: Sigurbjörg Ámundadóttir - Minning Fædd 6. nóvember 1901 Dáin 11. maí 1989 Sigurbjörg amma lést í Landspítalanum að morgni fimmtudagsins 11. maí. Amma fæddist í Kald árholti, Holtahreppi, Rangárvallasýslu. Dóttir Ámunda steinsmiðs Guðmundssonar og Jóhönnu Jó hannesdóttur. Hún ólst upp hjá afa sínum og ömmu, hjónunum Guðmundi Ámundasyni og Kristínu Andrésdóttur. Giftist Gísla Sigurðssyni rakara á Selfossi, en þau slitu samvistir.

Börn þeirra: Reynir f. 1922, d. 1923; Ámundi Reynir f. 1924; Ingigerður Kristín f. 1928 og Hulda f. 1929, d. 1974.

Lengst af bjó amma á Laugavegi 48. Hún ól börn sín upp af miklum dugnaði, en oft var þröngt í búi hjá ungri konu með þrjú börn.

Amma var ákveðin og samviskusöm. Mikil reisn var yfir henni, og var hún mikið fyrir að klæða sigog börn sín fallega. Hún var mikil saumakona. Handbragð ömmu sýndi sig í því sem hún lét frá sér fara, og nutum við barnabörnin góðs af í ríkum mæli.

Eftir að börn ömmu komust á legg vann hún við verzlunar- og saumastörf hjá Feldinum í Reykjavík í 12 ár.

Kynni okkar ömmu urðu enn meiri er hún bjó um nokkurra áraskeið á æskuheimilum okkar. Þá var oft á kvöldin spjallað saman, spilað eða lesnar sögur, jafnvel voru keyptir ömmu-staurar og kók.

Árið 1975 flutti amma í Hátún 10b. Þar átti hún lítið en fallegt heimili. Kynntist hún þar mörgu góðu fólki sem hún naut samvista við.

Alltaf átti amma eitthvað gott handa langömmubörnunum. Erfiðast verður fyrir þau að skilja að langamma er ekki lengur á meðal okkar.

Blessuð sé minning elsku ömmu.

Því fell ég nú til fóta,

frelsarinn Jesú, þér.

Láttu mig nafns þíns njóta.

Náð og vægð sýndu mér.

Ég skal með hlýðni heiðra þig

nú og um eilífð alla.

Þá huggar þú, herra, mig.

(Hallgrímur Péturss.)

Barnabörn