Flestir hafa einhverntímann spurt sjálfa sig: "Er ég að verða vitlaus?" Oftast í gríni en stundum í alvöru. Í harmleik Strindbergs, Föðurnum, er þetta lykilspurningin. Faðirinn er stuttur og einfaldur með afgerandi persónum þar sem "ástin er stríð á milli kynjanna". Vopnin eru afbrýði, öfund og margt, margt fleira, en þó mest áberandi, efinn.

"REIÐIN

ER STERKUST

TILFINNINGA"

EFTIR EINAR ÞÓRGUNNLAUGSSON

Faðirinn er þekktasta leikrit Strindbergs og hefur beina tilvísun í sambúð skáldsins og Siriar von Essen. Þau giftust fyrir réttum 100 árum, en sambúðin var stormasöm og skilnaður þeirra eftir 14 ár var

heiftarlegur.

Flestir hafa einhverntímann spurt sjálfa sig: "Er ég að verða vitlaus?" Oftast í gríni en stundum í alvöru. Í harmleik Strindbergs, Föðurnum, er þetta lykilspurningin. Faðirinn er stuttur og einfaldur með afgerandi persónum þar sem "ástin er stríð á milli kynjanna". Vopnin eru afbrýði, öfund og margt, margt fleira, en þó mest áberandi, efinn. Önnur aðalpersónan, Lára, talar í gátum og sáir fræi efans í huga eiginmanns síns ­ höfuðsmannsins ­ um faðerni barns þeirra, og efinn knýr hann loks til að spyrja sig: "Er ég að verða vitlaus?"

Þetta er leikrit um hjónaband sem hefur beina tilvísun í líf Strindbergs og fyrstu sambúð hans, og fyrirmyndin að Láru er greinilega fyrrum eiginkona hans, Siri von Essen. Það er augljóst þótt margir Strindberg gagnrýnendur í 100 ár segi að Siri hafi aldrei verið eins illvilja og Lára, og að persónusköpum hennar sé vitnisburður um kvenfyrirlitningu. Strindberg er fyrirgefið flest einsog öðrum snillingum, hann bar flest einkenni þeirra, fjölhæfni, afkastagetu, ofurnæmni, hann var gerður útlægur, síblankur, þjáðist af "paranoiu", og barðist við að halda geðheilsu sinni um skeið. Siri var sjálf talin einföld, heiðarleg og trygg.

Það sem skiptir mestu máli fyr ir framvindu verksins er ofurást hjónanna á unglingsdóttur þeirra Bertu. Þau sjá sál sína og framtíð ­ ekki dótturinnar ­ speglast í augum hennar. Í upphafi leikritsins sitja höfuðsmaðurinn og presturinn saman í stofunni (allt verkið gerist í einni stofu), ræða slæmt heimilisástand og deilur á milli þeirra hjóna svo og hvað barninu þeirra sé fyrir bestu. Hann vill senda hana í borgina, Lára vill halda henni heima frá ósiðum og sukki. Á heimilinu búa auk þeirra, fóstra hans, tengdamamma og vinnuhjú. Vinnumaður á heimilinu er kallaður inn vegna gruns um að hafa barnað vinnukonuna, en neitar sakargiftum og segir annan mann hafi verið með henni og hann geti ekki tekið á sig ábyrgð hans til dauðadags.

