Eftir Max Frisch. Íslensk þýðing eftir Þorvarð Helgason. Leikarar: Sveinn Kjarval, Sunna Mímisdóttir, Ólafur Egill Egilsson, Hulda Dögg Proppé, Esther Talía Casey, Finnur Þór Vilhjálmsson, Baldvin Þór Bergsson, Sólveig Guðmundsdóttir, Hlynur Páll Pálsson, Maríanna Clara Lúthersdóttir, Þorsteinn B.
Gyðingur verður til LEIKLIST Herranótt ANDORRA Eftir Max Frisch. Íslensk þýðing eftir Þorvarð Helgason. Leikarar: Sveinn Kjarval, Sunna Mímisdóttir, Ólafur Egill Egilsson, Hulda Dögg Proppé, Esther Talía Casey, Finnur Þór Vilhjálmsson, Baldvin Þór Bergsson, Sólveig Guðmundsdóttir, Hlynur Páll Pálsson, Maríanna Clara Lúthersdóttir, Þorsteinn B. Friðriksson, Fanney Stefánsdóttir, Steinþór Steingrímsson, Lovísa Árnadóttir, Gísli Jóhannsson, Logi Viðarsson, Sigurður Þór Snorrason, Bjarki Hvannberg, Hulda Axeldóttir og Ólafur Björn Ólafsson. Leikstjórn: Magnús Geir Þórðarson. Listræn hönnun: Sigurður Kaiser Guðmundsson. Tónlist: Ólafur Björn Ólafsson. Búningar: Þóra Jónsdóttir og fleiri. Tjarnarbíó 7. mars. ÞAÐ ERU tæplega áttatíu manns sem eru taldir upp í leikskrá sem koma á einn eða annan hátt að þessari sýningu Herranætur, leikfélags Menntaskólans í Reykjavík, og ber þessi mikli fjöldi vel vitni þeim metnaði og miklu vinnu sem lögð er í sýninguna. Ekki er hægt að gera skil öllum þeim einstaklingum sem hér hafa lagt hönd á plóg, en ég vil byrja á því að vekja athygli á vinnu margra ónefndra nemenda sem snýr að gerð leikmyndar, búninga og annarra þeirra þátta sem heyra til umgjörð leiksýningarinnar. Þessi vinna er öll óvenju glæsileg af menntaskólaleikfélagi að vera. Það er reyndar atvinnumaður, Sigurður Kaiser Guðmundsson, sem er skrifaður fyrir listrænni hönnun sýningarinnar, en útfærslan, svo sem smíðar og þess háttar, er í höndum nemenda. Þessi vinna er svo fagleg og vel gerð að aðdáun vekur. Sviðsmyndin og tæknileg útfærsla á notkun hennar myndi sóma sér vel í hvaða atvinnuleikhúsi sem er. Herranótt valdi, í samráði við leikstjóra sinn, Magnús Geir Þórðarson, leikrit svissneska rithöfundarins Max Frisch, Andorra, og rökstyður leikstjóri valið í leikskrá m.a. með þeim orðum að leikritið eigi "sérstakt erindi við Íslendinga vegna þess hve skýr samsvörun er á milli fyrirmyndarríkisins Andorra og Íslands. Fjallað er um bjargleysi lítillar þjóðar sem hefur sakleysið eitt að vopni. Ef því er glatað er viðbúið að fyrirmyndarríkið falli." Það má til sanns vegar færa að á þessu "plani" verksins má finna samsvaranir á milli Íslands og hins ímyndaða Andorra. Engu að síður virka mörg önnur atriði leikritsins fremur framandi á íslenskan áhorfanda. Hér má nefna hinn leynda uppruna Andra, svo og daglega lifnaðarhætti Andorrabúa. Ofsóknir meirihluta á hendur minnihluta, á hendur þeim sem er "öðruvísi" er svo sannarlega vandamál sem heimurinn á í heild við að glíma í dag. Að þessu leyti hefur verk Max Frisch ágengan boðskap fram að færa. Verkið fjallar á spennandi hátt um það hvernig "hinn" (sá sem er öðruvísi, hér: gyðingur) verður til; hvernig samfélag manna smíðar sér utangarðsmenn svo listilega að utangarðsmennskan verður órjúfanlegur hluti af þeim einstaklingi sem hefur hlotið þau örlög að alast upp í því hlutverki. Svo órjúfanlegur að því verður ekki breytt þrátt fyrir að "sannleikurinn" komi í ljós og sé annar en sá sem haldið hefur verið. Það er menntskælingurinn Sveinn Kjarval sem fer með hið erfiða hlutverk Andra í þessari sýningu. Sveinn gerir margt vel og sýnir okkur utangarðsmennsku Andra á sannfærandi hátt. Helst var að finna mætti að framsögn hans, sem von og vísa er hjá óreyndum leikurum. Systur hans Barblin leikur Sunna Mímisdóttir og túlkaði hún vel sakleysi stúlkunnar. Samleikur þeirra var einnig ágætur. Faðir þeirra er leikinn með tilþrifum af Ólafi Agli Egilssyni og var eftirtektarvert hversu góða framsögn hann hafði. Ekkert sem hann sagði fór fram hjá áhorfendum. Sama má segja um Ester Talíu Casey í hlutverki senjorunnar, Sólveigu Guðmundsdóttur í hlutverki gestgjafans og Maríönnu Clöru Lúthersdóttur í hlutverki læknisins. Mörg minni hlutverk voru í ágætum höndum leikglaðra nemenda og í heild náði hópurinn vel saman. Einhverjar styttingar hefur leikstjóri gert á verkinu, en þær hefðu að ósekju mátt vera fleiri. Sýningin er löng og nokkuð langdregin, sérstaklega fyrir hlé. Eftir hlé var hraðinn meiri og sýningin öll lífmeiri. Þar hjálpaði einnig skemmtileg notkun á sviðsmyndinni, eins og áður er sagt. Nemendur MR geta verið ánægðir með þetta framlag sitt til blómstrandi leiklistarlífs á Íslandi í dag. Sýningin ber vitni miklum metnaði, áhuga og krafti sem smitar út frá sér til áhorfenda á endanum. En fyrir alla muni reynið að byrja á auglýstum sýningartíma! Tjarnarbíó býður ekki upp á biðsal fyrir áhorfendur. Soffía Auður Birgisdóttir

Morgunblaðið/ Árni Sæberg ATRIÐI úr sýningu Herranætur.