FERÐALAG félaga í Hjálparsveit skáta úr Garðabæ á gönguskíðum frá Fonti á Langanesi á Reykjanestá gengur að óskum. Göngugarparnir lögðu af stað frá Fonti laugardaginn 22. mars og gera ráð fyrir að vera komnir á leiðarenda á þriðjudag eða miðvikudag í næstu viku. Leiðangursmenn héldu af stað fimm saman en einn heltist úr lestinni vegna eymsla í hnjám.
Skátar fara á gönguskíðum þvert yfir landið Frá Fonti til Táar

Vaðbrekku, Jökuldal.

FERÐALAG félaga í Hjálparsveit skáta úr Garðabæ á gönguskíðum frá Fonti á Langanesi á Reykjanestá gengur að óskum. Göngugarparnir lögðu af stað frá Fonti laugardaginn 22. mars og gera ráð fyrir að vera komnir á leiðarenda á þriðjudag eða miðvikudag í næstu viku.

Leiðangursmenn héldu af stað fimm saman en einn heltist úr lestinni vegna eymsla í hnjám. Jafnvel er þó von á að hann sláist í hópinn aftur. Þeir draga farangurinn á eftir sér á skeljum og er ækið 40-50 kíló hjá hverjum þeirra. Eftir fjögurra daga göngu frá Fonti var leiðangurinn staddur við brúna yfir Jökulsá á Fjöllum við Grímsstaði.

Bóndinn gekk úr rúmi

Að sögn leiðangursmanna hafði ferðin gengið vel til þessa, og höfðu þeir notið frábærrar gestrisni Þórshafnarbúa eftir átta tíma göngu utan af Fonti til Þórshafnar. Nóttina áður höfðu þau gist hjá Ragnari Guðmundssyni á Nýhól og notið gestrisni hans með veislukosti, einnig gekk Ragnar úr rúmi og svaf sjálfur í eldhúsinu svo leiðangursmenn gætu allir sofið í rúmi.

Nýhóll á Fjöllum er síðasta byggða bólið sem leiðangursmenn gista áður en lagt er á hálendið. Á hálendinu verður gist í fjallaskálum, en einnig hafa leiðangursmenn með sér tjöld til að gista í.

Ætluðu yfir Langjökul í gær

Magnús Smith, félagi í Hjálparsveit skáta í Garðabæ, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að sennilega væri þetta lengsta skíðaganga sem farið hefði verin hér á landi.

Hann var í símasambandi við ferðalangana í fyrrakvöld og voru þeir þá staddir á Hveravöllum. Í gær voru þeir komnir í Fjallkirkjuskála við Langjökul og ætluðu að halda yfir jökulinn ef vindátt yrði hagstæð. Næsti áfangastaður er skálinn Slunkaríki við Hlöðufell, þá Skógarhólar við Þingvelli, Lækjarbotnar og Krísuvík. Ef allt gengur að óskum lýkur leiðangrinum á Reykjanestá á þriðjudag eða miðvikudag í næstu viku.

Morgunblaðið/Sigurður Aðalsteinsson LEIÐANGURSMENN í skíðagönguferðinni "frá Fonti til Táar", Ólafur Jónsson, Stefán Gunnarsson, Eyrún Björnsdóttir, Daði Þorbjörnsson og Guðmundur Birgisson koma að brúnni yfir Jökulsá á Fjöllum en þar þurfti að stíga af skíðunum og draga farangursskeljarnar yfir brúna.