Í fyrsta hluta kynnumst við bæði dómsvaldi höfuðsmannsins á heimilinu og hugmyndinni um "vafasamt faðerni" er líka komið á framfæri. Þá deila höfuðsmaðurinn og Lára ­ enn einu sinni ­ um hvað barninu sé fyrir bestu. Hún dregur í efa fjárreiður heimilisins og getu hans til að standa sig sem fyrirvinna. Þrátt fyrir að hún hafi sín ráð, fer ekki á milli mála að hann er húsbóndinn á heimilinu. Nýr læknir staðarins kemur í heimsókn og Lára lýgur strax í hann, að höfuðsmaðurinn sé ekki með "fulle fem", segir hann með kaupæði, ímyndi sér að hann sjái líf og málma á öðrum plánetum í gegnum smásjá o.fl. Næst hittir höfuðsmaðurinn lækninn og er ekki vel við hann, þótt læknirinn reyni allt til að vera bæði hlutlaus og fordómalaus. Þá eiga höfuðsmaðurinn og fóstra hans samtal þar sem hann segir hana einu konuna á heimilinu sem enn sé hægt að treysta. Berta, dóttir þeirra Láru, kemur á sviðið og það er greinilega bæði ást og skilningur á milli hennar og föðurins. Hún er sammála honum, hún vill fara í borgina. Í lok fyrsta þáttar segir Lára höfðusmanninum að hann sé ekki faðir Bertu, að hann eigi ekkert tilkall til hennar og að hann hafi fram að þessu verið fyrirvinna heimilisins á fölskum forsendum. Höfuðsmaðurinn missir bæði matarlyst og hluta af geðheilsu sinni við þessi tíðindi. Hann hverfur út í myrkrið í fullum herklæðum.

Í öðrum þætti heldur Lára áfram að sannfæra hann, lækninn og aðra heimilismeðlimi um að höfuðsmaðurinn sé ekki heill á geði og að hann ímyndi sér nú m.a. að Berta sé ekki dóttir hans. Læknirinn spyr höfuðsmanninn aftur út í sitt lítið af hverju til að reyna að komast að hinu sanna um geðheilsu á heimilinu, en höfuðsmaðurinn er þegar kominn með snert af "paranoiu", efast um faðerni barns sín og hlutleysi allra, m.a. læknisins, fóstrunnar og tengdamóður sinnar.

Tilraun hans til að ná skynsamlegri niðurstöðu með Láru áður en deila þeirra eitrar of mikið út frá sér fer út um þúfur þegar Lára segir honum að hlutverki hans sem illnauðsynlegs föður og fyrirvinnu sé lokið. Hún fullyrðir að hún geti látið svipta hann lögræði vegna bilunar og þau geti lifað á eftirlaunum hans. Höfuðsmaðurinn missir stjórn á skapi sínu og hendir í Láru lampa sem virkar sem staðfesting á því fyrir heimilisfólk að hann sé búinn að missa vitið, orðinn ofbeldishneigður í ofanálag og hættulegur umhverfi sínu. Í þriðja þætti er Lára með heimilið á sínu valdi. Undir lokin er það aðeins spurning um tæknilega úrvinnslu hvernig eigi að setja "föðurinn" í spennitreyju, og verkið endar á því að höfuðsmaðurinn fær hjartaáfall og deyr í spennutreyjunni. Í uppbyggingu lýtur leikritið sömu lögmálum og lögguþáttur. Vandamál kemur upp strax í byrjun, grunsemdir fara á kreik og rannsókn hefst, sökudólgur er einangraður, dæmdur og handjárnaður. Dramans vegna verður það að vera svona.Strindberg segist hafa skrifað leikritið á þremur vikum. Það var nokkru fyrir skilnað hans við Siri. Siri von Essen var finnsk, myndarleg, með liðað fallegt hár, dökkblá augu, skarpar kinnar og strákslegt andlit. Hún naut þess að fara í útilegur og elskaði hesta og útreiðar. Um fyrsta fund þeirra á götu í Stokkhólmi 1875 orti Strindberg: Inn í anddyri sjoppunnar / ryðlituð silki blússa þín / litlir hælar tipla þar til þeir þagna / og ég elti þig inn.

