Guðmundur Jóhannsson Í dag glymur klukkan vini mínum, Guðmundi Jóhannssyni. Högg hennar, dimm og drungaleg, renna saman við hófaslög hestsins bleika og minna á riddarann dapra, sláttumanninn slynga, þann er hefur í hendi sér tímaglasið sem telur sandkorn ævi okkar allra. Sigðina hans fær enginn flúið. Nú er sandur langrar og starfssamrar ævi runninn út. Fjölbreyttu og farsælu ævistarfi er lokið. Það þýtur í sigðinni. Uppskeran er hafin. Axið er mikið að vöxtum, kornin mörg og mjölvamikil.

Hér sannast að mjór er mikils vísir. Guðmundur fæddist í Reykjavík 16. ágúst 1907. Hann var fyrirburður, lítill og hrár. Fyrstu dögum ævi sinnar eyddi hann í baðmull í skókassa og var vart hugað líf. Vegna umönnunar dugandi ljósmóður og ástríkra foreldra, þeirra hjónanna Jóhanns Þórðarsonar, verkstjóra hjá Reykjavíkurborg og konu hans, Sigríðar Guðmundsdóttur, svo og vegna þeirrar seiglu og þess lífsvilja, er alla tíð einkenndi Guðmund, lífið hann af bylji þessara fyrstu ævidaga og önnur hret sem á hondum dundu síðar. Hinn granni, sveigjanlegi en þó sterki reyr svignaði í storminum en brotnaði ekki. Þung sorg móður missis er hann var enn barn að aldri og sviplegs sonarmissis síðar á ævinni beygði hann í svip en bugaði ekki. Rammur safi lífsþróttar, lífsgleði og lífstrúar, sem í æðum hans rann, rétti hann ætíð við á ný.

Guðmundur Jóhannsson var lágvaxinn maður, léttur og kvikur í hreyfingum. Samt stendur hann mér ætíð fyrir hugskotssjónum sem stór maður, stór í kærleika, stór í þjónustulund og stór í hugsjónum. Víst var hann stoltur maður, en aldrei stærilátur. Hann var ákafamaður, en aldrei flumbrari, bæði lagtækur og vandvirkur. Afkastamikill starfsmaður, sem þó safnaði aldrei veraldlegum auði, en auðgaðist af vinum og öðrum þeim verðmætum er mölur og ryð fá ekki grandað. Glaðlyndur var hann og hafði góða kímnigáfu, en undir niðri alvörugefinn, trúmaður, sem gð hafði bænheyrt um æðruleysi. Það átti hann öðrum mönnum í ríkara mæli. Hann var hrókur alls fagnaðar á góðri stund og nutu þá vinir og félagar ágætrar tónlistargáfu því hann var ekki einasta söngelsk ur og lék á slaghörpu og orgel, heldur einnig liðtækur höfundur dægurlaga sem einhver lifa enn. Þrátt fyrir það, að hann var í eðlisínu hugsjónamaður og eldhugi, var hann of sanngjarn og sveigjanlegur til þess að verða nokkru sinni of stækismaður. Guðmundur var bókhneigður en gafst sjaldan tóm tilað liggja yfir bókum. Hann las þó alltaf eitthvað fyrir svefninn og safnaði þannig miklum fróðleik er hann miðlaði öðrum af örlæti hjartans.

Axið var þungt, kornin mörg og mjölvamikil. Guðmundur lagði gjörva hönd á fleira í starfi og fé lagsmálum en upp verði talið í stuttri minningargrein. Starfsævina hóf hann sem sendill hjá Ziemsen. Síðar tóku við störf og nám í blikksmíði hjá Nýju blikksmiðjunni. Þar starfaði hann frá 1928 til 1947, síðustu sjö árin sem verkstjóri. Hann lauk sveinsprófi í iðninni árið 1931 og hlaut meistarabréf 1944. Hann starfaði sem verkstjóri hjá vélsmiðjunni Héðni á árunum 1947 til 1954. Framkvæmdastjóri meðferðarheimilis Bláabandsins fyrir áfengissjúka, á Flóagötu 29, var hann frá stofnun þess, árið 1955. Eftir að ríkið keypti húsið og tók við rekstri þess, sem Flókadeildar Kleppsspítalans, starfaði hann þar áfram sem félagsmálaráðunautur í fullu starfi til ársins 1977, en síðaní hálfu starfi meðan hann hafði heilsu til. Frá árinu 1973 var hann stjórnarformaður Vistheimilisins í Víðinesi og þar var starfsvettvangur hans allt til dauðadags.

