Sauðárkrókur: Verulegt tap á fóðurstöð Melrakka hf. Sauðárkróki. NÚ NÝVERIÐ var haldinn aðalfundur Melrakka hf. á Sauðárkróki. Verulegt tap varð árekstri fyrirtækisins á síðasta ári sem nam rúmlega átta milljónum króna.

Sauðárkrókur: Verulegt tap á fóðurstöð Melrakka hf. Sauðárkróki.

NÚ NÝVERIÐ var haldinn aðalfundur Melrakka hf. á Sauðárkróki. Verulegt tap varð árekstri fyrirtækisins á síðasta ári sem nam rúmlega átta milljónum króna. Á fundinum urðu þær breytingar á stjórn félagsins að Marteinn Friðriksson stjórnarformaður lætur af störfum, en í hans stað tekur að sér formennskuna Árni Guðmundsson framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins Skjaldar hf. Sæti Marteins í stjórn Melrakka tekur Ágúst Guðmundsson framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Skagfirðinga hf.

Fóðurframleiðsla Melrakka hf. varð á síðastliðnu ári litlu minni en gert var ráð fyrir eða 4200 tonn, en áætlað er að framleiðsla þessa árs verði nokkru meiri eða nær 5000 tonnum. Nokkur fækkun hefur orðið á loðdýrabúum þeim sem átt hafa viðskipti við fóðurstöð Melrakka á síðasta ári.

Þannig hafa átta bændur á viðskiptasvæði Melrakka, á Norðurlandi vestra látið af búskap með loðdýr, og enginn nýr bæst í hópinn. Þá hefur orðið merkjanleg breyting á því hvaða dýr menn hafa, þannig hefur refalæðum fækkað verulega frá síðasta ári, eða úr 2500 dýrum í um það bil 1100, en minkum hefur fjölgað nokkuð. Er þetta eðlileg breyting vegna breyttra sölumöguleika á skinnum.

Núverandi stjórn Melrakka hf. skipa auk þeirra Árna Guðmundssonar og Ágústs Guðmundssonar, Guðmundur Guðmundsson frá Byggðastofnun og fulltrúar loðdýrabænda eru þeir Reynir Barðdal og Gísli Pálsson.

­ BB