Einnota drykkjarumbúðir: Skilagjald frá 1. júní ­ móttaka byrjar í júlí STOFNAÐ hefur verið hlutafélag, Endurvinnslan hf., til þess að skipuleggja söfnun og endurvinnslu eða eyðingu skilagjaldsskyldra umbúða.

Einnota drykkjarumbúðir: Skilagjald frá 1. júní ­ móttaka byrjar í júlí

STOFNAÐ hefur verið hlutafélag, Endurvinnslan hf., til þess að skipuleggja söfnun og endurvinnslu eða eyðingu skilagjaldsskyldra umbúða. Þá ákvað iðnaðarráðherra, Jón Sigurðsson, með reglugerð sem gefin var út 1. júní síðastliðinn að frá og með þeim degi skyldi lagt skilagjald á öl, gosdrykki og aðra slíka drykki í einnota umbúðum úr málmi, gleri, plasti og öðrum sambærilegum efnum. Að því er stefnt, að fyrirtækið geti hafið móttöku á skila gjaldskyldum umbúðum í næsta mánuði og starfsemin öll verði komin í eðlilegt framtíðarform fyrir árslok.

Jón Sigurðsson iðnaðarráðherra sagði á blaðamannafundi í vikunni, að stigið hefði verið mikilvægt skref í bættri umhverfisvernd og nýtingu verðmætra efna. "Þetta er leið tilað virkja áhuga á því að halda landinu hreinu með þeim hætti að nokkur fjárhagslegur ávinningur er af þessu," sagði Jón Sigurðsson.

Skilagjaldið er ákveðið 4 krónur á hverja umbúðaeiningu og myndar stofn til söluskatts hjá söluaðilum og nemur skilagjaldið með söluskatti 5 krónum sem greiddar verða út þegar skil fara fram. Áætlað er að skilamiðstöðvum verði komið á fót vítt og breitt um landið og einnig að verslanir taki við umbúðum.

Að Endurvinnslunni hf. standa auk ríkissjóðs ÁTVR, SÍS, gosdrykkjaframleiðendur, fyrirtæki í málm- og endurvinnsluiðnaði, samtök kaupmanna og skátahreyfingin. Í stjórn félagsins hafa verið kjörnir Eiríkur Hannesson formaður, Höskuldur Jónsson varaformaður, Birgir Árnason, Magnús E. Finnsson og Einar Guðmundsson. Gunnar Bragason hefur verið ráðinn verkefnisstjóri næstu þrjá mánuði.