"ENGINN HEGÐAR SÉR EINS OG HEDDA GABLER" EFTIR EINAR ÞÓR GUNNLAUGSSON Ibsen þróaði verkið og fléttaði örlög persónanna saman á þann hátt að ekki er um að villast; Hedda á að vera tragískt fórnarlamb aðstæðna sem draga það versta fram í henni.

"ENGINN HEGÐAR

SÉR

EINS OG HEDDA GABLER"

EFTIR EINAR ÞÓR GUNNLAUGSSON

Ibsen þróaði verkið og fléttaði örlög persónanna saman á þann hátt að ekki er um að villast; Hedda á að vera tragískt fórnarlamb aðstæðna sem draga það versta fram í henni. Aðstæðurnar eru misheppnað hjónaband, glötuð ást, kvennakúgun og smáborgaralegt yfirstéttarheimili.

ÁÐUR en leikritið Hedda Gabler hefst hefur m.a. þetta gerst. Hedda á í heitu ástarsambandi við Løvborg. Løvborg er óáreiðanlegur og Hedda giftist öðrum gegn eigin sannfæringu og tilfinn ingum. Hún giftist Tesman, og þau koma sér fyrir í glæsilegu húsi eftir hveitibrauðsdaga og Tesman ­ skuldum vafinn ­ gerir sér góðar vonir um prófessorsstöðu. Thea, gamall skólafélagi Heddu, elskar Løvborg líka og hún yfirgefur mann sinn fyrir hann. Hún gerir honum kleift að koma undir sig fótunum og semja tímamótaritverk.

Fljótlega eftir að leikritið hefst snýr Løvborg aftur til Heddu eftir langa fjarveru, hneykslaður yfir því að hún hafi gifst Tesman, lufsu sem hann er. Løvborg ætlar að keppa við hann um prófessorsstöðu, en hættir við. Handrit að bók Løvborg slær í gegn í akademíunni, en Løvborg týnir handritinu á filliríi áður en hún er gefin út. Tesman finnur handritið og Hedda felur það. Løvborg lýgur skömmustulega að Theu að hann hafi rifið handritið sjálfur og hent því í sjóinn. Thea er niðurbrotin. Hedda veit að hún og Løvborg fá aldrei að njótast þótt hún elski hann, og að hún er betur sett með Tesman, sérstaklega ef hann verður prófessor og kannski ráðherra. Hedda kveður Løvborg og gefur honum gamla skammbyssu föður síns að skilnaðargjöf. Þegar hann er farinn brennir hún handritið að bókinni hans. Seinna skýtur Løvborg sig með skammbyssunni. Allir eru harmi slegnir, sérstaklega Hedda þótt hún feli það vel.

Thea uppgötvar að hún á skissur og lauslegt uppkast Løvborgs að bókinni í fórum sínum, og hún og Tesman byrja að raða því saman svo eitthvað geti legið eftir Løvborg. Vinur Tesmans-hjónanna, dómarinn Brack, segir við Heddu að hann hafi þekkt byssu Løvborg hjá lögreglunni og að hægt sé að rekja hana til hennar ef hann kjafti frá. Hedda, sem nú er endanlega búin að tapa Løvborg og á nú auk þess yfir höfði sér borgaralegt hneyksli, unir því alls ekki að vera undir Brack dómara komin. Með nagandi samviskubit gefst hún upp, fremur sjálfsmorð, og hefur þar með drepið allt sem hún elskaði.

Að fá andann yfir sig

Heddu Gabler skrifaði Henrik Ibsen 1890, þótt ætla mætti að hann hafi gengið með verkið í maganum í tíu ár á undan. Hann hafði þá lokið við Konan við hafið árið áður sem taldist óvenju bjartsýnt af leikriti Ibsens að vera og þótti merki um uppgjörstón skáldsins við lífið og sjálfan sig. En svo var ekki. Einsog flest leikrit Ibsens er verkið einfalt og blátt áfram, og kringumstæðurnar sem Ibsen lauk við leikritið voru þessar; Sumarið 1889 eyddi Ibsen, þá 61 árs gamall, sumarfríinu sínu í Gossensass í Týrol og varð yfir sig ástfanginn af 18 ára stúlku, Emilie Bardach. Um haustið fór hann til Munchen og skrifuðust þau á fram eftir vetri, en Ibsen hætti að skrifa henni í byrjun árs 1890 þar sem hann var kominn í samband við aðrar konur. Samband hans við Emilie hinsvegar færði honum heim sanninn um það að frægð hans og orðspor gat laðað að konur 30 til 40 árum yngri en hann, þótt hann hafi líklega aldrei sofið hjá þeim og efast um líkamlega getu sína til þess. Sambandið opnaði hugsanlega nýjar víddir í sálarlífi Ibsens sem hafði lengi bælt tilfinningar sínar og ástríður, og gerði enn. Ibsen hafði sem ungur maður drukkið ótæpilega, barnað unga stúlku 16 ára gamall og átti í stöðugum vandræðum með sína eigin geðheilsu.

