FJÖGUR ungmenni úr Hjálparsveit skáta í Garðabæ gengu síðastliðna 17 daga frá Fonti á Langanesi yfir landið og lauk ferðinni á Reykjanestá síðdegis í gær, en þá höfðu þau lagt að baki hátt í 700 kílómetra. Upphaflega voru göngugarparnir fimm, fjórir piltar og ein stúlka, en gömul meiðsl tóku sig upp í hné hjá einum piltanna svo hann varð að hætta göngunni.
Göngu frá Fonti

til Táar lokið

Grindavík. Morgunblaðið.

FJÖGUR ungmenni úr Hjálparsveit skáta í Garðabæ gengu síðastliðna 17 daga frá Fonti á Langanesi yfir landið og lauk ferðinni á Reykjanestá síðdegis í gær, en þá höfðu þau lagt að baki hátt í 700 kílómetra.

Upphaflega voru göngugarparnir fimm, fjórir piltar og ein stúlka, en gömul meiðsl tóku sig upp í hné hjá einum piltanna svo hann varð að hætta göngunni. Þau gengu á skíðum stóran hluta leiðarinnar og gátu stundum notað lítið segl til að renna undan vindi en oftar en ekki var mótvindur.

Síðasta hluta leiðarinnar gengu þau í gær frá skátaskálanum við Kleifarvatn í suðaustan rigningarsudda áleiðis út á Reykjanes og voru skíðin skilin eftir við Kleifarvatn. Komið var við í Grindavík, þar sem tækifærið var notað til að fá sér vænan hamborgara.

Þau Stefán Gunnarsson, Eyrún Björnsdóttir, Ólafur Jónsson og Daði Þorbjörnsson luku svo göngunni rétt fyrir kvöldmat suður á Reykjanestá og tóku foreldrar og félagar á móti þeim með flugeldasýningu.

Morgunblaðið/Kristinn Benediktsson