Tölvur Norskur fjórðu kynslóðar hugbúnaður til Íslands? NORSKA hugbúnaðarfyrirtækið Sysdeco a/s stóð fyrir tveggja daga ráðstefnu á Hótel Loftleiðum fyrir skömmu.

Tölvur Norskur fjórðu kynslóðar hugbúnaður til Íslands?

NORSKA hugbúnaðarfyrirtækið Sysdeco a/s stóð fyrir tveggja daga ráðstefnu á Hótel Loftleiðum fyrir skömmu. Þar var fjallað um fjórðu kynslóðar forritunarmálið Systemator sem fyrirtækið hefur þróað og selt í nokkrum mæli undanafarin ár. Rúmlega eitthundrað Norðmenn tóku þátt í ráðstefnunni og voru það notendur hugbúnaðarins í Noregi auk allmargra starfsmanna Sysdeco. Samhliða var efnt til sýningar á hugbúnaðinum og tölvum frá NCR, Nixdorf og Norsk Data. Á meðan á ráðstefnunni stóð var hugbúnaðurinn kynntur nokkrum tölvufyrirtækjum hér á landi og hafa forráðamenn fyrirtækisins lýst yfir áhuga á viðskiptum við Íslendinga.

Sysdeco a/s var stofnað árið 1980 og er að meirihluta í eigu starfsmanna þess. Systemator er hugbúnaðarmál sem byggir á notkun gagnagrunna og telst til 4 kynslóðar hugbúnaðar. Forritið getur unnið á hinum ýmsu gagnagrunnum svo sem Oracle og SIBAS. Með Systemator eru m.a. hönnuð gagnagrunnskerfi í samræmi við óskir notandans til að stytta framleiðslu tímann og draga út kostnaði. Fjórðu kynslóðar hugbúnaðarmál heyra undir Computer Aided Software Enginering (CASE) sem er hliðstætt CAD/CAM í framleiðslustjórnun.

Kostnaður við þróun kerfisins er þegar orðinn 41 milljón norskra króna og hefur nokkur hluti þróunar þess falist í að aðlaga það að vélbúnaði frá sem flestum framleiðendum. Þar er um að ræða hugbúnað fyrir einmenningstölvur með MS-DOS og tölvur með UNIX stýrikerfinu frá NCR, Nixdorf og Myc ron. Afkoma Sysdeco varð mjög góð á síðastliðnu ári og hagnaður um 4 milljónir norskra króna. Velta fyrirtækisins varð 27,1 milljón. Af 55 starfsmönnum fyrirtækisins komu 25 til Íslands til að kynna notendum Systemator þróun hugbúnaðarins. Sysdec hefur sýnt áhuga á samstarfi við íslenska aðila og meðan á ráðstefnunni stóð höfðu þeir samband við umboðsaðila NCR, Norsk Data/Ísland, auk umboðsaðila Nix dorf og Apollo. Er fyrirhugað að bjóða íslenskum sveitarfélögunum hugbúnað frá fyrirtækinu sem þegar hefur verið seldur til norskra sveitarfélaga.

Frode Ascim, forstjóri Sysdeco a/s sagði í samtali við Morgunblaðið, að meðal stærstu viðskiptamanna væru t.d. varnarmálaráðuneytið, póstþjónustan og áfengisverslunin í Noregi þar sem um flókin kerfi væri að ræða. Þá hefði kerfið einnig verið selt til þriggja fyrirtækja í Bretlandi þ.a.m. Loyds tryggingafélagsins. Hann sagði að Ísland hefði orðið fyrir valinu sem ráðstefnustaður þar sem fáir þeirra hefðu komið hingað áður. Fulltrúar flestra af stærstu viðskiptamönnum fyrirtækisins hefðu þegið boð umað koma hingað til lands.

Við höfum sett okkur það markmið að verða eitt stærsta hugbúnaðarfyrirtæki í Noregi í háþróuðum kerfum með fjórðu kynslóðar forritunarmálum," sagði Ascim.

Morgunblaðið/Þorkell

HUGBÚNAÐUR - Norska fyrirtækið Sysdeco a/s hélt ráðstefnu hér á landi fyrir skömmu þar sem fyrirtækið kynnti helstu viðskiptamönnum sínum í Noregi nýjungar í fjórðu kynslóðarhugbúnaðarkerfum.