Afleiðing funda þeirra Emilie voru sætar minningar og stundir sem Ibsen fannst hann hafa misst af í lífinu, sem svo þýddi að nú tóku við ný dimmviðri og ólga í verkum hans. Í bréfi til Emilie skrifaði skáldið í október 1889; "Ímyndunarafl mitt er í miklum ham. Ég get ekki gleymt minningum sumarsins, allt það sem við gerðum upplifi ég aftur og aftur. En að færa það í ljóð á þessari stundu get ég ekki . . . " Nokkrum vikum síðar skrifaði hann henni; "Ég er mjög upptekinn við nýtt leikrit. Sit allan daginn við skrifborðið og fer ekki út fyrr en að kvöldi. Mig dreymir, ég rifja upp og skrifa."

Ekki er víst hvort Ibsen var þá að skrifa Heddu Gabler þótt nótur hans frá þessum tíma vísi til leikritsins. Verkið gekk hægt og illa framan af, eða þar til í október 1890 þegar hann kláraði bæði þriðja og fjórða þátt, og leikritið kom út hjá Gyldendal í Kaupmannahöfn 16. desember 1890.

Viðbrögð áhorfenda og gagnrýnenda í Skandinavíu og Þýskalandi voru flest á eina leið; " . . . ósannfærandi. Enginn hagar sér einsog Hedda Gabler, fáránlegt sjálfsmorð í lokin, sérviskuleg leikfimi Ibsens . . . ". Með öðrum orðum, engin virtist skilja leikritið og hugmyndir almennings á þessum tíma um kvenréttindi voru ekki til að hjálpa til. Áhorfendur í Stokkhólmi, Kaupmannahöfn og Berlín fussuðu, úuðu og búuðu, og sagt var að í Munchen hafi áhorfendur hlegið. Það var ekki fyrr en í London 1891 sem virtur gagnrýnendi, Henry James, lofaði verkið fyrir "new energy", og tók svo til orða; "Það skilur mann eftir hálfdofinn, ruglaðan í ríminu en þó heillaðan." Og þá hófust vangaveltur um hver Hedda væri.

Hver er Hedda Gabler?

Eina örugga svarið við þessu er að hún er hugarfóstur Ibsens. Ekki er vitað hvort hún hafi átt sér raunverulega fyrirmynd nema það að Emilie hleypti nýju blóði í skáldið og hefur hugsanlega verið fyrirmyndin í fyrsta uppkasti Ibsens. Lýsing hans á Heddu ber mjög saman við ljósmyndir af Emilie frá þessum tíma. Dimmur tónn og persónan Hedda er í samræmi við fyrri verk hans, þrjóskuleg og heft, lokuð inni í dýflissu borgaralegrar hefðar. Gagnrýnandi í London sagði Heddu vera sveitaútgáfu af Lady Macbeth (an evil genius), seinnitíma Ibsen spekúlantar töldu hana m.a. vera Emilie, báðar væru fallegar aristókratískar konur sem vissu ekki hvað þær ættu að gera við líf sitt nema að reyna að giftast sem réttast. Ibsen hafði hinsvegar haft hugmyndina að persónu Heddu sem fórnarlamb karlaveldis nokkuð lengi í kollinum, og áður en hann hitti Emilie ef marka má eldri glósur hans. Þar lýsir hann konu " . . . sem er að sökkva í pytt aðgerðarleysis og einmannakenndar, með hæfileika sem liggja ónotaðir". Ibsen hefur sjálfsagt hugsað til Emilie þegar hann skrifaði Heddu, ef hann hefur ímyndað sér líf þeirra beggja tíu árum síðar og örlög þeirra. Emilie dó 83 ára gömul (1955), án þess að upplifa neitt af sínum draumum, ein, ógift og barnlaus.

