Stálvinnslan hf. selur flokkunarvél til Japans Kaupmannahöfn, frá Hirti Gíslasyni, blaðamanni Morgunblaðsins. STÁLVINNSLAN hf. í Reykjavík hefur nú náð samningum um söluá flokkunarvél fyrir síld, makríl og skyldar fisktegundir til Japans.

Stálvinnslan hf. selur flokkunarvél til Japans Kaupmannahöfn, frá Hirti Gíslasyni, blaðamanni Morgunblaðsins.

STÁLVINNSLAN hf. í Reykjavík hefur nú náð samningum um söluá flokkunarvél fyrir síld, makríl og skyldar fisktegundir til Japans. Samningar þessir náðust fyrir milligöngu umboðsmanns Stálvinnslunnar á Nýja-Sjálandi. Flokkunarvélar af þessu tagi frá Stálvinnslunni eru nú í notkun víða um heim, flestar í Danmörku og á Írlandi, en markaður fyrir þær er einnig töluverður í Noregi.

Þráinn Sigtryggsson, framkvæmdastjóri Stálvinnslunnar, STAVA eins og hún heitir erlendis, sagði í samtali við Morgunblaðið á sjávarútvegssýningunni í Bella Center í Kaupmannahöfn, að hann byndi vonir við frekari viðskipti í austurlöndum í kjölfar þessa. "Ég hef ætíð náð árangri á þeim mörkuðum, sem ég hef á annað borð komist inn á." Hann sagði að þegar ísinn hefði verið brotinn í Danmörku, hefði salan orðið mikil, nú væru yfir 20 flokkunarvélar frá STAVA í Hirtshals, Skagen, Esbjerg og víðar. Svipaða sögu mætti segja um Írland, þangað væru nú komnar um 20 vélar. Hann hefði kynnt vélina á sjávarútvegssýningunni í Þrándheimi í fyrra og nú væru 7 vélar seldar þar, flestar um borð í fiskiskip.

"Þetta er árangur þrotlausrar vinnu og mikils kostnaðar. Því er ánægjulegt að sjá hve áhuginn er mikill og hve víða," segir Þráinn.

STAVA sýnir hér einnig nýja flokkunarvél fyrir lifandi lax og silung. Vélin flokkar fiskinn eftir stærð, þannig að þegar hann er settur í ker eða kvíar er betur hægt að velja saman heppilegar stærðir og þannig spara verulega fóðrun. Einnig er hægt að flokka fiskinn fyrir slátrun, þannig að aðeins verði slátrað þeim fiski, sem er af réttri stærð.

"Með þessu geta menn sparað um hálfa milljón króna á mánuði með markvissari og réttari fóðrun og munar miklu um það. Vélin hefur verið í notkun frá áramótum í íslenskri fiskeldistöð og hefur reynst afburðavel," segir Þráinn.