Ráðherranefnd fjallar um loðdýrarækt á Íslandi MIKIÐ var rætt um vanda loðdýrabænda á fundi ríkisstjórnarinnar í gær. Engin niðurstaða fékkst í málinu, en ákveðið að ráðherranefnd myndi áfram vinna að úrlausn vandans.

Ráðherranefnd fjallar um loðdýrarækt á Íslandi

MIKIÐ var rætt um vanda loðdýrabænda á fundi ríkisstjórnarinnar í gær. Engin niðurstaða fékkst í málinu, en ákveðið að ráðherranefnd myndi áfram vinna að úrlausn vandans. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru ráðherrar ríkisstjórnarinnar orðnir afar vondaufir um að loðdýrarækt á Íslandi verði bjargað.

Það sem einkum mun valda stjórnvöldum áhyggjum, hvað vanda loðdýrabænda varðar, er hvernig hægt sé að forða því að þeir sem fyrir hvatningu stjórnvalda völdu loðdýrarækt á sínum tíma, komist á vonarvöl. Einn ráðherra ríkisstjórnarinnar orðaði það svo í samtali við Morgunblaðið í gær: "Það er ekki sízt verið að skoða það hvernig megi koma þeim sem ekki eygja neitt áframhald í þessari atvinnugrein, út úr henni, án þess að þeir verði fyrir meiriháttar skakkaföllum."

Ríkisstjórnin gerir ráð fyrir því að einhver fjöldi loðdýrabúa verði eftir, þó að margir verði að hætta. Þessi bú eigi þá að eiga vaxtarmöguleika og fá að dafna í rólegheitum, þegar aftur hefst uppgangur í greininni.

Það mun hafa verið niðurstaða þessa ríkisstjórnarfundar, að vonlaust væri að halda áfram að ausa fé í taprekstur loðdýraræktar. Ekki mun ágreiningur um það milli stjórnarflokkanna. Þeir Steingrírmur Hermannsson, forsætisráðherra, og Steingrímur J. Sigfússon, landbúnaðarráðherra, eru þó sagðir helstu talsmenn loðdýrabændanna og mun þeirra rökstuðningur helstur hafa verið sá að stjórnvöld gætu vart axlað þá ábyrgð að sjá um 350 fjölskyldur missa heimili sín og jarðir, í kjölfar þess að þær yrðu að hætta loðdýrarækt.