Norskur bókarýnir, Arne Duve, hafði aðrar og sálfræðilegri meiningar um Heddu, að hún væri í raun Ibsen sjálfur, að hún stæði fyrir hans eigið "innra" líf, flækt og snúið sem það gat orðið. Hann bendir á ójafnvægi Ibsens á unglingsárunum, ofsafengnar ástríður og sjálfsmorðstilhneigingar.

Aðrar persónur, svo sem Løvborg, og Tesman eiginmaður Heddu, eru tilbrigði við Ibsens eigið sjálf. Løvberg er líkt og skáldið á yngri árum, viljasterkur en ómarkviss drykkjusvoli og stendur fyrir tilfinningalíf Ibsens. Tesman stendur fyrir hið akademíska líf skáldins þar sem það er í meira jafnvægi.

Hedda elskar Heddu, en Løvborg líka ­ og það er gagnkvæmt. Þau elska sína eigin spegilmynd hvort í öðru og í speglinum sjáum við löngunina til að lifa munaðarlífi og vera frjáls. En það sem Hedda hræðist einna mest, hneyksli, stendur í vegi fyrir ástinni. (Sjálfur var Ibsen skelfingu lostin við tilhugsunina um að lenda í hneykslismálum.) Løvborg er hinsvegar hvergi banginn og drekkur frá sér allt vit á almannafæri þegar á móti blæs. (Einsog Ibsen hefur sjálfsagt líka verið til í.) Hedda giftist Tesman af öryggisástæðum einsog títt var með ungar konur í lok 19. aldar, en er of mikill persónuleiki fyrir eiginmann sinn og borgaralegar skyldur þeirra hjóna.

Ibsen hugsaði sér leikritið sem harmleik um tilgangsleysi lífsins, og þó sérstaklega tilgangsleysið og tilbreytingaleysið sem konur þurftu að búa við inná heimilum karlaveldis á þessum tíma. Um það er ekki að villast ef marka má skissublöð hans frá þessum tíma um konur; "Þær eru ekki allar skapaðar til að vera mæður ­ þær hafa allar ánægju af holdlegum lystisemdum, en eru of hræddar við skandal ­ þær gera sér grein fyrir því að lífið hefur tilgang, en þær geta ekki fundið hann ­ Konur hafa engin áhrif á opinber mál svo þær vilja hafa áhrif á einstaklinginn ­ konur og menn tilheyra ekki sömu öld ­ harmleikur lífsins er sá að margir hafa ekkert annað að gera en að dreyma um hamingju án þess að geta nokkurn tíma höndlað hana ­ Hedda er dæmigerð kona í þessari stöðu, hana dreymir . . . Løvborg hneigist til bóhemalífs sem Hedda þráir, en hún hefur ekki hugrekki til að stökkva" Og að lokum skrifar Ibsen; "Lífið, fyrir Heddu, er farsi sem er ekki þess virði að horfa á til enda."

Ef draga má einhverja ályktun af Heddu og innihaldi verksins er óhætt að segja að Ibsen trúði ekki á ástina sem drifkraft lífsins. Þjóðfélagið sjálft ræður líka hegðun ástarinnar.

Fyrirmyndir

Þegar Ibsen heimsótti Noreg 1885 hlýtur hann að hafa heyrt um hjónaband Sophie og Peters Groth. Peter giftist henni út á veglegan rannsóknarstyrk (líkt og Tesman) sem hann hafði fengið en hún var talin með snobbaðri konum landsins. Ibsen vísar í þrjár aðrar og litlar "sápu-óperur" í leikritinu. Þegar Ibsen var að skrifa Heddu leitaði til hans ungt og nýgift par sem sagði að hjónaband þeirra væri í hættu, því hann hefði verið dáleiddur af annarri konu, (líkt og Thea er dáleidd af Løvborg). Svo er það ólánið sem henti norska tónskáldið Johan Svendsen þegar kona hans, Sally, fann ástarbréf frá ungri konu falið í blómvendi á heimili þeirra. Hún brenndi nýjustu sinfóníu hans í ofsareiði, sem hann hefði rétt lokið við að skrifa og útsetja, (Hedda brennir handrit Løvborgs). Og loks heyrði Ibsen sögu af norskri konu og manninum hennar sem hafði sigrast á alkahólismanum eftir áratuga baráttu. Til að athuga hversu mikið vald hún hafði yfir honum, skreytti hún litla brandy-tunnu handa honum og skildi eftir í svefnherbergi þeirra á afmælisdegi hans. Og áður en dagur var liðinn að kveldi var hann orðinn haugafullur.

