VERKAMANNAFÉLAGIÐ Hlíf í Hafnarfirði hefur beint þeim eindregnu tilmælum til sjávarútvegsráðherra, að ekki verði á ný sett löndunarbann hér á rússnesk veiðiskip vegna veiða þeirra á karfa á Reykjaneshrygg. Sjávarútvegsráðherra segir að unnið sé að því að bæta samvinnu okkar og Rússa, en ljóst sé að fara verði að lögum.
Verkamannafélagið Hlíf: Vill ekki löndun-

ar bann á Rússa

Fara verður að lögum, segir Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðherra

VERKAMANNAFÉLAGIÐ Hlíf í Hafnarfirði hefur beint þeim eindregnu tilmælum til sjávarútvegsráðherra, að ekki verði á ný sett löndunarbann hér á rússnesk veiðiskip vegna veiða þeirra á karfa á Reykjaneshrygg. Sjávarútvegsráðherra segir að unnið sé að því að bæta samvinnu okkar og Rússa, en ljóst sé að fara verði að lögum. Lögin kveða svo á um að sé deilt um nýtingu sameiginlegra fiskistofna, skuli þjóðum, sem ekki fara að alþjóðareglum við veiðarnar, óheimilt aðlanda afla sínum hér. Á síðasta ári var sett löndunarbann á Rússa, þegar afli þeirra var kominn yfir þau mörk, sem þeim voru ætluð.

Það var stjórn Hlífar, sem með samþykkt sinni beindi þessum tilmælum til sjávarútvegsráðherra. Í samþykktinni segir svo: "Slíkt löndunarbann leiðir einingis af sér tap fyrir íslenzka þjóðarbúið því rússnesku togararnir munu halda áfram að veiða karfa á Reykjaneshrygg eins og ekkert hafi í skorizt. En í stað þess að koma hingað til lands fara þeir til annarra landa, þar sem fiskinum verður landað og fengin sú þjónusta sem þá vanhagar um.

Mikil atvinna tapast

Verði löndunarbann sett á rússnesku togarana þýðir það missi á tugum atvinnutækifæra við löndun og þjónustu við skipin hér í Hafnarfirði. Auk þess má reikna með að 200 til 300 atvinnutækifæri í frumvinnslu aðkeypts hráefnis tapist. Þarna er því um milljarða króna tap að ræða.

Stjórn Hlífar telur að löndunarbann á togarana skaði einungis hagsmuni Íslendinga, en komi ekki í veg fyrir veiðar þeirra hér við land, úr fiskistofnum sem íslenzk stjórnvöld vilja semja um veiðar úr við rússnesk stjórnvöld.

Verði reynt að semja

Því ítrekar stjórn Hlífar tilmæli sín til fyrrgreinds ráðherra að setja ekki aftur löndunarbann á rússneska togara vegna veiða þeirra á Reykjaneshrygg, heldur reyna þess í stað að semja við rússnesk stjórnvöld um veiðarnar."

Unnið að bættum samskiptum

"Við höfum verið að vinna að því að bæta samskiptin við Rússland og koma á viðræðum um tvíhliða samskipti þjóðanna á sjávarútvegssviðinu," segir Þorsteinn Pálsson, sjávarútvegsráðherra. "Þetta hefur verið unnið í nánu samráði við utanríkisráðuneytið. Ég geri mér því vonir um að við getum bætt samskipti þjóðanna á þessu sviði.

Mestu skiptir að tryggja skynsamlega nýtingu

Við verðum engu að síður að framkvæma lögin og fyrir þeim eru líka gildar ástæður. Það eru gífurlegur þjóðhagslegir hagsmunir í húfi að þessir fiskistofnar utan lögsögunnar verði ekki veiddir upp og þar verði viðhaldið virkri stjórnun. Þannig að því fer fjarri að þar sé ekki verið að verja mikilvæga hagsmuni. Mestu hagsmunir okkar eru að verja þessa stofna og tryggja, eftir föngum, skynsamlega nýtingu þeirra," segir Þorsteinn.