Ráðstefna Framkvæmdir við flugstöðina krufnar til mergjar FÉLAGIÐ Verkefnastjórnun heldur ráðstefnu að Borgartúni 6, þriðjudaginn 23. maí nk. kl.13-18 um framkvæmdir við flugstöðina í samvinnu við bygginganefnd hennar, Ríkisendurskoðun, Fjárlaga- og...

Ráðstefna Framkvæmdir við flugstöðina krufnar til mergjar

FÉLAGIÐ Verkefnastjórnun heldur ráðstefnu að Borgartúni 6, þriðjudaginn 23. maí nk. kl.13-18 um framkvæmdir við flugstöðina í samvinnu við bygginganefnd hennar, Ríkisendurskoðun, Fjárlaga- og hagsýslustofnun og Endurmenntunarnefnd HÍ. Ætlunin er að fjalla um framkvæmdirnar út frá faglegum verkefnastjórnunarlegum sjónarmiðum. Fundurinn er öllum opinn.

Erindi halda Tryggvi Sigurbjarnarson, formaður Verkefnastjórnunar, Leifur Magnússon, frkvstj. hjá Flugleiðum, Indriði H. Þorláksson hagsýslustjóri, Halldór V. Sigurðsson ríkisendurskoðandi, Garðar Halldórsson húsameistari ríkisins, Svavar Jónatansson, frkvstj. Almennu verkfræðistofunnar, Steindór Guðmundsson, ráðgjafarverkfræðingur, en hann var staðarverkfræðingur við flugstöðvarbygginguna, Páll Sigurjónsson, frkvstj. Ístaks, Stanley Pálsson frkvstj. Verkfræðistofu SP, Egill Skúli Ingibergsson, frkvstj. Rafteikninga og Pétur Stefánsson ráðgjafaverkfræðingur.

Tryggvi Sigurbjarnarson sagði að á ráðstefnunni yrði fyrst fjallað um aðdraganda og sögu byggingarinnar, en að því búnu yrði fjallað um framkvæmdirnar út frá mismunandi sjónarhólum. Þá yrðu grundvallaraðferðir verkefnisstjórnunar kynntar, en þær eiga jafnt við um byggingu einbýlishúss og flugstöðvar. Reyndar væri aðferðunum einnig beitt með góðum árangri á margt annað en verklegar framkævmdir, s.s. tölvuvæðingu og endurskipulagningu fyrirtækja. Ætti því fundurinn að höfða til stórs hóps manna.