyrra Umferð fiskiskipa hefur aukist í gömlu höfninni með tilkomu Faxamarkaðar Á ÁRINU 1988 fóru tæplega 3,2 milljónir lesta af vörum, fiski, og steinefnum um Reykjavíkurhöfn, sem er lífæð...

Flutningar Um 3,2 milljónir lesta fóru um Reykjavíkurhöfn í fyrra Umferð fiskiskipa hefur aukist í gömlu höfninni með tilkomu Faxamarkaðar

Á ÁRINU 1988 fóru tæplega 3,2 milljónir lesta af vörum, fiski, og steinefnum um Reykjavíkurhöfn, sem er lífæð þjóðarinnar við umheiminn. Stærsti vöruflokkurinn á árinu, að frátöldum steinefnum, var olíuvörur, en alls fóru um 836 þúsund tonn af olíu um höfnina. Þar af voru 525 þúsund tonn losuð í olíutanka hafnarsvæðisins, en 311 þúsund tonn voru lestuð í olíuskip til dreifingar á ströndina. Um Reykjavíkurhöfn, sem er í eigu Reykjavíkurborgar, fóru alls 142.646 gámaeiningar, en fjöldi gáma hefur rúmlega þrefaldast á fimm árum.

Alls komu 2.556 skip til Reykjavíkurhafnar á sl. ári, þar af voru 1.969 íslensk skip og 587 erlend, en stór hluti þeirra var í leigu hjá íslenskum skipafélögum. Af erlendum skipum reyndust 23 vera skemmtiferðaskip en langflest þeirra voru sovésk eða 14 talsins. Frá Bahamaeyjum, Líberíu og VÞýskalandi komu tvö skemmtiferðaskip frá hverri þjóð, en eitt skip frá hverju eftirtalinna ríkja: A-Þýskalandi, Bandaríkjunum og Panama. Alls komu 9.129 erlendir ferðamenn með skemmtiferðaskipum; þar af voru Vestur-Þjóðverjar fjölmennastir eða 6.391, en í öðru sæti voru Bandaríkjamenn.

Aukin umsvif í austur-

höfninni með tilkomu

Faxamarkaðarins

Rekstur Reykjavíkurhafnar fer aðallega fram í tveimur hafnarsvæðum, þ.e. í Gömlu höfninni og Sundahöfn. Allir almennir vöruflutningar utan strandflutninga Ríkisskips og Akraborgar fara nú um Sundahöfn. Gamla höfnin, sem skiptist í vestur- og austurhöfn, er nú aðallega fiski- og þjónustuhöfn. Vesturhöfn er aðal fiskihöfnin, en árið 1987 hófst rekstur fiskmarkaðar í austurhöfn.

"Með tilkomu Faxamarkaðar hefur færst mikið líf í austurhöfnina og flesta daga má nú sjá þar skip og báta landa afla, og léttir það nokkuð á vesturhöfninni þar sem þrengsli eru oft mikil. Nokkur aukning landaðs afla annars en loðnu varð árin 1987 og 1988, sem að nokkru leyti má rekja til Faxamarkaðar. Alls var landað rúmlega 87 þúsund tonnum af fiski í höfninni í fyrra," segir Bergur Þorleifsson, skrifstofustjóri.

Flutningamiðstöð Íslands

"Höfn fyrir almenna vöruflutninga er í Sundahöfn, sem nær frá Vatnagörðum um Kleppsvík inn í Grafarvog. Olíustöðvar eru í Örfirisey og Laugarnesi. Iðnaðarstarfsemi er að hluta í Sundahöfn og í Eiðsvík, en um hana fara áburðarflutningar frá Gufunesi," segir Gunnar B. Guðmundsson, hafnarstjóri. Undanfarin ár hefur verið unnið að uppbyggingu farmstöðva olíufélaga í Örfirisey, en síðustu tvö ár hefur sérstök áhersla verið lögð á stækkun farmstöðva fyrir almenna stykkjavöru í Sundahöfn.

Vöruinnflutningur til landsins um Reykjavíkurhöfn, annar en olía, var tæplega 493 þúsund tonn, en mest af þeirri vöru kom með skipum Eimskipafélagsins og Skipadeildar Sambandsins, auk þess sem 180 þúsund tonn komu af strönd. Útfluttar sjávarafurðir voru 202 þúsund tonn, aðrar útfluttar vörur voru 134 þúsund tonn og á strönd fóru 85 þúsund tonn. Alls fóru því 1.094 þúsund tonn af annarri vöru en olíu um höfnina.

