Ég vil minnast með fáeinum orðum ömmu minnar, Hallborgar Sigurjónsdóttur, sem jarðsungin er frá kirkju Óháða safnaðarins í dag, fimmtudaginn 18. maí. Já, nú er hún amma dáin. Það eru svo ótal margar hlýjar og góðar minningar sem sitja eftir í huga mínum.

Amma og afi komu frá Mallorca þann 3. maí en þá varð amma mikið lasin, hún lést svo þann 6. maí í Landspítalanum. Ég hitti þau rétt áður en þau fóru út, á heimili foreldra minna. Amma var þá að tala um það að ég og maðurinn minn yrðum að fara að koma í heimsókn, en ég svaraði því til að við kæmum strax eftir Mallorca-ferðina þeirra. Sú heimsókn gafst því miður ekki.

Amma var blíð og góð manneskja, en líka sannkallaður boga maður. En eins og þeirra er vani þá átti hún það stundum til að segja það sem aðrir láta sér nægja að hugsa. Sumir kunna kannski ekkiað meta það í byrjun, en að lokum þegar fólk kynntist henni nánar þá elskaði það þessi einkenni ömmu og hafði gaman af, því þetta var hin eina sanna amma.

Eitt átti hún þó ógert og er það trassaskap mínum að kenna. En ætlunin var að kenna mér að baka "ömmu flatkökur". Amma bakaði flatkökur handa öllum börnum sínum og færði þeim á jólunum. Jólin byrjuðu aldrei fyrr en amma kom með rjúkandi heitar flatkökurnar á aðfangadag, og þá var sko veisla. En annað sérkenni ömmu var brúnkakan hennar. Aldrei stóð svo á að ekki væri gengið að þvísem vísu að til væri brúnkaka á heimili ömmu. Og velti ég því oftfyrir mér þegar ég var lítil hvort amma ætti "ævintýrahorn" þar sem brúnkökur yrðu til.

Amma var mjög trúrækin kona, og minnist ég þess sem barn að í hvert skipti sem ég gisti hjá ömmu þá kenndi hún mér nýja bæn, eða sálm áður en gengið var til náða. Núna er amma komin í betri veröld, og biður þess að taka á móti okkur einu og einu þegar þar að kemur. Mig langar að enda þessar minningar á sálmi sem við amma fórum alltaf með á eftir öðrum bænum á kvöldin.

Vertu guð faðir faðir minn,

í frelsarans Jesú nafni,

hönd þín leiði mig út og inn,

svo allri synd ég hafni.

Elsku afi minn, guð styrki þig og varðveiti.

Hallborg Arnardóttir