Afmæliskveðja: Aðalsteinn Jóhannsson á Skjaldfönn Vinur minn Aðalsteinn á Skjaldfönn varð áttræður þann 16. maí. Ég minnist Aðalsteins fyrst þegarhann kom á hverju hausti út á Ísafjörð með féð til slátrunar og amma mín eyddi mörgum dögum í að undirbúa komu hans, en hjá henni gisti Aðalsteinn jafnan. Það var heilmikill viðburður þegar Steini á Skjaldfönn kom í bæinn og lét maður sig ekki vanta á bryggjuna. Þarna birtist hann stór og stæðilegur með arnar nef og hafði hátt. Það var einna líkast því að þarna væri afi á Knerri ljóslifandi kominn.

Þegar að því kom að reynt yrðiað koma mér til manns var ég sendur í sveit eins og flest ungmenni af minni kynslóð. Ég var svo gæfusamur að komast á Skjaldfönn og hófst þá vinátta okkar Aðalsteins.

Ég man enn þegar hann tók á móti mér á bryggjunni á Melgraseyri kaldan vordag í byrjun maí. Ég var vel klæddur að mér fannst, en Steini spurði mig hvort ég væri ekki með neina úlpu. "Jú, ég er í henni" svaraði ég. "Það er ekkert skjól í þessu" svaraði hann. "Hann blæs köldu hérna af jöklinum á leiðinni frameftir" bætti hann við og pakkaði mér síðan inní stóru gæruúlpuna sína og setti mig aftast í kerrukassann. Að því loknu settist hann uppá dráttarvélina og við mjökuðumst í áttina heim að Skjaldfönn. Síðan hefur mér alltaf fundist ég kominn heim er ég kem að Skjaldfönn.

Á sínum yngri árum var Aðalsteinn annálað hraustmenni og eimir enn eftir af hreysti hans, þó hannsé orðinn slitinn eftir erfiði dagsins. Margan ferðamanninn hefur hann borið yfir Selá, vatnsmesta fljót Vestfjarðakjálkans. Heyrt hef ég sögur af því að hann hafi borið tvo fullorðna í einu yfir ána í vexti og sjálfur varð ég vitni að því að hann bar þrjá stálpaða stráka í einu yfir, þá kominn á sjötugsaldur.

Glöggur og athugull er Aðalsteinn með afbrigðum og hafa vísindamenn oft notið góðs af því við rannsóknir sínar. Til dæmis man ég að dr. Finnur Guðmundsson fékk upplýsingar hjá Aðalsteini við rannsóknir sínar á rjúpnastofninum, en sá síðarnefndi hafði fylgst sérstaklega með Græn landsrjúpu og tekið sýni fyrir dr. Finn. Einnig stundaði Aðalsteinn mælingar fyrir Jöklarannsóknafélagið á skriðjökli Drangajökuls í Kaldalóni í áratugi. Fyrir stuttu birtist í Morgunblaðinu frétt um að brúna á Mórillu í Kaldalóni hefði tekið af í snjóflóði og var meginuppistaðan í þeirri frétt greinargerð frá Aðalsteini á Skjaldfönn, sem hann sendi Jökla rannsóknafélaginu fyrir 21 ári, þegar sömu brú tók af í snjóflóði. Þar kom greinilega fram hvernig snjóflóðið hefði fallið og benti Aðalsteinn einnig á að með því að færa brúna um nokkra tugi metra mætti koma í vegfyrir að sagan endurtæki sig. Ekki þótti ráðamönnum ástæða til að faraeftir þeim ráðleggingum, enda hefurkomið á daginn að það hefði betur verið gert.

Á tímabili komu breskir háskólastúdentar ásamt kennurum sínum árlega til rannsókna við rætur Drangajökuls. Aðalsteinn veitti þeim ýmsar upplýsingar og fræddi þá þráttfyrir að hann kunni ekki stakt orð í ensku og þeir ekki í íslensku. Gaman var að fylgjast með þeirri sýnikennslu sem þá fór fram og held ég að stúdentarnir hafi ekkert síður lært af þessum íslenska bónda en af prófessorum sínum.

Eitt stærsta safn örnefna fyrireina jörð, sem til er á Örnefnastofnun er örnefnaskrá Aðalsteins á Skjaldfönn. Enda furðuðum við strákarnir okkur á því hvernig maðurinn gæti þekkt nöfn á nánast hverjum steini og hverri laut í landareigninni, en það kemur trúlega til af þvíað sama ættin hefur setið Skjaldfönn í marga ættliði.

Snyrtimennska hefur ætíð setið í fyrirrúmi við búskapinn hjá Aðalsteini og er fagurt heim að líta á Skjaldfönn. Hann veit líka nákvæmlega hvar í staflanum er hægt að finna girðingarstaur, sem passar í tiltekna holu. Þótt manni hafi stundum þótt sérviskan keyra um þverbak held ég að Steini hafi oftast haft rétt fyrir sér og með fyrirhyggju sparað erfiði og tvíverknað.

Búskapur á Skjaldfönn hefur oftverið erfiður, því eins og nafnið bendir til er snjóþungt í dalnum og oftast lítið um vetrarbeit. En með elju og dugnaði hefur þeim feðgum Aðalsteini og Indriða, syni hans, tekist að rækta góðan fjárstofn og ná einhverjum bestu afurðum sem þekkjast hér á landi. Alltaf hefur verið kappkostað að búa vel að skepnum og gefa þeim nóg. Á kalárunum í lok sjöunda áratugarins var brugðist við minnkandi heyfeng með hey- og fóð urbætiskaupum og stórfenglegri ræktun og er túnið á Skjaldfönn nú eitt hið stærsta á Vestfjörðum. Fjárhúsin á Skjaldfönn eru byggð eftir fyrirsögn Aðalsteins og er ég þess fullviss að starfsmenn Teiknistofu landbúnaðarins hafa haft mikið gagn af samstarfi við hann. Fjárhúsin þóttu nýstárleg á sínum tíma og var fyrst og fremst haft í huga að vel færi um féð í þeim og nóg pláss væri um sauðburðinn. Þetta kemur sér vel á köldu vori eins og nú, þegar útlit er fyrir að hver ær muni bera á húsi.

Aðalsteinn hefur verið gæfumaður í sínu einkalífi. Hann er kvæntur Hólmfríði Indriðadóttur frá YtraFjalli í Aðaldal og eiga þau þrjú börn og átta barnabörn.

Ég og fjölskylda mín sendum Að alsteini bestu kveðjur á þessum tímamótum og ég veit að ég mæli fyrir munn allra, sem hafa verið í sveit hjá þeim hjónum að við vorum ríkari eftir.

Guðmundur Kr. Eydal