Störf Guðmundar að félagsmálum voru mörg og margvísleg bæði innan stéttarsamtaka blikksmíða og mannræktarsamstaka ýmiskonar. Þó ber þar hæst aðild hans að stofnun AA-samtakanna á Íslandi árið 1954, þátttöku hans í starfi þeirra æ síðan og hlutverk hans sem Nestor samtakanna hin síðari árin.

Þegar harðnar á dalnum, hret viðri dynja og hjarnið hylur jörð, flykkjast hreggbarðir fuglar þangað sem reyrinn granni ber hið þunga ax. Úr fræjum hans fá þeir þrótt til að þreyja af veturinn og hinn granni reyr með sín nærandi fræ verður þeim sá vinur, er í raun reynist. Félagar Guðmundar í deildinni hans í Neskirkju, klukkan sex á föstudögum, hafa flestir lengi notið samvista við hann, leiðsagnar hansog vináttu. Þeir sakna nú vinar í stað. Ég hef verið beðinn um að bera frá þeim, í þessum línum, hinstu kveðjur, alúðarþakkir og dýpstu virðingu látnum vini og að standendum hans hlýjar samúðarkveðjur og blessunaróskir.

Þau frækorn, sem sáð er í frjósama mold, eru forsendur gróandi akra. Ég stend í mikilli þakkarskuld við vin minn Guðmund Jó hannsson vegna þeirrar leiðsagnar er hann veitti mér ungum og lítt reyndum manni, í erfiðu og vandasömu hlutverki á byrjunarárum mínum í starfi að meðferð áfengissjúklinga á Flókadeild. Þrátt fyrir kynslóðabil þróuðust kynni okkar Guðmundar þar og samstarf í vináttu, sem aldrei bar á skugga. Þau hollu, þroskandi áhrif, er hann hafði á mig, eins og svo marga aðra, á sinn háttvísa, hógværa máta verða aldrei full þökkuð.

Guðmundur hlaut í lifanda lífi ýmsa viðurkenningu fyrir störf sín svo sem Riddarakross Fálkaorðunnar og Gullmerki Félags blikksmiða, en engin viðurkenning var honum verðmætari en sú, að sjá fræ trúar, vonar og kærleika sáð í akur blæðandi hjarta spíra og verða að grænum sprotum gróandi sjálfsvirðingar.

Guðmundur kvæntist árið 1931 eftirlifandi eiginkonu sinni Gíslínu Þórðardóttur og varð hún honum tryggur förunautur á lífsbraut sem ekki var ávalt bein eða greiðfær og studdi hann þegar mest á reyndi. Þeim varð fjögurra barna auðið, en þau eru: Sigríður, ritari hjá bæjarfógetanum í Vestmannaeyjum; Borgþór, vélstjóri, er lést árið 1976; Jóhann, læknir, búsettur og starfandi í Svíþjóð; Svava sálfræðingur við fræðsluskrifstofu Reykjavíkurborgar, þau hafa öll gifst og eignast mannvænleg börn og barnabörn. Ég flyt þeim, og öllum öðrum aðstandendum og vinum Guðmundar, innilegar samúðarkveðjur. Megi sú vitneskja verða þeim huggun í harmi, að nú, þegar þreskingu er lokið og hið jarðneska hismi skilið frá kjarnanum, trúi ég því, að á borði hins alvalda guðs muni standa mælir, skekinn og fullur, uppskera þess sáðkokrns, er hvorki féll í grýttan jarðveg né meðal þistla og hafa þó hinir vegvilltu fuglar fengið sinn skerf.

Jóhannes Bergsveinsson,

læknir