"Reykjavíkurhöfn er flutningamiðstöð landsins á sviði sjóflutninga og tengir vöruflutninga milli landa við strand- og landflutninga. Við uppbyggingu og þróun flutninga hafnar í Sundahöfn er stefnt að þremur mikilvægum þáttum. Í fyrsta lagi að höfnin geti ávallt þjónað þeim skipastærðum og gerðum sem best henta hverju sinni. Í öðru lagi að hægt sé að beita hagkvæmustu losunar- og lestunar tækni og í þriðja lagi að stærð landsog skipulag taki mið af framtíðar þörfum vöruafgreiðslu og vörudreifingar," segir Hannes Valdimarsson, aðstoðarhafnarstjóri.

Umfangsmiklar og örar

breytingar í flutningum

Flutningakerfi sjóflutninga hefur verið að breytast í takt við tímann undanfarinn áratug á þann hátt, að hlutur áætlanasiglinga í almennum vöruflutningum til og frá Íslandi hefur vaxið á kostnað stórflutninga. Hlutdeild og umfang Reykjavíkurhafnar í flutningum hefur aukist á undanförnum árum, en vöruhöfn höfuðborgarinnar hefur lengst af þjónað sem birgða- og dreifingarmiðstöð fyrir innflutning. Með auknum áætlunarsiglingum hefur útflutningur frá Reykjavík aukist, en þar ber mest á sjávarafurðum.

"Samhliða breytingum á flutningakerfinu hefur orðið mikil nútímaleg breyting á flutningatækni og nú er nær öll stykkjavara og ýmis annar varningur eingöngu fluttur í gámum. Skipastærðir hafa vaxið ört og skipafélög í áætlunarsiglingum hafa þannig nýtt sér hagkvæmni stærðar í flutningum. Í byrjun þessa áratugar var algengt að millilandaskip væru 90-100 metrar að lengd og farmstærð var um 1.000 tonn. Nú eru notuð yfir 170 metra löng vöruflutningaskip og algeng farmstærð er yfir 4.000 tonn," segir hafnarstjóri.

Skipafélögin leggja áherslu

á stöðugt styttri hafnartíma

Afgreiðslutækni hefur einnig fleygt fram, gámanotkun stóraukist og undanfarin ár hefur fjölgun 40 feta gáma orðið mikil, sem kallar á stærri krana og vörulyftara. Lyfti einingar yfir 30 tonn eru algengar við höfnina og öxulþungi gámalyft ara nálgast 100 tonn, en slíkur þungi reynir verulega á öll mannvirki og krefst nýrra tæknilegra lausna. Skipafélög í áætlunarsiglingum keppa að hámarksnýtingu flutningatækja og meiri kröfur eru nú gerðar um sem skjótastan afgreiðslutíma skipa til þess að stytta sem mest hafnartíma þeirra. Vegna tenginga flutninga milli landa og í strandsiglingum, þarf að afgreiða skip í þeim flutningum samtímis þannig að gámastreymið þarf að vera sem næst stöðugt á milli skipa.

Hafnarbakkarnir eru hátt

í 4 kílómetrar að lengd

Reykjavíkurhöfn nær yfir mjög stórt svæði, en alls eru hafnarbakk arnir samanlagt 3.961 metri að lengd og heildarsjávarflötur hafnarsvæðisins er 5.880 ha., þar af er hann 310 ha. innan hafnargarða. Stærsta farmstöðin við höfnina er hjá Eimskipum í Vatnagörðum í Sundahöfn, en hún er um 180 þúsund fermetrar að flatarmáli, og við hana hafnarbakkarnir Sundabakki og Kleppsbakki sem eru alls um 560 metrar að lengd. Önnur stærsta farmstöðin er í Kleppsvík þar sem Skipadeild Sambandsins er með athafnasvæði sitt, en það er um 53 þúsund fermetrar að flatarmáli. Viðlegubakkinn sem þar er heitir Holtabakki og er 200 metra langur.

VÖRUFLUTNINGAR UM HÖFNINA 1988 Í TONNUM

Innflutningur

Frá útlöndum

Olía 524.431

Í Gufunesi 26.357

Ýmsar vörur 466.766

Alls 1.017.554

Af strönd

Sement 99.657

Ýmsar vörur 80.156

Alls 179.813

Alls til hafnar 1.197.367

FRÁ HÖFNINNI

Til útlanda

Sjávarafurðir 202.253

Ýmsar vörur 134.121

Alls 336.374

Á strönd

Frá Gufunesi 21.338

Ýmsar vörur 63.244

Olía 311.006

Alls 395.588

Alls frá höfninni 731.962

Flutningar með Akraborg 65.224

Vöruflutningar alls 1.994.553

Landaður afli 87.443

Dæld steinefni 1.074.767

Flutningur alls 3.156.763

FLUTNINGUR Í GÁMUM

1988 Í TEU

Hlaðnir Tómir Alls 95.428 47.218 142.646 SKEMMTIFERÐASKIP

Þjóðerni Fjöldi

A-Þýskaland 1

Bahamaeyjar 2

Bandaríkin 1

Líbería 2

Panama 1

Sovétríkin 14

V-Þýskaland 2

Alls 23