Ibsen sagði syni sínum, Sigurd, að Tesman væri byggður á Julius Elias, þýskum nema í bókmenntafræði sem Ibsen kynntist í Munchen. Elias hafði þá tegund af þráhyggju að þurfa sífellt að koma pappírum í röð og reglu og skipti þá engu hvort það voru hans eigin blöð eða annarra. Eftir að Ibsen var genginn féll það svo í verkahring Eliasar að koma skissum og glósum hans að ókláruðum verkum í skikkanlegt horf. Og Løvborg átti sér fyrirmynd í Berlín. Það var daninn Julius Hoffory, prófessor í málvísindum og hljóðfræði við Berlínarháskóla. Hæfileikaríkur en ævinlega í ójafnvægi, átti hann í frjálslegum samskiptum við yngri konur af lægri stéttum og týndi handriti að nýrri bók í einu svallinu. Hoffory þekkti sjálfan sig strax í Løvborg er hann sá Heddu Gabler á sviði í Berlín, hafði gaman af og tók nafn hans sem "fræðimanna"nafn. Nokkrum árum síðar átti hann við geðræn vandamál að stríða, náði sér aldrei að fullu og varð öllum gleymdur.

Hedda og nútíminn

Ibsen þróaði verkið og fléttaði örlögum persónanna saman á þann hátt að ekki er um að villast; Hedda á að vera tragískt fórnarlamb aðstæðna sem draga það versta fram í henni. Aðstæðurnar eru misheppnað hjónaband, glötuð ást, kvennakúgun og smáborgaralegt yfirstéttarheimli. Plottið spratt af persónum verksins sem einsog gengur tók ýmsum breytingum á meðan hann skrifaði það, m.a. þessar;

Í fyrsta uppkasti leikritsins er Hedda ekki ein um að axla ábyrgðina á dauða Løvborgs. Tesman veit af ákvörðun Heddu að fela/brenna handrit Løvborgs strax í 3ja þætti. Í seinna uppkasti veit hann ekki af ráðabruggi hennar fyrr en of seint, en hrífst þó af henni fyrir að brenna handritið. Tesman fær meiri sjálfsvirðingu í lokaútgáfu verksins, á kostnað Heddu sem virðist versna við hverja yfirferð. Það hinsvegar eykur á meðaumkun með henni að hún á von á barni, og í fyrstu drögum veit frænka Tesman af meðgöngu hennar. Í seinni drögum veit hún það ekki sem eykur á tilfinningalega einangrun Heddu og "frústrasjón", og við öðlumst örlítið meiri skilning og samúð með henni. Ibsen dregur hana æ meir inní örvæntingarfulla skel sem leiðir til sjálfsmorðs. Á einhverjum skissublöðum vildi Ibsen blanda fleiri siðferðilegum spurningu inní leikritið og lét Heddu segja; "Ég get ekki skilið hvernig nokkur getur orðið ástfangin af manni nema hann sé þegar giftur, eða allavega ástfanginn af einhverri annarri", og " . . . að taka einhvern frá annarri konu ­ það hlýtur að vera dásamlegt". Þessar hugsanir hefðu vel getað hent persónu Heddu en Ibsen tók þær réttilega út og geymdi fyrir seinni tíma verk. En Ibsen var orðið nógu þroskað skáld til að takmarka sig, fyrir honum var Hedda búin að taka tilfinningalega afstöðu gagnvart Løvborg og Tesman áður en leikritið hefst. Samkvæmt eðli hennar hugsar hún ekki svona, þrjóskari en andskotinn. Ef Hedda hefur bitið tryggðina í sig þá stendur hún trygg, dauð eða lifandi.

