Viðræður um sameiningu fjögurra banka langt komnar: Samningsaðila greinir enn á um kaupverð hlutabréfanna Viðræður á viðkvæmu stigi í gærkvöldi Í ALLAN gærdag stóðu viðræður milli bankaráðsformanna og bankastjóra Verzlunarbankans, Iðnaðarbankans og...

Viðræður um sameiningu fjögurra banka langt komnar: Samningsaðila greinir enn á um kaupverð hlutabréfanna Viðræður á viðkvæmu stigi í gærkvöldi

Í ALLAN gærdag stóðu viðræður milli bankaráðsformanna og bankastjóra Verzlunarbankans, Iðnaðarbankans og Alþýðubankans annars vegar og viðskiptaráðherra og aðstoðarmanna hans hinsvegar um kaup bankanna þriggja á hlut ríkisins í Útvegsbankanum og sameiningu bankanna fjögurra í einn stóran einkabanka. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins gerðu bankarnir viðskiptaráðherra tilboð í fyrradag, en hann hafði ýmsar athugasemdir við það og greinir samningsaðila einkum á um kaupverðið. Samningamenn vildu lítið tjá sig um gang viðræðnanna í gærkvöldi, en sögðu að þær væru á afar viðkvæmu stigi. Viðræður stóðu enn á öðrum tímanum í nótt.

Um er að ræða að bankarnir kaupi 76% hlut ríkisins í bankanum. Nafnverð hlutabréfanna er um 760 milljónir króna, og vill ráðherra fá um það bil tvöfalt nafnverðið. Bankarnir eru hins vegar ekki tilbúnir að fara svo hátt. Ágreiningur um andvirði bréfanna byggist einkum á mismunandi mati manna á stöðu skuldara Útvegsbankans. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins myndu bankarnir allir kaupa jafnan hlut í Útvegsbankanum. Alþýðubanka, Verzlunarbanka og Iðnaðarbanka yrði um leið breytt í eignarhaldsfélög og bankarekstur þeirra rynni inn í hinn nýja einkabanka, sem fengi nýtt nafn. Að sameiningu bankanna fjögurra lokinni, sem yrði einhvern tímann á þessu ári, myndi nýi bankinn auka hlutafé sitt og eignarhaldsfélögin kaupa jafna hluti, þannig að þegar upp yrði staðið ætti hvert félag um 30% í bankanum. Fiskveiðasjóður á nú rúm 10% í bankanum, en áætlað er að hlutur hans myndi minnka með því að hann keypti engin bréf er hlutaféð yrði aukið. Aðrir aðilar myndu svo eiga fáeina hundraðshluta af hlutafénu.

Ef af sameiningu verður mun nýi bankinn verða sá næststærsti á landinu, með um þriðjung allra bankaviðskipta. Það er hins vegar ljóst að dregið yrði úr umfangi starfsemi þeirrar, sem bankarnir fjórir halda nú úti. Útibú yrðu sameinuð og þeim fækkað og starfsfólki einnig. Frá fjölmörgum öðrum lausum endum þarf að ganga, svo sem hliðar rekstri einstakra banka. Þar má nefna verðbréfamarkaði, fjármögnunarfyrirtæki, hlutdeild í greiðslukortafyrirtækjum og fleira.