Bankaráð Landsbankans: Vaxtahækkun tekur ekki gildi BANKARÁÐ Landsbanka Íslands féll í gær frá því að hækka nú vexti af verðtryggðum útlánum úr 7,25% í 7,75%, en um það hafði ráðið tekið ákvörðun í fyrradag.

Bankaráð Landsbankans: Vaxtahækkun tekur ekki gildi

BANKARÁÐ Landsbanka Íslands féll í gær frá því að hækka nú vexti af verðtryggðum útlánum úr 7,25% í 7,75%, en um það hafði ráðið tekið ákvörðun í fyrradag. Ákvörðun um vaxtahækkunina var frestað til fundar bankaráðsins mánudaginn 19. júní, en þá er næst heimilt að breyta vöxtum. Steingrímur Hermannsson, forsætisráðherra, segir að ríkisstjórninni hafi tekist að fá Landsbankann tilað hætta við vaxtahækkun sína.

Vaxtahækkunin var samþykkt í bankaráðinu á fimmtudag með þremur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, gegn atkvæðum fulltrúa Alþýðuflokks og Alþýðubandalags. En á fundinum í gær, sem boðað var til með skömmum fyrirvara, var frestunin samþykkt með atkvæðum ríkisstjórnarflokkanna þriggja, Framsóknarflokks, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags, en tveir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá.

Pétur Sigurðsson, formaður bankaráðs Landsbankans, sagði að meirihluti þess hefði óskað eftir þessum fundi í gær, þar sem ákveðið var að fengnum meirihlutavilja að fresta lögmætri ákvörðun fyrri fundar. "Það er ljóst að það er auðvitað vegna beitingar ríkis stjórnarvalds, þrátt fyrir að við eigum samkvæmt nýsamþykktum lögum frá Alþingi að sjá um þetta. Ég bar fram þá spurningu í dag (gær), hvort þeir myndu þá um leið gæta þess að tryggja Landsbanka Íslands að hann stæði upp úr fjárhagslega, en við höfum rekið hann með fleirihundruð milljóna króna halla fyrstu fjóra mánuði ársins. Við því hafa ekki fengist nein svör, en væntanlega gefur fjármálaráðherra þau næstu daga," sagði Pétur.

Kristinn Finnbogason, fulltrúi Framsóknarflokksins í bankaráðinu, sagði að það væri algjör misskilningur að ríkisstjórnin hafi sett bankaráðinu stólinn fyrir dyrnar. Þessari ákvörðun hefði ekki verið breytt, það væri bara ekki búið að tímasetja hana. "Við verðum auðvitað að ganga í takt við almenning í landinu. Ég sá ekki annað en í Morgunblaðinu væri auglýst lækkun vaxta á bréfum ríkisstjórnarinnar niður í 6%. Landsbankinn er ekki eins og steinrunnið tröll og við verðum náttúrlega að ganga í takt við tímann," sagði Kristinn.

Valur Arnþórsson, bankastjóri Landsbankans, sagði aðspurður rétt vera að hann og forsætisráðherra hefðu rætt saman: "Ég skildi ekki samtalið við forsætisráðherra þannig að hann væri að leggja að mér að taka þessa ákvörðunina eða hina, enda var það ekki í mínum höndum," sagði Valur. "Hann lýsti almennt sínum viðhorfum til vaxta málanna í þjóðfélaginu og lagði reyndar mjög þunga áherslu á það hversu vaxtakostnaðurinn væri þungbær fyrir atvinnulífið. Ég segi það hiklaust fyrir mitt leyti. Það má öllum vera ljóst að ég tek ekkivið fyrirmælum frá aðilum utan bankaráðsins í þessum efnum og þó ég vilji taka tillit eftir því sem hægt er til stefnu ríkisstjórna í vaxtamálum á hverjum tíma, þá hlýt ég að fara eftir eigin sannfæringu í þeim efnum, enda breytti ég í engu afstöðu minni á bankaráðs fundinum í dag (í gær) frá því sem verið hafði í gær (í fyrradag). Það er hins vegar að sjálfsögðu bankaráðsins að ákveða vexti í samræmi við lög og bankaráðið ákvað á fundinum að fresta þessu eina atriði vaxtaákvarðana. Það hefur því enginn stórviðburður gerst."

Sverrir Hermannsson, bankastjóri Landsbankans, sem ekki gat setið bankaráðsfundinn í gær þarsem hann var fjarverandi úr bænum, sagði að sér kæmu þessi vinnubrögð gjörsamlega í opna skjöldu. "Mér þykir Landsbankinn heldur setja ofan við slíkar handatiltektir að rjúka saman á fund sólarhring eftir að ákvarðanir eru teknar til þess að taka þær aftur. Það er stjórnarmeirihlutinn, þeir sem ganga erinda ríkisstjórnarinnar og taka við fyrirskipunum frá henni, sem gerir þetta," sagði Sverrir Hermannsson.