AÐ EIGNAST barn er það yndislegasta sem til er í þessum heimi. Allir gleðjast hvað vel tekst til þegar heilbrigt barn fæðist því það er lífshættulegt að fæðast. Ekki hafði mig grunað hve algengt það er að nýburar séu lagðir inn á vökudeild Barnaspítala Hringsins til aðhlynningar. Að þessu komst ég þegar ég eignaðist stúlku 22. nóvember 1996. Hún kom eftir 27 vikna meðgöngu og vó 835 g.
Börnin okkar ­ framtíðin er þeirra

Guðnýju S. Magnúsdóttur:

AÐ EIGNAST barn er það yndislegasta sem til er í þessum heimi. Allir gleðjast hvað vel tekst til þegar heilbrigt barn fæðist því það er lífshættulegt að fæðast. Ekki hafði mig grunað hve algengt það er að nýburar séu lagðir inn á vökudeild Barnaspítala Hringsins til aðhlynningar. Að þessu komst ég þegar ég eignaðist stúlku 22. nóvember 1996. Hún kom eftir 27 vikna meðgöngu og vó 835 g.

Eiginmaður minn fékk tækifæri til að skoða deildina áður en stúlkan okkar fæddist og fékk síðan í hendur upplýsingabækling um vökudeildina. Þar kemur fram að deildin hafi rými fyrir 14 börn alls, en þar sem ekki er hægt að stjórna veikindum er deildin mjög oft svo yfirfull að stundum er allt að því tvöfaldur sá fjöldi sem deildinni er ætlað að rúma. Ekki er nú mikið rými sem hvert barn fær. Það er pláss fyrir hitakassa barnsins og síðan getur foreldri setið á stól við kassann og þá er næsti kassi í bakinu á manni. Ekki myndi ég bjóða í það ef báðir foreldrar allra barnanna á deildinni væru í heimsókn á sama tíma. Það myndi ekki ganga upp því þá væri ekki pláss fyrir starfsfólk að athafna sig. Því hefur hjúkrunarfólkið raðað börnunum á tvo gjafatíma og því dreifast heimsóknartímar foreldra betur.

Oft er verið að koma með alls konar tæki þarna inn t.d. röntgenmyndavélar, sónartæki og heilalínurit sem erfitt er að koma með inn á deildina vegna þrengsla en samt verður svo að vera þar sem þessi börn eru oft tengd við súrefni eða eru viðkvæm og geta því ekki verið á flakki um spítalann. Þegar verið er að taka röntgenmyndir eru foreldrar barna í nærliggjandi hitakössum beðnir að færa sig um set vegna geislunar ­ en hvað með börnin sem liggja á deildinni, þau eru á sínum stað.

Foreldrar sætta sig við aðstæður sem þessar, en verra er að þetta er starfsaðstaðan fyrir lækna og hjúkrunarfólk. Mér finnst alveg með ólíkindum hvaða árangri það nær og hvað það er yndislegt og þolinmótt að vinna við slíkar aðstæður. Það á betra skilið og það eiga börnin okkar líka.

Kvenfélagasamband Gullbringu- og Kjósarsýslu er að fara af stað með merkjasölu til styrktar barnaspítalasjóði Hringsins og vonast ég til að aðrir foreldrar taki vel á móti þessum fórnfúsu konum sem vinna óeigingjarnt starf í þágu velferðar barna okkar.

GUÐNÝ S. MAGNÚSDÓTTIR,

foreldri barns á vökudeild.

LILJA Ósk Hilmarsdóttir vó aðeins 835 grömm við fæðingu, en á myndinni er hún orðin 1.240 grömm. Hún er enn á vökudeild.