En hvað vill Hedda upp á dekk 1997? Sálir mannanna breytast ekki, það er þjóðfélagið sem breytist. Við göngum út frá því að við getum skilið Heddu eins og við getum skilið Guðrúnu Ósvífursdóttir eða Hallgerði, þótt Hedda sé vitaskuld uppspuni og meira í ætt við illmenni. Ibsen hafði einsog yngri samtímamaður hans, August Strindberg, lesið Íslendingasögurnar á frummálinu og skrifað dramatísk leikrit snemma á ferlinum undir áhrifum þeirra. (Helgalands víkingarnir). Bæði í nútímaverkum og í daglegu amstri er hægt að finna tragískar hetjur í misheppnuðum hjónaböndum, þar sem ástin er glötuð, kvennakúgun o.s.frv. Samfélagið fyrir 100 árum setur persónu Heddu í vanda. Þá kom viljastyrkur hennar ­ sem fékk ekki útrás ­ í raun fram sem veikleiki, í dag hefði hún haft önnur tækifæri og guð má vita hvað hún hefði tekið sér fyrir hendur. Það má því segja að Hedda sé ekki einungis persónusköpun ­ og afþreying sem slík ­ heldur líka söguleg heimildarmynd.

Gagnrýni

Í sjónvarpsuppfærslu sænska sjónvarpsins sem sýnt var í ríkissjónvarpinu í nóvember sl. er leikritið nokkuð klippt og skorið, og sjálfsagt til hins góða fyrir miðilinn. Eitt er þó sem hefur nokkra þýðingu fyrir innihald verksins. Hedda, einsog áður segir, hafði áhuga á bóhemlífi Løvborgs. Í sjónvarpsútsetningunni kemur þessi áhugi minna fram en í upprunalega leikritinu. Þar biður Hedda hann t.d. um að lýsa lífinu á gleðihúsi Díönu og vill vita hvað fólk aðhefst. Hún vill lifa það í gegnum hann, og það að Løvborg skuli skjóta sig á gleðihúsinu fær aðra merkingu. Auk þess var síðustu línu leikritsins sleppt, nefnilega setningu Bracks dómara eftir að Hedda hefur skotið sig; "Svona gerir fólk ekki". Hugsanlega hefur Ibsen verið að skjóta á "fyrirsjáanleg" viðbrögð norskra áhorfenda. Nóg um það.

Þótt leikritið hafi fengið dræmar móttökur á sviði í Evrópu framan af hefur það í seinni tíma orðið eitt af vinsælustu verkum Ibsens. Eftir aldamótin 1900 fékk það hverja uppsetninguna á fætur annarri í New York og fleiri fylgdu á eftir í Washington og síðar í Evrópu. Yfirleitt var gagnrýni jákvæð. Einn var sá gagnrýnandi sem sló alla aðra út, en það var August Strindberg, rithöfundur sem Ibsen hafði mikið álit á. Strindberg var þá nýskilinn við finnska barnsmóður sína og eiginkonu, Siri von Essen, sem hafði haldið við danska konu, Marie David. Þær stöllur bjuggu saman með börnum þeirra Strindbergs og var Strindberg lengi í uppnámi útaf því. Auk þess að vera "paranoid" persónuleiki, var hann síblankur og með öllu "misskilinn og ofsóttur" í heimalandi sínu. Í bréfi til kunningja síns, sænska málarans Karls Nordström í mars 1891 segir Strindberg og var mikið niðri fyrir; "Fyrir tveim árum er ég var á leið heim til Svíþjóðar hitti ég herra og frú Lange í Malmö og sagði þeim frá ástandi mínu . . . Hedda Gabler er byggð á því! Og það er augljóst að Ibsen hefur hnoðað þessu saman eftir kjaftasögum . . . hvernig geta hæfileikar manns verið eyðilagðir vegna þess að hann dettur í það, dólgast og slæst við lögguna? (Løvborg) . . . og núna virðist sleðinn hafa látið mig hafa skammbyssuna. En skíturinn hans á eftir að endurkastast í hann sjálfan. Því ég mun lifa hann og marga aðra, og þegar Faðirinn drepur Heddu Gabler, þá er ég kominn með byssuhlaupið í hnakkadrambið á honum!

Strindberg talaði og skrifaði oft svona um Ibsen og leikrit hans. Hann hafði þremur árum áður lokið við leikrit sitt, Föðurinn, og vændi Ibsen um að byggja Heddu á einni aðalpersónu verksins, Lauru. Hún sá m.a. til þess að geðþekkur heimilisfaðirinn endaði í spennitreyju, en það er önnur Ella.

Höfundur er kvikmyndagerðarmaður.

HELGA Bachmann í hlutverki Heddu Gabler í sýningu Leikfélags Reykjavíkur 1968. Með henni á muyndinni er Helgi Skúlason í hlutverki Ejlerts Lövborg. NORSKA leikkonan Gerd Grieg í hlutverki Heddu Gabler í uppfærslu Leikfélags Reykjavíkur 1942.