Fjögur nútímaverk Á HÁSKÓLATÓNLEIKUM í Norræna húsinu í dag, miðvikudaginn 26. febrúar, flytja Eiríkur Örn Pálsson trompetleikari, Sigurður Sveinn Þorbergsson básúnuleikari og Judith Pamela Þorbergsson píanóleikari fjögur nútímaverk eftir David Borden,

Norræna húsið

Fjögur nútímaverk

Á HÁSKÓLATÓNLEIKUM í Norræna húsinu í dag, miðvikudaginn 26. febrúar, flytja Eiríkur Örn Pálsson trompetleikari, Sigurður Sveinn Þorbergsson básúnuleikari og Judith Pamela Þorbergsson píanóleikari fjögur nútímaverk eftir David Borden, Folke Rabe, Vincent Persichetti og Boris Blacher.

Eftir Borden flytja þau þrjá þætti úr Dialogues for Trompet and Bassoon; verk Rabes heitir Basta og er fyrir einleiksbásúnu; verk Persichettis ber heitið Parable XIV og er einleikur á trompet, og eftir Blacher leika þau Divertimento fyrir trompet, básúnu og píanó.

Tónleikarnir eru um hálftími að lengd og hefjast kl. 12.30.

Eiríkur Örn Pálsson stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og framhaldsnám í Bandaríkjunum. Hann starfar reglulega með Kammersveit Reykjavíkur, er félagi í Caput-hópnum og Tamlasveitinni og leikur í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hann kennir við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar, Tónlistarskóla FÍH og Tónlistarskólann í Reykjavík.

Sigurður Sveinn Þorbergsson er fæddur árið 1963 í Neskaupstað. Framhaldsmenntun sína hlaut hann í Guildhall School of Music and Drama í London. Frá árinu 1989 hefur Sigurður verið fastráðinn básúnuleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hann hefur einnig komið fram með ýmsum kammerhópum og fengizt við tónlistarkennslu t.d. við Tónskóla Sigursveins .

Judith Pamela Þorbergsson fæddist í London 1965. Eftir að hún lauk prófi frá Guildhall School of Music and Drama fluttist hún til Íslands og hefur starfað hér síðan bæði sem píanó- og fagottleikari. Judith starfar við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og hefur m.a. komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Bach-sveitinni í Skálholti og hljómsveit íslensku óperunnar.

EIRÍKUR Örn Pálsson trompetleikari, Sigurður Sveinn Þorbergsson básúnuleikari og Judith Pamela Þorbergsson píanóleikari.