Þau litu ekki á hvort annað sem tilvonandi elskhuga fyrr en seinna. Siri var enn gift þjóðþekktum eiginmanni sínum, Baron Carl Gustaf Wrangel og áttu þau eitt barn. Baróninn var áhugamaður um leikhús og þekkti verk Strindbergs. Hann var hinsvegar ástfanginn af annarri konu, og aðeins tímaspursmál hvenær þau Siri myndu skilja. Hugur hennar stóð líka til leiklistar, og Strindberg sem vissi af metnaði hennar hvatti hana einnig til að skrifa. Hún bað hann um ráð og hann svaraði í júní 1875: ". . . Að skrifa er einfaldlega að muna. Rifjaðu upp lítið atvik úr lífi þínu. Einangraðu það. Athugaðu hvort það hafi upphaf og endi, fyrst og fremst endi. Maður verður að vita hvert stefnir. . ." Og seinna skrifaði hann til hennar: "Ef þú verður reið, þá fær stíll þinn ákveðinn lit, því reiðin er sterkust tilfinninga. Þú segir að þig vanti menntun. Guð bjargi okkur frá rithöfundum sem endurvinna það sem þeir hafa lesið í öðrum bókum. Það eru leyndarmál fólksins sem við viljum fá að vita."

Strindberg og hún fóru að hittast leynilega á kaffihúsum snemma árs 1876 áður en hún skildi við baróninn. Um vorið játaði hann henni ást sína, í júni skildi hún við baróninn eftir beiðni hans vegna hugsanlegs framhjáhalds hennar með Strindberg og slæms orðstírs fyrir mann af aðalsættum. Aðdragandi skilnaðarins litaði tilhugalíf þeirra nokkuð. Mál Siriar og barónsins var altalað bæði í Stokkhólmi og Helsinki. Siri fór til Kaupmannahafnar til að reyna fyrir sér sem leikkona en baróninn hafði alltaf verið því mótfallinn því það sæmdi ekki eiginkonu baróns. Þegar kjaftasögur í blöðum og "kreðsum", þvert á landamæri Norðurlandanna um ástarmál þeirra hjóna og Strindbergs náðu hámarki, gat móðir Siriar ekki setið á sér. Hún bað baróninn að koma til Kaupmannahafnar og ná í Siri áður en hneyksli myndi eyðileggja feril dóttur sinnar. Strindberg hélt kyrru fyrir í Stokkhólmi og lét kjaftasögur dagblaða lítið á sig fá og baróninn fór hvergi.

Í bréfi sem Siri skrifaði í Kaupmannahöfn til Strindbergs þetta vor sagði hún: ". . .Ó, guð hvað ég þjáist . . . hef ég tekið ranga ákvörðun? Er þetta synd? Hvers vegna elskaði hann mig ekki, hann sem var eiginmaður minn, var það ekki skylda hans? Er það guðs vilji að við, aðeins við, elskum hvort annað. Ég held að ég elski hann ennþá, já, ég geri það og þig líka ­ hvers vegna get ég ekki elskað ykkur báða?" Nokkrum dögum seinna skrifaði hún aftur: "Ég verð að fá þig ef ég á að lifa þetta helvíti af. Komdu til mín . . . og skrifaðu hér." Strindberg svaraði henni með ástarbréfum, en þau voru treg til að hittast, í fyrstu a.m.k. á meðan öldurnar var að lægja. Í lok árs 1877 giftust þau og þótt sambúð þeirra hafi verið stormasöm á stundum, gat Siri seinna lyft glasi og skálað fyrir sjö ára hamingjusömu hjónabandi. Hann sagði oft í bréfum að hamingja þeirra væri sem hjá nýgiftum. Þau lifðu mestallan tímann erlendis, aðallega í Sviss og Frakklandi og eftir 14 ára sambúð áttu þau saman þrjú börn en misstu eitt.

