BRAUÐSTRIT OG BARÁTTA Bókmenntir Sigurjón Björnsson Benedikt Sigurðsson: - Úr sögu byggðar og verkalýðshreyfingar á Siglufirði. Fyrra bindi. Myllu Kobbi. Forlag. Reykjavík 1989, 444 bls.

BRAUÐSTRIT OG BARÁTTA Bókmenntir Sigurjón Björnsson Benedikt Sigurðsson: - Úr sögu byggðar og verkalýðshreyfingar á Siglufirði. Fyrra bindi. Myllu Kobbi. Forlag. Reykjavík 1989, 444 bls. Siglfirðingar láta skammt stórra högga á milli í fræðimennsku og hafa nú heldur betur rekið af sér slyðruorðið. Í hitteðfyrra kom út hið mikla þriggja binda verk Sigurjóns Sigtryggssonar, Frá Hvann dölum til Úlfsdala. Í fyrra var það bókin Siglufjörður og nú fyrra bindi siglfirskrar verkalýðssögu. Auðséð er að siglfirðingar eiga góðum fræðimönnum á að skipa, enda þótt hæfileikar þeirra hafi ekki fengið að koma í ljós fyrr en aldurinn heimilaði þeim að líta upp úr brauðstritinu.

Þessi saga siglfirskrar verkalýðshreyfingar er rituð að forlagi verkalýðsfélagsins Vöku á Siglufirði og hefur vinna að henni staðið frá haustinu 1982 að því er segir í formála höfundar. Fyrri hluti verksins, sá er nú birtist, nær fram um miðjan fjórða áratug þessarar aldar. En ætlunin mun vera að sagan spanni alls 70 ár eða frá 1919 til 1989. Árið 1919 hefjast á Siglufirði skipuleg og varanleg verkalýðssamtök enda þótt nokkrir skammvinnir undanfarar í þá átt væru fyrr.

Þetta bindi skiptist í fimm kafla og greinist hver kafli í undirkafla, mismarga (frá 5 upp í 19).

Fyrsti kaflinn nefnist Útskaga byggð fyrir opnu hafi. Hefst hann á staðháttalýsingu. Hún er mjög stutt, enda ekki þörf á öðru, þarsem búast má við að þeir sem þessa bók lesa hafi í höndum rit Sigurjóns Sigtryggssonar, þar sem er að finna mjög ítarlega lýsingu á byggðarlaginu og sögu þess. Uppistaða kaflans er að öðru leyti frásögn af atvinnuháttum, kaupgjalds- og vistarmál um fram til ársins 1919.

Með öðrum kafla hefst hin eiginlega saga verkalýðshreyfingarinnar. Sá kafli heitir Verkalýðssamtök í mótun og greinir frá fyrstu árunum. Raunar skarast kaflarnir gjarnan nokkuð í tíma, þar sem um efnið er oft fjallað fremur þema tískt en í strangri tímaröð.

3. kaflinn heitir Hið pólítíska ívaf og er grunntónn hans átök milli jafnaðarmanna og kommúnista. Þar gekk hreint ekki lítið á stundum.

Í 4. kafla segir einkum frá hinum eiginlegu verkalýðsmálum, baráttu fyrir bættum kjörum. Nær hann yfir tímabilið 1923-1930.

Í 5. og síðasta kafla, en hann ber heitið Kreppuhryðjur og klofningsbrot og fjallar einkum um árin upp úr 1930 og fram á miðjan fjórða áratuginn, segir frá harðvítugum deilum og átökum. Þá er kreppan í algleymingi og miklar tilraunir gerðar til að lækka kaup verkafólks. Þá fara nasistar að láta á sér kræla, samtök klofna og sitthvað fleira sögulegt gerist.

Þessi verkalýðssaga er hrífandi lestur, sem heldur lesandanum föngnum. Þetta er saga heiftúðugra átaka á stundum bæði við atvinnuveitendur og innbyrðis. Ég hygg að hún láti fáa ósnortna. Hér má greina mikla og óeigingjarna fórnarlund, en líka mikinn og einstreng ingslegan pólítískan þvergirðing og skammsýni, svo og furðulega og nánast ósvífna óbilgirni. Lesandinn fær vissulega um margt að hugsa þegar hann les þessa sögu.

Eins og áður segir er þessi saga rituð að forlagi verkalýðsfélagsins Vöku. Eðli málsins samkvæmt er hún því rituð frá sjónarhóli verkalýðshreyfingarinnar. Það leynir sér auðvitað ekki og er ekkert við það að athuga. Mér virðist höfundur gæta alls hófs. Hann gerir sér far um að afla sem traustastra gagna og hann oftúlkar ekki. Mál hanser yfirleitt vel rökstutt. Frásögn hans er einkar skýr og skilmerkileg og rituð á hreinu, látlausu og lýtalausu máli. Hér er bersýnilega enginn viðvaningur á ferð. Gríðarmikið af myndum er í bókinni. Mikill fjöldi mannamynda og margar myndir úr siglfirsku atvinnulífi frá þessum tíma. Þá er í bókarlok ítarleg heimildaskrá, nafnaskrá og skrá um helstu atriðisorð. Er vel farið að þessar skrár skyldu ekki vera látnar bíða seinna bindis eins og oft er gert.

Bókin er prentuð á letri sem er þægilegt aflestrar. Prentvillur eru fáar og yfirleitt er öll útgerð bókarinnar til sóma.

Benedikt Sigurðsson