Hallborg Sigurjónsdóttir Margs er að minnast, margt er hér að þakka. Guði sé lof fyrir liðna tíð. Margs er að minnast, margs er að sakna. Guð þerri tregatárin stríð. (V. Briem) Í dag verður til moldar borin elskuleg amma okkar sem lést í Landspítalanum 6. maí eftir stutta legu.

Minningarnar sem við systkinin eigum um hana ömmu í Garðabæ eins og við kölluðum hana eru ómetanlegar. Til hennar var alltaf gott að koma. Hún var alltaf svo róleg og blíð og var alltaf jafn ánægð að fá okkur í heimsókn.

Móttökurnar sem við fengum þegar við heimsóttum hana voru konunglegar því þó hún segðist ekkert eiga til að gefa okkur var borðið hlaðið kræsingum sem ömmu einni var lagið.

Margar af skemmtilegustu stundunum voru þegar við komum ríðandi á hestunum okkar til hennar. Þá var víst að bæði hestar og reiðmenn fengu í svanginn.

Amma var mjög lagin saumakona enda starfaði hún við það. Ef hún vissi að okkur vantaði eitthvað var hún búin að sauma það. Hvort sem um var að ræða föt eða púða í stólana okkar.

Okkur er ómetanleg öll sú ástúð sem hún sýndi litlu börnunum okkar sem gerðu sig heimakomin á heimili hennar og afa.

Elsku afi, missir þinn er mikill en við vitum að nú er hún hjá guði sínum sem hún trúði svo mikið á. Við systkinin og fjölskyldur okkar sendum þér okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum guð að styrkja þig í sorg þinni.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem)

Hafdís og Svanur