Skilnaður þeirra var heiftarlegur og blandaðist danska stúlkan og fjölskylduvinurinn Marie David inní málið. Hún átti eftir að verða svarinn óvinur Strindbergs sem sakaði hana um að rægja sig, drekka óhóflega og hafa slæm áhrif á Siri og börnin. Sambandi þeirra Marie og Siriar hefur verið gefinn lesbískur undirtónn sem er aðallega kominn frá Strindberg sjálfum, en Karin elsta dóttir þeirra, sagði í endurminningum sínum að það væri uppspuni. Karin ber Marie mjög vel söguna, sem og móður sinni, enda var Marie mikið með börnum þeirra og unni þeim. Hún sagði hinsvegar um Marie að hún hafi sótt í félagskap kvenna, því hún væri "markeruð" fyrir lífstíð vegna ástar sinnar á manni sem hún ekki fékk, og gæti aldrei elskað annan.

Marie fór ung á flæking eftir að fjölskylda hennar flosnaði upp í kjölfar gjaldþrots föður hennar. Þegar allt lék í lyndi hjá Strindberg- hjónunum var hún góður gestur á heimili þeirra í Sviss. Sænskum gestum í matarboðum og veislum þeirra fannst þær stöllur þó vera frekar óheflaðar. Einn úr sænska samfélaginu í Sviss sagði: ". . .það er eitthvað frumstætt og óaðlaðandi við þær. Allt þeirra orð og æði býr yfir fyrirlitningu á hinu hefbundna, hvað svo sem það er. Á hefðum og venjum sem milljónir manna hafa tekið í sátt. Og fyrir þeim, einsog fyrir herra Strindberg, er allt hefðbundið. Að ímynda sér að vera giftur slíkri konu! . . . og frú Strindberg reynir að líkjast henni. . . . Frú Strindberg var frekar óaðlaðandi, reykti vindla, leit út fyrir að vera drukkin. Hún heimtaði að fá að syngja. Þegar hún byrjaði, stóð Strindberg upp og fór."

Þegar þetta var skrifað voru fáein ár síðan konur fengu t.d. inngöngu í enska háskóla og enn var þeim meinað að taka að sér mikilvægar stöður í samfélaginu. Margar efnaðri fjölskyldur sáu ekki ástæðu til að kosta menntun dætra sinna nema til að gera þær "aðgengilegri" fyrir menn. Þá var ráðinn einkakennari til að kenna þeim lítið eitt í bókmenntum og listum, eitt til tvö tungumál, dans og svo vitaskuld útsaum. Að drekka, syngja hátt og vaka fram eftir öllu var "skandalisering". Strindberg var ekki aðeins fylgismaður kvenfrelsis heldur hvatamaður, í "teoríu" í það minnsta, og hafði gaman af stelpum í buxum sem drukku vín af stút. Hvað tilfinningalega afstöðu Strindbergs varðar er önnur saga. Bernska hans var ekki mikill gleðigjafi, faðir hans gjaldþrota með tólf börn á framfæri og tilheyrandi fátækt. Strindberg, fæddur fyrir tímann, háði harða samkeppni við systkini sín um ást móður þeirra og fannst honum vera hafnað af henni. Hann sættist aldrei við föður sinn og hæddist að giftingu eldri bróður síns Axel. Fleira í þeim dúr lifði skáldið með. Draugar æskunnar fylgdu honum og hann var illa í stakk búinn til að takast á við vandamál sem upp komu í samkiptum við frjálslyndar konur á heimili hans, sem drukku af stút. Honum fannst þær tileinka sér sínar hugmyndir um kvenfrelsi, og beita þeim svo gegn sér.

Í Föðurnum eru mörg atvik úr skilnaði þeirra hjóna sem skáldið notar nærri óbreytt. Siri hafði einhverntímann kallað til lækni til að athuga geðheilsu Strindbergs, þau deildu hart um forræði barnanna og Strindberg sagði einhverju sinni í bréfi til útgefanda síns að eftir að konur fóru að vinna á pósthúsinu, hafi handrit týnst og bréfum seinkað.

