24. apríl 1997 | Blaðaukar | 436 orð

Geirþjófsfjörður Ævintýra- og sagnaheimur sem fáir þekkjaÞótt þangað liggi enginn vegur þekkir Björn Árnason staðinn og sögu

SUÐURFIRÐI Arnarfjarðar þekkja menn almennt, einkum ef þeir hafa farið leiðina ofan af Dynjandisheiði vestur til Bíldudals og byggðanna þar fyrir vestan og sunnan. Einn er þó sá fjörður, sem fæstir þekkja, þó frægur sé á sinn hátt, en það er Geirþjófsfjörður, sem er nyrstur Suðurfjarðanna. Til hans sést þó frá þjóðveginum, sem liggur eftir fjallsbrúninni vestan hans.

Geirþjófsfjörður

Ævintýra- og sagnaheimur sem fáir þekkja Þótt þangað liggi enginn vegur þekkir Björn Árnason staðinn og sögu hans.

SUÐURFIRÐI Arnarfjarðar þekkja menn almennt, einkum ef þeir hafa farið leiðina ofan af Dynjandisheiði vestur til Bíldudals og byggðanna þar fyrir vestan og sunnan. Einn er þó sá fjörður, sem fæstir þekkja, þó frægur sé á sinn hátt, en það er Geirþjófsfjörður, sem er nyrstur Suðurfjarðanna. Til hans sést þó frá þjóðveginum, sem liggur eftir fjallsbrúninni vestan hans. Þarna kúrir bærinn Botn, vestan í Geirþjófsfirði. Í dalnum innan og ofan bæjarins er vöxtulegur birkiskógur, sem á seinni árum hefur verið í greinilegri framför, eftir að beitarálag minnkaði.

Landslag er þarna mjög fagurt og stórbrotið og er hægt að virða það fyrir sér af þjóðveginum og nágrenni hans. Sjón er þó sögu ríkari, ef komið er á staðinn, en þangað liggur enginn vegur og er því þarna fáfarið mjög. Helst munu afkomendur og skyldmenni síðustu ábúendanna vera þarna á ferð til sumardvalar, en bæjarhúsin og sumarbústaður þeirra eru vel nýtanleg til þeirra hluta. Þarna er vettvangur Gísla sögu Súrssonar að hluta og staðurinn því sögustaður í bestu merkingu orðsins, þar sem mörg kennileiti eru vel þekkt enn í dag.

Þáverandi bóndi á staðnum, Magnús Kristjánsson, mun hafa verið áhugamaður um skógrækt og heimilaði hann Skógrækt ríkisins þegar árið 1944 að reisa girðingu um hluta landsins. Talið er að þarna hafi vakað fyrir mönnum að vernda birkiskóginn í dalnum, en heimildir eru ekki til um gróðursetningu þarna fyrr en eftir árið 1950. Samband skógræktarstjóra við Magnús virðist hafa leitt til þess, að er hann hugðist bregða búi, varð úr að Landgræðslusjóður festi kaup á jörðinni árið 1966. Hefur jörðin síðan verið í eigu sjóðsins. Nokkuð var haldið áfram að gróðursetja næstu árin en ekkert hefur verið gert af því hin síðari ár. Þarna eru nú álitlegir reitir barrtrjáa, sem eru góður mælikvarði á möguleika skógræktar á hinum heldur harðbýlu Vestfjörðum.

Stjórn Landgræðslusjóðsins hefur að undanförnu hugleitt, hver mundi verða framtíð þessa undurfagra og fræga staðar. Er það mál manna í þeim hópi, að hlutverk sjóðsins sé orðið svo breytt, að hugleiða beri í fullri alvöru þann möguleika, að koma eigninni eftir einhverjum leiðum í hendur heimamanna að nýju. Hefur þar einkum komið upp, að sveitarfélögin á Vestfjörðum, sem farin eru að huga að ferðamannaþjónustu í auknum mæli, gætu átt þarna góðan leik á borði. Hefur stjórnin þegar gert samþykkt í þá átt, að leita eftir hugmyndum og síðar viðræðum við heimamenn og samtök þeirra um framtíð staðarins.

Björn Árnason er formaður Landgræðslusjóðs Íslands.Geirþjófsfjörður er vettvangur Gísla sögu Súrssonar að hluta og mörg kennileiti eru þar vel þekkt enn í dag.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.