HEIMAEY VE 1 rak upp í fjöru í ofsaveðri skammt vestan við Hólsárósa á Þykkvabæjarfjöru, austan við Þjórsárós, í febrúar árið 1981. Varð skipsskaðinn þá rétt austan við þann stað þar sem Vikartindur strandaði. Tveir skipverjar féllu fyrir borð um það bil sem Heimaey rak inn í brimgarðinn. Hinum skipverjunum sjö tókst að bjarga.
Heimaey VE strandaði á svipuðum slóðum og VikartindurHEIMAEY VE 1 rak upp í fjöru í ofsaveðri skammt vestan við Hólsárósa á Þykkvabæjarfjöru, austan við Þjórsárós, í febrúar árið 1981. Varð skipsskaðinn þá rétt austan við þann stað þar sem Vikartindur strandaði.

Tveir skipverjar féllu fyrir borð um það bil sem Heimaey rak inn í brimgarðinn. Hinum skipverjunum sjö tókst að bjarga.

Í frétt Morgunblaðsins af slysinu er haft eftir skipstjóranum á Ölduljóninu að veðrið hafi verið ólýsanlegt ofsaveður og 16­18 vindstig. Þrisvar sinnum hafi leiðara verið komið yfir í Heimaey en skipverjar misst af honum.

Þýskt flutningaskip

Rúm 13 ár eru frá því að þýska flutningaskipið ms. Kampen frá Hamborg fórst á leið til landsins þann 1. nóvember árið 1983. Sex mönnum af áhöfninni var bjargað en sjö fórust eftir að skipið sökk um 22 sjómílur austsuðaustur af Dyrhólaey. Þýsku skipbrotsmennirnir náðust um borð í nærstödd fiskiskip með aðstoð björgunarsveitar varnarliðsins, sem sendi tvær þyrlur og eina Hercules-vél á slysstaðinn að beiðni Slysavarnafélagsins.

Ms. Kampen hafði verið sjósett í janúar árið 1983 og var burðargeta þess 6.150 tonn, stærsta flutningaskip, sem þá hafði farist við Ísland. Það hafði verið í leigu hjá Eimskipafélagi Íslands frá því í september og var leigt til tímabundinna flutninga á vikri, brotajárni og kolum.