Tvennt er gert í Föðurnum sem hefur þýðingu, höfuðsmaðurinn kastar lampa í Láru, og fóstran setur hann í spennitreyju. Nánast allt annað sem drífur verkið áfram eru samtöl. Lára er mjög einstefnuleg og afgerandi, Strindberg lætur hvorki hana né neinn annan segja setningu sem sýnir fram á að hún hafi einhvern tímann verið særð djúpu hjartasári sem útskýri þessa heift. Sálfræðihernaður hennar er kerfisbundinn og viljastyrkur hennar hefur betur en "skynsemistaktík" höfðumannins. Hún er djöfulleg.

Í lok fyrsta þáttar segir hann: ". . . þér er gefið djöfullegt vald til að fá þínu framgengt, einsog þeim sem einskis svífast." Hún neitar því ekki, heldur opinberar fyrir honum og áhorfendum að hún svífst einskis, og segir svo um hjónaband þeirra, ". . . þú skalt ekki halda að ég hafi gefið mig, ég gaf ekki, ég tók það sem ég vildi fá." Vald hennar snýst fyrst og fremst um það að hún geti "terroriserað" hann með því að draga faðerni Bertu í efa. Í stað efans vill höfðusmaðurinn heldur deyja (Berta er honum allt), eða berjast einsog hann hefur tæknilega þjálfun til. Hann getur hins vegar ekki barist þannig í sálfræðistríði. Hann segir við Láru: ". . . ég bið þig einsog helsærður maður um líknarstungu, segðu mér allt. Sérðu ekki að ég er varnarlaus einsog barn, heyrirðu ekki að ég kvarta einsog við móður, gleymdu að ég er karlmaður, að ég er hermaður sem með einu orði getur látið menn og dýr hlýða; ég bið þig aðeins um miskunnsemi eins og sjúklingur, ég hendi frá mér valdstákni mínu og hrópa í bæn um líf. Lára svarar: "Hvað er að sjá! Græturðu, karlmaðurinn!" Hún hótar síðan forræðissviptingu þar til hann kastar lampanum í bræði. Strindberg gefur ekkert upp um aðdraganda "ástarstríðsins", enginn sérstakur atburður í lífi neinna persónanna orsakar þessi átök. Og ef um boðskap er að ræða í leikritinu má segja að hann felist í síðasta samtali þeirra hjóna. Þegar höfuðsmaðurinn liggur í sófanum, fastur í spennitreyju, gengur Lára að honum og spyr: "Trúir þú því að ég sé óvinur þinn?" Hann svarar því játandi og útlistar hvers vegna allar konur séu óvinir hans, m.a. látin móðir hans. Þá segir hún: "Ég kannast ekki við að hafa hugsað eða ætlast til þess sem þú heldur mig hafa gert. Sjálfsagt er óljós löngun innra með mér til að ryðja þér úr vegi, en haldir þú að ég hafi bruggað þér launráð, hef ég gert það óafvitandi. Ég hef aldrei velt atburðum fyrir mér, heldur hafa þeir runnið eftir þeim brautum sem þú sjálfur lagðir, og mér finnst ég saklaus fyrir guði og samvisku minni, jafnvel þótt ég sé það ekki í raun. Með öðrum orðum, stríð þeirra stendur ekki á milli réttlætis og ranglætis, heldur á milli skynsemi og tilfinninga.

Strindberg var stefnt fyrir sænskan rétt fyrir guðlast, m.a. fyrir bókina "Að giftast", en "Rauða rúmið" og "Personne" kölluðu einnig fram sterk viðbrögð. Þar hvatti hann ungmenni til uppreisnar gegn foreldrum, sagði þjóðfélagið drepa niður sköpunargleði fólks og að hjónabandið væri löglegt hórlífi. Það var hægri pressan og kirkjulegt yfirvald sem voru prímusmótorar í herferðinni gegn Strindberg og útgefanda hans Albert Bonnier. Bækur hans hurfu úr hillum bókabúða og hlóðust upp í vöruhúsum. Danskir gagnrýnendur voru jákvæðir þótt margir væru ósammála Strindberg, og snilligáfa hans var viðurkennd. Danski blaðamaðurinn Georg Brandes skrifaði kunningja sínum m.a.: ". . . þú verður að lesa hann. Hann er eini "talentinn" í Svíþjóð . . . hann á eftir að verða stórt nafn . . . hann stendur algjörlega einn gegn þessum vitleysingum og hræsni."

