Seðlabanki fær sex daga til að lækka raunvexti SEÐLABANKINN fékk þau boð frá ríkisstjórninni í gær, að afloknum fundi hennar, að honum bæri að sjá til þess að raunvextir lækkuðu næstu daga.

Seðlabanki fær sex daga til að lækka raunvexti

SEÐLABANKINN fékk þau boð frá ríkisstjórninni í gær, að afloknum fundi hennar, að honum bæri að sjá til þess að raunvextir lækkuðu næstu daga. "Við ræddum mikið um vexti á þessum fundi, og okkur tókst nú að fá Landsbankann til að hætta við sína vaxtahækkun," sagði Steingrímur Hermannsson, forsætisráðherra í samtali við Morgunblaðið í gær, að afloknum fundi ríkisstjórnarinnar.

"Það var jafnframt ákveðið að gefa Seðlabankanum frest til næsta fimmtudags að koma því til framkvæmda sem ríkisstjórnin ákvað í mars, að raunvextir lækki í þessu landi í áföngum á næstunni," sagði forsætisráðherra.

Forsætisráðherra sagði að þessi lækkun raunvaxta þyrfti að verða bæði á innláns- og útlánsvöxtum. "Ég hef alltaf sett það sem markmið að þetta verði svipað og var árið 1986, en þá voru meðalinnlánsvextir neikvæðir um 0,9%, sem er ákaflega eðlilegt vegna þess að mikið af fjármagni er á ótryggðum reikningum, ávísunarreikningum og svo framvegis. Þá voru útlánsvextir 5%, en meðalinnlánsvextir 1988 eru 3,2%, sem er hrein vitleysa og útlánsvextir 10%," sagði Steingrímur.

Steingrímur sagði að til þess að ná því vaxtastigi sem verið hefði 1986 þyrfti að afnema skiptikjarareikninga, sem samræmdust engum markaðskenningum. Þá yrði jafnframt hægt að lækka útlánsvextina. Steingrímur sagði að algjör samstaða hefði verið um þetta mál í ríkisstjórninni.