Úrslit pólsku kosninganna ættu að festa umbætur í sessi ­ segir málgagn sovéska kommúnistaflokksins Moskvu, Brussel, Varsjá. Reuter.

Úrslit pólsku kosninganna ættu að festa umbætur í sessi ­ segir málgagn sovéska kommúnistaflokksins Moskvu, Brussel, Varsjá. Reuter.

PRAVDA, málgagn sovézka kommúnistaflokksins, sagði í gær að kommúnistaflokkurinn í Póllandi ætti ugglaust erfitt með að kyngja úrslitum þingkosninganna þar í landi. Þau staðfestu þó og festu í sessi þá umbótaþróun sem flokkurinn hefði átt frumkvæði að og beitt sér fyrir í Póllandi. Aust ir-þýzkir fjölmiðlar fjölluðu fyrst í gær um kosningarnar og sögðu aðeins að ýmsir frambjóðendur stjórnarinnar hefðu ekki náð kjöri.

Pravda sagði að pólski kommúnistaflokkurinn ætti hrós skilið fyrir þær pólitísku og félagslegu umbætur sem hann hefði staðið fyrir. Engin ein pólitísk samtök gætu unnið landið út úr aðsteðjandi erfiðleikum ein og sér. "Það sem upp úr stendur er vöxtur og áhrif stjórnarandstöðunnar, einkum og sér í lagi verkalýðssamtakanna Samstöðu," sagði í umfjöllun Prövdu um pólsku kosningarnar, sem fram fóru sl. sunnudag.

"Hversu bitur sem úrslitin kunna að vera fyrir flokkinn og stjórnina þá ættu þau að flýta og festa í sessi félagslega endurreisn og róttækar umbætur sem eiga sér stað í Póllandi," sagði Pravda.

Leiðtogar Samstöðu féllust í fyrrakvöld á tillögur pólsku stjórnarinnar um að hún skipaði í 33 þingsæti, sem ætluð voru frambjóðendum kommúnistaflokksins, en gengu ekki út sl. sunnudag, þar eð enginn þeirra hlaut 50% atkvæða. Fulltrúar Samstöðu sögðu eftir átta stunda fund með Czeslaw Kiszczak, innanríkisráðherra, sem var einn frambjóðenda til sætanna umræddu, að fallist hefði verið á tillögur stjórnarinnar til þessað frekari umbótum yrði ekki stefnt í hættu.

Lech Walesa, leiðtogi Samstöðu, kvaðst í gær ekki geta útilokað það að einhverjir fulltrúar samtakanna tækju þátt í myndun samsteypustjórnar. Komu þessi ummæli hans nokkuð á óvart því fram til þessa höfðu talsmenn Samstöðu sagt að fulltrúar samtakanna á þingi vildu ekki ganga í stjórn með kommúnistum.

Reuter

Lech Walesa, leiðtogi Samstöðu (t.v.) og Bronislaw Garamak, hugmyndafræðingur samtakanna, við upphaf fundar með Czeslaw Kiszczazk, innanríkisráðherra, í fyrradag.