Strindberg var þá í Sviss ásamt Siri og nýfæddu þriðja barni þeirra. Hann fór til Svíþjóðar til að standa með útgefanda sínum í málarekstrinum og það kom honum á óvart að mikill mannfjöldi tók á móti honum, til heiðurs og stuðnings. Hann sneri aftur til Siriar eftir að hafa verið sýknaður, en var þess fullviss að feministar höfðu átt þátt í herferðinni gegn honum.

Þegar Faðirinn kom út var Strindberg því umdeildur maður og leikritinu var strax vel tekið, nema auðvitað í Svíþjóð. Sænska Dagblaðið sagði það vera ýkta útfærslu á þekktum skoðunum skáldsins á konum. Eftir fyrstu uppsetningu í Kaupmannahöfn var Strindberg hinsvegar líkt við snilling. Politiken sagði það skyldu frjálslynds fólks að sjá verk eftir þennann útskúfaða sænska rithöfund. Og franska skáldið Emile Zola skrifaði honum rétt fyrir jólin 1887: ". . .þú hefur náð fram kraftmiklum áhrifum af þessu þema efans um faðerni. Lára er stoltið og óvægið holdi klætt, með hennar dularfullu kostum og göllum . . . hún verður mér mjög eftirminnileg. Í stuttu máli, þú hefur skrifað áhugavert og forvitnilegt verk . . . eitt af þeim fáu verkum sem hafa snortið mig djúpt. Trúðu mér, þinn ævinlegi og einlægi "colleague", Emile Zola. Og Ibsen hinn norski sendi Hans Osterling útgefanda Föðurins línu frá München: ". . . maður les ekki bók eða verk eftir Strindberg í óstöðugu andrúmslofti ferðalaga. Ég hef þess vegna dregið að stúdera verk hans þar til núna, að ég er kominn í friðhelgi heimilis míns. Reynsla og athuganir Strindbergs einsog þær koma fram í Föðurnum eru ekki í líkingu við mínar. En það aftrar því ekki að sjá og finna til hins ofsafengna krafts sem býr í rithöfundinum, einsog í fyrri verkum hans. Faðirinn verður fljótlega settur upp í Kaupmannahöfn. Ef það verður leikið einsog á að leika það, með miskunnarlausu raunsæi, þá verða áhrifin mögnuð. Með þakklæti. Henrik Ibsen.

Strindberg var niðurdreginn og "paranoid" þótt honum þætti vænt um stuðninginn, og endanlegur skilnaður hans við Siri var að nálgast. Honum fannst kvölin af fjarvist Siriar vera verri en nálægðin við hana, þar til árið 1891, þegar hún flutti til Finnlands með Marie og börnunum. Skáldið átti þá, fremur en nokkur annar rithöfundur, eftir að skrifa fleiri klassísk verk byggð á hans persónulegu afdrifum.

Höfundur er kvikmyndagerðarmaður.

Tvennt er gert í Föðurnum sem hefur þýðingu, höfuðsmaðurinn kastar lampa í Láru, og fóstran setur hann í spennitreyju. Nánast allt annað sem drífur verkið áfram eru samtöl.EDVARD Munch: Strindberg.ÚR UPPFÆRSLU Leikfélags Reykjavíkur á Föðurnum eftir Strindberg 1987. Sigurður Karlsson í hlutverki höfuðsmannsins og Ragnheiður Elfa Arnardóttir í hlutverki Láru.